01.05.1980
Neðri deild: 68. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2270 í B-deild Alþingistíðinda. (2151)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Við, sem erum komnir á miðjan aldur, höfum lesið margar sögur íslenskar um þá hátíð og þá stemmningu sem greip fjölskyldur á aðfangadag jóla, sérstaklega á þeim heimilum sem úr litlu höfðu að spila, þá hátíð sem varð í hugum manna við það litla sem heimilin höfðu þá að bjóða. Þetta skapaði vissa stemmningu sem menn, sem nú eru komnir á fullorðinsár, minnast og muna. Við höfum nú á aðfangadagskvöldi 1. maí tekið á móti gjöfum í hátíðarskapi sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur skapað sjálfsagt bæði í huga og í hjarta launþega. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þessar gjafir muni verða metnar á næstunni eins og verðugt er, því að með þeim hefur verið gengið þvert gegn öllum loforðum þeirra manna, sem nú skipa þann meiri hl. sem styður núv. hæstv. ríkisstj.

Mér sýnist á öllu að þeir einu, sem geta staðið hér í kvöld með höfuð hátt, séu þeir úr þingflokki Sjálfstfl. sem standa við þau fyrirheit sem þeir gáfu í síðustu kosningabaráttu, því enn höfum við ekki svikið neitt af þeim loforðum. Hins vegar eru því miður menn, sem hafa gert það, hér í salnum í kvöld. En mér finnst satt að segja grátlegt að hlusta á þá menn, sem þvengjalengjast hér upp í ræðustól ítrekað til þess að benda á það, að það sé Sjálfstfl. sem standi að þeim sköttum sem verið er nú að framlengja og íþyngja frá því á vinstristjórnartímanum. Eins og hér kom réttilega fram í ræðu hv. þm. Geirs Hallgrímssonar, þá er þetta auðvitað beint framhald af því sem skeði á árum beggja vinstri stjórna, hjá báðum Ólafíustjórnunum. Og það voru ekki sjálfstæðismenn, sem blésu lífsanda í nasir síðustu vinstri stjórnar, heldur voru það Alþfl.-menn. Það, sem hér er að ske nú, er því á þeirra ábyrgð, en ekki á ábyrgð okkar sjálfstæðismanna.