01.05.1980
Neðri deild: 68. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2275 í B-deild Alþingistíðinda. (2155)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurður Óskarsson:

Herra forseti. Stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. á Alþingi Íslendinga hafa haldið sína 1. maí ræðu hér í kvöld. Ég átti sannarlega ekki von á því, að skattpíningarfrv. þessu líkt yrði samþykkt á baráttudegi verkafólks fyrir tilstilli þeirra sem hæst hafa látið um að þeir væru verndarar launafólks í þessu landi. Aldrei hefur það komið skýrar í ljós og aldrei hefur það komið í ljós svona skýrt 1. maí, þó að ýmislegt hafi skeð á þeim degi, að Alþb. er ekki flokkur launafólks í þessu landi. Mér kemur ekkert á óvart þó að framsóknarmenn greiði þessu frv. atkv., því að þeir hafa ekki einu sinni reynt að telja launafólki í þessu landi trú um að þeir ynnu fyrir það.

En að gefnu tilefni og vegna ummæla hv, þm. Sighvats Björgvinssonar og Vilmundar Gylfasonar um ábyrgð Sjálfstfl. á því, sem hér hefur verið samþ. í kvöld, vil ég segja það, að Sjálfstfl. ber ekki ábyrgð á þeim einstaklingum sem hér hafa greitt atkv, að eigin sögn eftir sinni sannfæringu í kvöld. Ég harma það, að nokkrir þeirra manna, sem ég barðist með í síðustu kosningabaráttu, skuli hafa gleymt loforðum sínum og þeir skuli nú styðja arðrán á þá sem minnst mega sín í þessu þjóðfélagi. Ég vona að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, Vilmundur Gylfason og flokksbræður þeirra verði duglegri málsvarar verkalýðsins innan verkalýðshreyfingarinnar við kjarasamningaborðið næstu daga en þeir hafa verið undanfarna daga og þar fari eitthvað eftir þeim orðum sem hafa verið látin falla í kvöld af þm. þessa flokks. Mér hefur einmitt fundist það stundum vilja brenna við, að Alþfl. sækti meira til Alþb. á vettvangi verkalýðssamtakanna en þm. hans vilja vera láta innan veggja Alþingis í kvöld. Og ég fagna því, ef túlka má þessi ummæli hv. þm. sem stefnubreytingu innan raða verkalýðshreyfingarinnar. Við þurfum ekki að búast við því í þeim kjarasamningum, sem fram undan eru, að okkur takist með tilstilli Alþb. að endurheimta eitthvað af því sem verið er að ræna hér með skattalögum af verkafólki á Alþingi Íslendinga 1. maí. Alþb. hefur yfirleitt haft lágt um sig á vettvangi kjaramálanna þegar Alþb.-menn hafa setið í ráðherrastólum á Íslandi, og ég geri ekki ráð fyrir því að þar verði nein breyting á.

Það eru ekki fulltrúar verkalýðsins eða Verkamannasambands Íslands, sem ráða ríkjum í flokksstjórn Alþb. á Íslandi. Ef það væri, þá hefði formaður Verkamannasambandsins verið hér í kvöld og atkv. hefðu fallið á annan veg en þau gerðu.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.