05.05.1980
Efri deild: 75. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2330 í B-deild Alþingistíðinda. (2202)

31. mál, lögskráning sjómanna

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Samgn. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 63 frá 29. mars 1961. N. fékk umsagnir um þetta mál frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Sjómannasambandi Íslands.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem hún flytur á sérstöku þskj., þskj. 416, og eru það till. sem byggðar eru á tillögum frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Sjómannasambandinu, en þær fjalla annars vegar um að herða á ábyrgð skipstjórnarmanna að fylgja lögunum um lögskráningu og hins vegar að kveða stíft á um að stéttarsamtökum sjómanna sé heimill aðgangur að gögnum um lögskráningu.

Á fund nefndarinnar kom enn fremur Hjörtur Magnússon fulltrúi hjá tollstjóra, sem annast lögskráningu fyrir hönd tollstjóraembættisins hér í Reykjavík. Hann lagði fram þau tilmæli við nefndina að breytt yrði um innheimtu á gjöldum til Atvinnuleysistryggingasjóðs, sem lögskráningarstjórum er skylt að innheimta áður en lögskráning fer fram, á þann veg að innheimta þeirra yrði eins og á öðrum sambærilegum gjöldum. Það er í samræmi við breytingu sem gerð var árið 1978, en síðan hafa slysa- og lífeyristryggingaiðgjöld verið innheimt á þann hátt, og slíkt mundi vera mikil einföldun. Enn fremur gæti það komið í veg fyrir að menn hliðruðu sér hjá að láta lögskrá sig vegna þess að þessi gjöld þyrfti að greiða fyrir fram.

Nefndin athugaði þetta mál nokkuð og eru menn sammála um að rétt sé að stefna að því að breyta lögunum á þennan hátt, þar sem það mundi verða til einföldunar. Hins vegar kom fram við þá athugun að æskilegt væri að gera e. t. v. meiri breytingar, þ. e. að í stað þess að nú eru iðgjöld til Atvinnuleysistryggingasjóðs miðuð við vinnuvikur mundi það vera mikil einföldun ef þau yrðu miðuð við laun á sama hátt og nú tíðkast yfirleitt. Slík breyting er svo viðamikil að n. taldi ekki fært að hnýta hana við þetta frv. að þessu sinni, en vill leggja áherslu á að þetta mál verði tekið til athugunar, þar sem þeir, sem um þessi mál fjalla, telja tvímælalaust að þarna gæti verið um einföldun og sparnað að ræða. Ættu allir að vera sammála um að að slíku beri að vinna ef ekki fylgja því allt of miklir annmarkar.

En n. leggur til að frv. verði samþ. með þeim brtt. sem hún leggur fram á þskj. 416.