06.05.1980
Sameinað þing: 53. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2367 í B-deild Alþingistíðinda. (2264)

234. mál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1980

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. S. l. laugardag voru lögð fram hér í Sþ. tvö þingmál, annars vegar fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1980, þ. e. skýrsla ríkisstj. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sem hæstv. forsrh. hefur nú mælt fyrir, hins vegar frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1980 sem er flutt í Nd. þar sem hér er um að ræða tvær hliðar á sama málinu, en síðara málið verður tekið til umr. í Nd. hér á eftir, þótti mér eðlilegra að það, sem ég segði um þessi mál, kæmi fram strax við þá umr. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlunina sem nú fer fram. Ég mun hins vegar láta mér nægja örfá orð til að fylgja lánsfjárlagafrv. úr hlaði þegar það kemur til umr. síðar í dag í hv. Nd.

Síðan í haust hefur verið ljóst að framkvæmdaáform í landinu væru býsna stór í sniðum og þá einkum og sér í lagi í orkumálum. Þegar þessi ríkisstj. var mynduð var ljóst, að miðað við áform opinberra aðila um fjárfestingar stefndi í erlenda lántöku að upphæð um 110 milljarðar kr. Skuldahlutfall Íslendinga gagnvart öðrum þjóðum var í árslok seinasta árs um 34.9% ef miðað er við vergar þjóðartekjur. Og enginn vafi er á því, að varhugavert er að hækka verulega þetta hlutfall skulda miðað við heildartekjur þjóðarinnar. Vextir eru mjög háir á erlendum lánsfjármarkaði og því ljóst að gæta verður hófs í erlendum lántökum.

Síðan ríkisstj. var mynduð hefur verið unnið að því jafnhliða fjárlagagerð að lækka þessar fjárhæðir með öllum tiltækum ráðum, annars vegar með röðun framkvæmda í forgangsröð með hliðsjón af því að hægt sé að fresta þeim að hluta til til næsta árs, hins vegar með því að auka innlent lánsfé. Niðurstaðan af þessu starfi liggur nú fyrir og felst í því, að erlend lántaka mun nema á þessu ári rúmum 85 milljörðum í staðinn fyrir þá 110 milljarða sem ég nefndi áðan. Heildarframkvæmdir í landinu eru áætlaðar 327 milljarðar kr., þ. e. fjármunamyndunin eins og hún nefnist á hagfræðingamáli. Þar af eru í atvinnuvegum áætlaðar framkvæmdir upp á 132 milljarða í íbúðarhúsnæði upp á 69 milljarða og í opinberum mannvirkjum upp á 126 milljarða, en þar af eru rúmir 70 milljarðar eða 56% í orkuframkvæmdum.

Nú er áætluð þjóðarframleiðsla á árinu 1980 talin verða — að sjálfsögðu lauslega áætluð — um 1232 milljarðar. Er því ljóst að fjármunamyndunin, heildarfjárfestingin sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu, mun væntanlega verða nálægt 26.5%. Ýmsir munu verða til að halda því fram, að hér sé enn um of miklar framkvæmdir að ræða og of mikla skuldasöfnun. Ef framkvæmdaáformin eru hins vegar nánar skoðuð hygg ég að flestir muni komast að þeirri niðurstöðu, að hér sé almennt um brýnar og óhjákvæmilegar framkvæmdir að ræða sem ekki er auðvelt að skjóta til næsta árs. Framkvæmdir Landsvirkjunar við Hrauneyjafossvirkjun hafa verið takmarkaðar eins og kostur er, en nokkuð ljóst er að væru þær takmarkaðar enn frekar yrði veruleg hætta á orkuskorti annað haust, sem gæti haft geigvænlegar afleiðingar fyrir þjóðarbúið, ef þá orku, sem þá kynni að skorta, yrði alla að framleiða með dísilvélakeyrslu.

Í haust var um það rætt, að erlendar lántökur mættu helst ekki fara fram úr 70 milljörðum kr. En það þarf tæpast að taka það fram, að þessi tala er löngu, löngu úrelt, ekki aðeins vegna nauðsynlegra framkvæmda eins og þeirra sem ég nú nefndi, heldur einnig vegna þess að verðlagsþróunin og gengisþróunin hefur gert þessa tölu úrelta fyrir mörgum mánuðum. Ég held að aðalatriði málsins sé það, að skuldahlutfallið, sem ég nefndi áðan, hlutfall langtímaskulda í erlendum gjaldeyri miðað við þjóðartekjur, hækki ekki. Það var í árslok 1979 34.9%, en miðað við erlenda lántöku upp á 85 milljarða er því spáð, að skuldahlutfallið verði um 34% nú í árslok. Þessar upplýsingar eru fengnar frá hagfræðideild Seðlabankans og niðurstaðan er sú, að lántakan er ekki meiri en svo að skuldahlutfallið lækkar á árinu, en hækkar ekki eins og það hefur gert á undanförnum árum. Endurgreiðsla af erlendum lánum mun á þessu ári væntanlega nema um 46 milljörðum kr. þannig að hrein aukning skulda gagnvart útlöndum verður um 39 milljarðar. En vegna þess að þjóðarframleiðslan stigur upp á við með hverju árinu, þá er gert ráð fyrir að þetta hlutfall standi nokkurn veginn í stað og lækki þó heldur. Að vísu skal það viðurkennt, að tölur af þessu tagi verða aldrei reiknaðar með ítrustu nákvæmni, en þó held ég að þessi staðreynd liggi nokkuð ljóst fyrir og verði að teljast viðunandi að hlutfallið skuli ekki hækka.

Önnur viðmiðun í þessu sambandi getur verið sú, hvort greiðslubyrði af erlendum lánum í hlutfalli við útflutningstekjur þjóðarinnar hækkar úr hófi fram. Ég held að menn verði að viðurkenna það, að þessi viðmiðun er miklu hæpnari og óáreiðanlegri, í fyrsta lagi vegna þess að sveiflur í útflutningstekjum eru ærið miklar frá ári til árs og miklu meiri en sveiflur í þjóðarframleiðslu, og eins eru ekki síður miklar sveiflur í vaxtafjárhæðum, vaxtagreiðslum, sem gera það að verkum að þessi prósentutala, þetta hlutfall greiðslubyrðarinnar getur sveiflast ærið mikið frá ári til árs án þess að nein raunveruleg breyting hafi átt sér stað í skuldastöðu.

Í stjórnarsáttmála ríkisstj. er þess getið, að hlutfall greiðslubyrðarinnar eigi ekki að fara yfir 15% og erlendar lántökur skuli við það miðaðar (Gripið fram í: 25%.) Nei, að greiðslubyrði af erlendum lánum í hlutfalli við útflutningstekjur fari ekki yfir 1 5%. Ég vil hins vegar upplýsa það hér, að þessi prósentutala var ákveðin á grundvelli rangra upplýsinga. Þegar stjórnin var mynduð lá það fyrir, þó að það væri ekki orðin opinber staðreynd og þó að stjórnarmyndunaraðilar hefðu ekki þær upplýsingar í höndum, að hlutfall greiðslubyrðarinnar var þá þegar um eða yfir 16% og hafði hækkað í höndunum á hagfræðingunum um heil 2% á fáeinum vikum. Skýringin á þessu er ósköp einfaldlega sú, að í lok seinasta árs og byrjun þessa árs urðu feiknamiklar hækkanir vaxta hjá þeim þjóðum, þar sem skuldir okkar eru bundnar, og þessi vaxtahækkun olli því að greiðslubyrðarhlutfallið hækkaði mjög verulega á fáeinum vikum. Þetta sýnir kannske betur en flest annað hversu fráleitt er að nota þessa prósentutölu sem viðmiðun í sambandi við hámark erlendrar lántöku.

Ég vil einnig minna á það hér, að hagfræðingar hafa hvað eftir annað reiknað það út á seinasta áratug að greiðslubyrði af erlendum lánum stefndi í 20% af útflutningstekjum. Ég minnist þess t. d. í fjmrh.-tíð hv. þm. Matthíasar Á. Mathiesen, að hagfræðingar töldu að þessi prósentutala stefndi í 20% á árunum 1975,1976 og 1977. En þessi spá rættist aldrei og hlutfall greiðslubyrðarinnar hélt áfram að vera nokkurn veginn það sama eða 13–14% lengst af, þar til nú skyndilega að það stekkur upp á við í 16%, en upplýsingar um þetta lágu því miður ekki fyrir fyrr en í marsmánuði, þ. e. einum mánuði eftir að núv. ríkisstj. var mynduð. Ég vil sem sagt ítreka það, að skuldahlutfallið er miklu eðlilegri viðmiðun í þessu sambandi og það ánægjulega er að það hækkar ekki á árinu þrátt fyrir þessa 85 milljarða lántöku.

Seðlabankinn hefur nú til athugunar erlendar lántökur í þágu ríkissjóðs, en ljóst er að aðstæður eru erfiðar og óhagstæðar á erlendum lánsfjármörkuðum. Þegar frv. til lánsfjárlaga hefur verið samþ. er fyrirhugað að tekið verði 30 millj. dollara lán og lánstími verði fimm ár, en síðar á árinu yrði svo tekið það sem á vantar. Gert er ráð fyrir að þetta lán, sem tekið verður hjá breskum bönkum, verði endurgreitt í einu lagi að lánstíma liðnum, en heimilt verður að greiða það upp á lánstímanum og draga síðan á lánið að nýju þegar henta þykir. En þessum endurgreiðslumöguleikum fylgir aukinn sveigjanleiki sem er mikils virði nú á tímum mikillar óvissu á lánamörkuðum.

Lánið er einnig sveigjanlegt að því leyti, að hægt er að fá það greitt í ýmsum gjaldmiðlum eftir nánari ákvörðunum lántakanda. Vextir eru áformaðir 3/8% yfir millibankavöxtum í London fyrstu tvö árin, en 1/2% yfir millibankavöxtum síðari þrjú árin. Lántökugjald er 7/16% af lánsupphæðinni og skuldbindingargjald 1/4% af þeim hluta lánsins sem er ónotaður á hverjum tíma, en árlegt umsjónargjald 1500 dollarar. Ég held að óhætt sé að fullyrða að þessi kjör, sem okkur bjóðast, séu í samræmi við það sem gerist best á erlendum lánamarkaði.

Eins og ég hef þegar tekið fram hafa ráðstafanir verið gerðar til þess að efla innlendan sparnað í þágu fjárfestingarsjóða og framkvæmda opinberra aðila. Ég vil gera hér grein fyrir þessum ráðstöfunum, en þær eru í fyrsta lagi að gert verði ráð fyrir að lífeyrissjóðir kaupi skuldabréf af Framkvæmdasjóði, Byggingarsjóði ríkisins eða ríkissjóði sem nemur 40% af ráðstöfunarfé þeirra. Þetta er sama reglan og gilti á s. l. ári, með lítils háttar breytingu sem ég geri grein fyrir á eftir.

Í fyrra áætlaði fjmrn. að þessi viðmiðunarregla gæfi 11 milljarða sparnað, en reyndin varð sú að lífeyrissjóðirnir keyptu skuldabréf fyrir hærri upphæð en þessu nam eða fyrir 12 milljarða kr. Ráðstöfunarfé þeirra reyndist líka meira en upphaflega var áætlað. Það var upphaflega áætlað 28 milljarðar, en varð í reynd um 34 milljarða, þannig að þegar öll kurl voru til grafar komin reyndust skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna nema um 36% af ráðstöfunarfé þeirra, en ekki 40% eins og áður hafði verið ráð fyrir gert. Nú er ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna áætlað 50 milljarðar kr. Má vel vera að það sé vanáætluð tala. Við höfum gert ráð fyrir í þessari lánsfjáráætlun, að reynt verði enn að tryggja að lífeyrissjóðirnir kaupi skuldabréf fyrir 40% af ráðstöfunarfé sínu, en þó er líklegt að á þessu ári eins og í fyrra kaupi margir þeirra skuldabréf fyrir hærri upphæð en nemur 40% af ráðstöfunarfé þeirra. Þess vegna er nú áætlað að skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna nemi um 21.5 milljörðum kr.

Ákvæði um kaup lífeyrissjóða á skuldabréfum hafa verið í lögum um margra ára skeið, en þó með breytilegu efni og orðalagi. Orðalagið nú er í meginatriðum eins og það var á s. l. ári, en þó verður að játa að það er eilítið strangara að því leyti, að gert er ráð fyrir að sjóðirnir kaupi skuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins, Framkvæmdasjóði og ríkissjóði, en þetta var ekki áskilið í frv. eins og það var lagt fram í fyrra. Nú er ljóst að stjórnendur sumra lífeyrissjóðanna eru ósáttir við það, að orðalag í þessum efnum sé strangara en var á s. l. ári, og þeir hafa þegar gert aths. við það í viðræðum sem átt hafa sér stað milli þeirra og fjmrn. Ég tel því sjálfsagt, að gerð verði tilraun til að ná samkomulagi um þessi mál, og vænti þess, að meðan frv. verður til meðferðar í hv. fjh.- og viðskn. Nd. verði reynt að komast að niðurstöðu í þessum efnum sem allir geti vel við unað. En mér virðist að hér geti varla verið mikið stórmál á ferðinni. Ég held að enn sem fyrr sé ríkur áhugi á því hjá stjórnendum og forstöðumönnum lífeyrissjóðanna að ávaxta fé þeirra með þessum hætti. Þetta er langbesta ávöxtunin sem þeir eiga kost á, og miðað við að sjóðirnir keyptu í fyrra fyrir talsvert hærri fjárhæð en þeim var ætlað, þá geri ég ráð fyrir að það eigi að vera unnt að ná samkomulagi um þessi efni sem öllum líki.

Í öðru lagi vil ég upplýsa hér, að stefnt er að því, að 7% af innlánsaukningu banka og sparisjóða verði sparnaður í þágu framkvæmda á vegum ríkissjóðs og í þágu fjárfestingarlánakerfisins. Eins og menn vita hafa bankar lagt fram 4% af innlánsaukningu sinni í framkvæmdasjóðskerfið, en nú er sem sagt gert ráð fyrir að þessi prósentuupphæð verði hækkuð í 7% og að þessi kvöð verði ekki aðeins lögð á banka, heldur einnig á sparisjóði og hvers konar innlánsstofnanir. Ég vil í þessu sambandi láta þess getið, að ekki er þörf á sérstakri lagasetningu til að koma þessu fram, þar sem Seðlabanki Íslands hefur heimildir í 12. gr. seðlabankalaga til að leggja þessa kvöð á banka og sparisjóði. Ég hygg raunar að stjórnendur Seðlabankans ætli sér að ná þessum árangri með samkomulagi við banka og sparisjóði.

Í þriðja lagi verður leitað eftir því við tryggingafélögin, að þau leggi fram nokkurn hluta af ráðstöfunarfé sínu til þess að efla innlendan sparnað og draga úr erlendum lántökum, en enn sem komið er er nokkuð óvíst hvað út úr þeirri fjáröflun fæst.

Í fjórða lagi er ráðgert að gefa út skuldabréf í tengslum við ákveðnar stórframkvæmdir og gera tilraun til þess að selja þau á einstökum stöðum til að virkja áhuga almennings og stofnana á ákveðnum framkvæmdum. Á þetta einkum við þar sem stórfelldar hitaveituframkvæmdir eru nú í gangi. Ég vil hins vegar taka það fram, að tölur í lánsfjáráætlun eru ekki miðaðar við þessa skuldabréfasölu sérstaklega og ef vel tekst til í þeim efnum má gera ráð fyrir að framkvæmdir við einstakar hitaveitur yrðu meiri en hér er gert ráð fyrir, ef þessi lánsfjáröflunarleið skilar árangri. Innlend lánsfjármögnun er í heild áætluð 52.6 milljarðar kr., en til samanburðar var innlend lánsfjármögnun á s. l. ári rúmir 30 milljarðar. Hækkunin milli ára er 74%, og er því ljóst að ef þessi áform ganga fram eins og þau eru fyrirhuguð verður innlend lánsfjáröflun stóraukin frá því sem var á s. l. ári.

Að öðru leyti vil ég upplýsa það, að tvenns konar almennar ráðstafanir hafa verið gerðar til að takmarka erlendar lántökur. Raunar kom þetta ljóslega fram í framsöguræðu hæstv. forsrh., en ég vil aðeins ítreka það hér, að í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að fjárfestingarsjóðir megi aðeins taka 7000 millj. kr. í erlend lán á þessu ári, en samkv. sjóðadæminu, eins og það liggur fyrir, eru erlendar lántökur fyrirhugaðar um 10.5 milljarðar kr. Stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins mun fjalla nánar um það, hvernig þessi frestun útlána skiptist á sjóðina, en um er að ræða að fresta 1/10 hluta útlána fjárfestingarsjóðanna, sem fá lánsfé frá Framkvæmdasjóði, yfir á fyrstu tvo mánuði næsta árs. Í öðru lagi hefur verið ákveðið með þessari lánsfjáráætlun að fresta 1/10 hluta af lánsfjármögnuðum framkvæmdum í B-hluta fjárlaga og eru lántökuheimildir lánsfjárlagafrv. miðaðar við þessar ráðstafanir.