07.05.1980
Neðri deild: 71. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2462 í B-deild Alþingistíðinda. (2323)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Guðmundur 7. Guðmundsson:

Herra forseti. Ekki hafði ég hugsað að heyja hér umr., a. m. k. ekki að tala við 1. umr., heldur að málið kæmi fyrst til n. og yrði þar um það fjallað. Hitt stórundrar mig, og þarf þó kannske ekki að undra, að það skuli vera enn þá til í sölum Alþingis, og þá náttúrlega í bændastétt, það svartnættisafturhald sem kom fram í ræðu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar, þessi neikvæða afstaða.

Ég hef yfirleitt ekki vitað til að hv. þm. væri sporgöngumaður þeirra sem mæla með almennum sparnaði, en þegar kemur að öryggi verkafólks á vinnustöðum talar hann um Parkinsonslögmál, þá talar hann um þetta gífurlega bákn og miðstýringu og þá fer hann allur í einn sparnað. Það mætti spjalla töluvert við hv. þm. um afstöðu hans til sparnaðar almennt, en það skal látið kyrrt liggja. Aðalatriði þessa máls er það, að samþykkt frv. og góð framkvæmd er einn sá mesti sparnaður fyrir þjóðfélagið í heild sem hægt er að koma á, vegna þess hvert það stefnir og hvernig bygging þess er varðandi fyrirbyggjandi aðgerðir gegn slysum á vinnustöðum og atvinnusjúkdómum.

Sannleikurinn er sá, að þó hv. þm. lesi hér upp úr erlendum skýrslum ætti hann aðeins að lesa sér betur til og kynna sér hvað slysafjöldi er geigvænlega mikill á vinnustöðum. Ekki dettur mér í hug að slysum yrði útrýmt með þessum lögum. En auðveldlega hefði mátt koma í veg fyrir fjöldann allan af þeim mörgu hörmulegum vinnuslysum sem við þekkjum til. Eins er hitt, að margír sjúkdómar eiga rót að rekja til annaðhvort slæms vinnuumhverfis, slæmrar vinnuaðstöðu eða að illa er staðið að vinnu.

Það merkilega skeður að Vinnuveitendasambandið, Vinnumálasambandið og Alþýðusambandið, sem öll setja í þetta góða og gagnkunnuga menn úr atvinnulífinu, þrautkunnuga því, komast að sameiginlegri niðurstöðu. Að vísu skilar einn fulltrúi séráliti. Það er gömul deila, sem ég vil ekki vera að ýfa hér upp, í sambandi við Heilbrigðiseftirlitið. Að vísu held ég að þáttur þess sé þýðingarmeiri en eftirlit með líkhúsum og hundum, eins og kom fram hjá hv. þm. Ég held að þarna stingi upp kollinum sú deila, sem hefur komið upp í Reykjavík, að t. d. heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar og Öryggiseftirlit ríkisins eru í ákveðnum tvíverknaði. Ég held báðir aðilar séu sammála um, að vísu er nú búið að leysa þessi vandamál í Reykjavík, að þarna væri verulega til bóta, eins og hv. 5. þm. Suðurl. sagði áðan, að einfalda framkvæmdir og fækka stofnunum.

Sannleikurinn er sá, að það er ekki sparnaður sem hv. þm. var að ræða um. Það er einungis um hann rætt undir fölsku yfirskyni, eða þá hitt, að hann vill ekki aukið öryggiseftirlit á vinnustöðum, aukið eftirlit með hvað óhugnanlega stóran þátt í sjúkdómum landsmanna má rekja til vinnustaða sem hann vill ekki eyða peningum í. Sannleikurinn er sá, að þegar lögin um öryggisráðstafanir á vinnustöðum voru fyrst samþ. 1952 var það eftir kröfu þeirra sömu bændasamtaka sem hv. þm. var að harma sem mest að hefðu ekki um þetta frv. fjallað að farandvinnuvélar t. d. væru undanþegnar eftirliti. Við síðari breytingar, eins og hæstv. forsrh. tók fram, hefur alla tíð verið krafa bændasamtakanna að ekkert eftirlit næði til farandvinnuvéla í sveitum. Víst vitum við að þarna þarf að halda vel á til að ekki komist upp mikið bákn. En ég er hræddur um að hv. þm. mæli alls ekki fyrir hönd bændasamtakanna. Ég held að hinn óhugnanlegi fjöldi dauðaslysa á börnum og unglingum við vinnuvélar hafi orðið bændum það sár og tilfinninganæm reynsla að þeir vilji gjarnan sjálfir að þarna sé betra aðhald og festa í og þeir vildu gjarnan sjálfir að slíkt hefði verið komið fyrr. Ef hv. þm. ætlar að fara að gera kröfur til þess, að lögunum verði breytt þannig að það verði engar ráðstafanir gerðar til að reyna að draga úr þeim óhugnanlega dauðaslysafjölda, sem átt hefur sér stað á börnum á vinnuvélum í sveit, endurtek ég það, og byggi það á samtölum mínum við fjölda bænda, að ég held að þetta sé þeim allt of viðkvæmt mál og þeir séu það ábyrgir, að þeir vilji sjálfir í mun ríkara mæli að þetta eftirlit sé betra, og þeir sjái að þessum dauðaslysafjölda verður að linna.

Það var eftir öðru að hv. þm. var að tala um að eftirlitsmaður kæmi úr Reykjavík, og var helst á honum að heyra að kæmi einhver launaður eftirlitsmaður frá Reykjavík á einstök bændabýli til að skoða einn traktor hjá bónda, kannske í hans kjördæmi, og bóndinn yrði að borga öll þessi ósköp. Vitanlega verður það svo, eins og hjá Öryggiseftirliti ríkisins áður, að í slíkar skoðanir verða menn staðsettir á Akureyri, á Húsavík og í öðrum þéttbýliskjörnum, þar sem eru trúnaðarmenn Öryggiseftirlitsins og verða nú Vinnueftirlitsins.

Ég held að þegar svona frv. kemur fram sé það fagnaðarefni að aðilar vinnumarkaðarins, sem fjallað hafa um þetta og oft deilt hart um þessi mál, koma sér saman, ná samkomulagi. Það er alls ekki stefnt að aukinni miðstýringu. Það er fært út vald og ábyrgð til verkalýðsfélaganna sjálfra. Það er eitt meginstefið í öllum þessum málum. Þessu þarf ekki að fylgja aukið bákn, en nýtísku atvinnulíf, aukin vélvæðing og alls konar efnisnotkun, sem er varasöm og hættuleg, krefst náttúrlega aukins eftirlits og aukinnar fræðslu.

Ég skal ekki vera að tefja þessar umr. meira þó freistandi væri að fara inn á nokkur atriði, en ég vil aðeins benda á, eins og kom fram hjá hv. 5. þm. Suðurl., að vitanlega verður að vera heimild fyrir reglugerðir. Það geta verið einhver ákveðin efni og reglur þurfi um notkun þeirra. Fráleitt væri að binda allt slíkt í lögum. Fyrir öllu þessu er hugsað.

Hv. þm. ímyndar sér að hann geti slegið sér eitthvað upp í augum bænda með því að slá því upp á hæstv. Alþ. að þarna sé verið að leggja á þá nýja skatta og aukinn kostnað. Ég dreg mjög í efa að þetta verði hv. þm. til aukinna áhrifa eða vinsælda, því ég ítreka: Ég held að afstaða bænda sé töluvert breytt og reynsla þeirra á notkun vinnuvéla sé það dökk að þeir vilji sjálfir fá þarna á ákveðið eftirlit. Ég tel að úr því að aðilar vinnumarkaðarins hafa komið sér saman um þetta mál ásamt fulltrúum frá ríkisvaldinu, málið var lagt fyrir hér í apríl í fyrra, tekið upp aftur í des., og þá hefði verið auðvelt fyrir Búnaðarþing, það er nú engin sjálfboðaliðavinna að sitja á Búnaðarþingi, að gera sínar aths. Ég verð að segja það, að ég dreg mjög í efa að ræða hv. þm. sé á nokkurn hátt stuðningur við bændur. Hún er svartnættisafturhald sem ég hélt að væri að mestu horfið úr Framsfl., en sé að er ekki.