07.05.1980
Neðri deild: 71. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2471 í B-deild Alþingistíðinda. (2331)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Það skal vera örstutt.

Ég vil láta það koma fram við þessar umr. að þegar þetta mál var lagt fram á fyrra þingi lýsti ég því yfir í Ed. Alþingis að ég mundi styðja frv. og setningu löggjafar á þessu sviði, enda er það skoðun mín að öryggi á vinnustöðum hafi verið í algeru lágmarki. Þess vegna er mjög brýnt að um það verði sett heildarlöggjöf. Vil ég lýsa því yfir að það er mín skoðun að þetta sé eitt mikilvægasta mál sem hér er til meðferðar.

Auðvitað mætti hafa langt mál út frá þessu um ýmis atriði sem koma fram í frv., en ég ætla ekki að tefja tímann að þessu sinni, enda mun málið koma til þeirrar nefndar sem ég á sæti í. Ég vil þó segja það, að ég tel að mjög sé til bóta að sameina ýmsar stofnanir á sviði öryggismála í landinu. Ég get einnig sagt það sem mína persónulegu skoðun af beinum kynnum við þá stofnun sem heitir Heilbrigðiseftirlit ríkisins, að hún hefur ekki getað sinnt því hlutverki sem henni var ætlað, ekki síst á þeim sviðum sem um er að ræða í þessu frv. Það er e. t. v. ekki af því að þar hafi ekki verið hæfir menn, heldur hefur henni aldrei verið ætlað það fjármagn sem hún hefði þurft að hafa yfir að ráða til að koma fram því ætlunarverki sem lögin gera ráð fyrir. Hins vegar vil ég benda á það, að hún mundi aldrei spanna yfir það verkefni sem þessum lögum er ætlað.

Ég vil einnig segja nokkur orð út frá aths. sem kom fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. varðandi málefni bænda, þar sem hann var að skjóta því hér inn, að það hefði ekki verið hugsað um að skoða ýmis vandamál í sambandi við þá atvinnustétt, og nefndi þar sem dæmi heymæði. Ég vil upplýsa hv. þm. um að hann hefur sjálfur tekið þátt í að samþykkja fjárlög og í þeim fjárlögum hefur verið sérstök fjárveiting einmitt í þetta verkefni, sem var unnið í fyrra og verður haldið áfram á þessu ári undir eftirliti landlæknis. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að að slíkum rannsóknum sé unnið. Heymæði er atvinnusjúkdómur sem hefur þjáð þjóðina lengi og er vissulega nauðsynlegt verkefni sem þarna er verið að vinna að. En aðalatriðið í þessu máli sem öðrum, þegar verið er að setja svona löggjöf, er fjármögnunin og framkvæmdin sjálf. Það er kjarni málsins. Og ég vænti þess, að um leið og þetta frv. verður samþ. sem lög frá hv. Alþingi geri hv. alþm. sér fulla grein fyrir því, að ef innihald þess á að koma að því gagni, sem frv. miðar að og þeir, sem sömdu það, gerðu sér grein fyrir, má ekki skera við nögl fjárveitingar til að hrinda því í framkvæmd. Það er að sjálfsögðu margt í þessu sem þyrfti að laga, en aðalatriðið finnst mér, að miðað við þær breytingar sem gerðar hafa verið í hv. Ed. hljótum við að geta staðið að því að samþykkja þetta frv. svo það verði að lögum eins og fyrrv. ríkisstjórnir hafa lofað og ég tel við verðum að standa við.