08.05.1980
Sameinað þing: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2478 í B-deild Alþingistíðinda. (2356)

130. mál, nýting kolmunna og vinnslustöð á Austurlandi

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 227 hef ég leyft mér að flytja svohljóðandi till.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hefjast nú þegar handa um nýtingu kolmunna til veiða og vinnslu. Skal í því sambandi komið á fót vinnslustöð á Austurlandi (Reyðarfirði) til vinnslu kolmunnaafurða með frystingu og þurrkun í huga.“

Það er sérstaklega ánægjulegt að mæla fyrir þessari þáltill. nú þegar þær ánægjulegu fréttir berast, að kolmunnaveiði gangi mjög vel, en hins vegar kunn sú dapurlega staðreynd, að allt of mörg loðnuskipin okkar liggja bundin verkefnalaus á sama tíma. Það er ekki nema einstaka aðili sem notfærir sér þennan fiskstofn. Í sambandi við þennan tillöguflutning hefur flm. stuðst við skrif Magna Kristjánssonar um þessi mál sérstaklega svo og álitsgerð og athuganir Sigurjóns Arasonar hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Raunar er þessi till. komin hér á borð þm. beint fyrir tilstuðlan þess ágæta skipstjóra Magna Kristjánssonar, sem hefur að öllum öðrum ólöstuðum verið mestur áhugamaðurinn þetta mál frá upphafi.

Ég ætla að vísa í grg. að nokkru hér á eftir, en hlýt þó fyrst að gefa frumkvöðli hennar orðið. Rétt um það leyti sem hann var að búa sig undir leiðangursstjórn til Cap Verde sendi hann mér línur og þar stóð þetta m. a. með leyfi hæstv. forseta:

„Ekkert hefur breyst þetta ár síðan greinin var skrifuð,“ — sem vitnað er til hér í grg. — „nema það, að við Íslendingar höfum dregist aftur úr miðað við aðra. Til viðbótar vil ég undirstrika hvað mikilvægast er að stjórnvöld nú geri til að raunhæfar veiðar kolmunna geti hafist og vinnslan svo í framhaldi af því:

1) Taki hið fyrsta ákvörðun um aðgerðir til eflingar kolmunnaveiðum og vinnslu og kynni þær viðkomandi. Óvissa er til tjóns og fælir útgerðarmenn og sjómenn frá þessum verkefnum.

2) Ákveðið hið fyrsta að nota hluta af fjármunum þeim, sem verðjöfnunardeild Aflatryggingasjóðs hefur til umráða, til að verðbæta kolmunna. Ráðherra og oddamaður í Verðlagsráði hafa til þess aðstöðu, og þar á ég við í enn ríkara mæli en gert var nú síðast, við síðustu fiskverðsákvörðun.

3) Leitað eftir tvíhliða samningum við Færeyinga um gagnkvæman rétt til kolmunnaveiða.“ Þetta er nú reyndar á dagskrá þessa fundar í dag. — „Þetta er ekki stórt atriði, en mundi e. t. v. laða að örfáa aðila og auka líkur á að skip gæfu sig að kolmunnaveiðum hér heima í sumar.“ Hann bendir á að verð á kolmunna í Danmörku í vor er áætlað 48 aurar danskir pr. kg.

Svo mælti Magni Kristjánsson í þann mund sem hann fór að kenna eyjarskeggjum á Grænhöfðaeyjum listir sínar við veiðiskap.

Almennar athugasemdir um þetta eru þær, að nauðsyn þess, að hér sé við brugðið af fullri einurð og skipulega, er ótvíræð. Hvað snertir sérstaklega þá vinnslustöð, sem till. lýtur að, þá þarf hún að vera sem næst veiðisvæðinu. Veiðitíminn er skammur og því þarf hér að vera um að ræða stóra hráefnisgeymslu, því mikill hluti slíkrar stöðvar yrði að geta verið frysti- og kæligeymsla fyrir ársvinnsluna, en jafnframt yrði um afurðageymslu að ræða. Útbúnaður þarf að vera til flökunar og annað tilheyrandi frystiþættinum og sama er að segja um búnað til þurrkunar og herslu, en eins og markaðsmál standa í dag verður að leggja aðaláherslu á þurrkunina.

Kolmunninn er að vísu afbragðsfiskur til frystingar, en þar þarf átak í markaðsmálum til að koma, þannig að á því sviði verði um verulega nýtingu að ræða.

Ekki þarf að rökstyðja hve sjálfsagt er að reisa slíka vinnslustöð á Austfjörðum. Álit þeirra sem hér hafa mest um fjallað — og ég hef leitað til margra varðandi það atriði, er að þar sé Reyðarfjörður í fremstu röð. Gagnvart ríkisvaldinu, frumkvæði þess og aðstoð hlýtur það að teljast mjög jákvætt, að fiskimjölsvinnsla á Reyðarfirði er í höndum Síldarverksmiðja ríkisins.

Svo vikið sé fyrst að nýtingu fiskstofna og fiskiskipa, þá er ljóst að hér er um mikinn ónýttan auð að ræða, einn fárra þátta í okkar sjávarfangsöflun, þar sem aukning er beinlínis sjálfsögð. Einnig er ljóst að skip úr hinum almenna flota okkar hljóta að koma hér til. Kolmunnaveiðar hlytu að verða góð búbót fyrir marga sem hlíta þurfa veiðitakmörkunum varðandi sókn í aðra fiskstofna.

Með hinni nýju verðjöfnunardeild í Aflatryggingasjóði ætti að vera unnt að greiða verulegar verðbætur á kolmunna með beinni ákvörðun ráðh. um það. Ekki síst og vinnslustöð á Austurlandi. 2480 er þetta sjálfsagt þegar verðbætur eru í dag greiddar á fisktegundir sem taldar eru í hættu vegna ofveiði, svo sem gildir um ufsa og karfa. Þetta með verðbæturnar var gert nú að hluta og að nokkru við síðustu verðákvörðun, þó að áliti Magna Kristjánssonar sé þar allt of skammt gengið ef á að laða menn verulega til þessara veiða.

Ég get ekki stillt mig um að vitna í Magna í þessari framsögu minni, þó ég skuli reyna að stytta það eins og ég get:

„Umræða um ofnýtingu fiskstofna er fyrirferðarmikil. Samfara þeirri umræðu er stundum bent á að til eru vannýttir fiskstofnar. Það síðarnefnda fær ekki umfjöllun sem skyldi. Þvargað er fram og aftur um ofnýttu stofnana. Lengra nær umræðan oftast ekki og að sjálfsögðu fæst engin niðurstaða. Margir segja líka, að fiskiskipaflotinn sé allt of stór, og vilja selja bróðurpart flotans eða leggja honum. Þessi floti er nú einu sinni í höndum landsmanna og raunhæfari leið til úrbóta er að finna honum verkefni við hæfi. Kolmunnann ber oft á góma þegar um vannýtta fiskstofna er rætt. Í þessari grein“ — en þetta er tekið beint úr grein hans sem hann ritaði í ársbyrjun 1979 — „mun ég fjalla um þann ágæta fisk og þá möguleika sem við höfum í dag til að veiða hann.“

Síðan fjallar Magni almennt um þessa fisktegund og endar á að greina frá því, að stofnstærðin sé áætluð 10–12 millj. tonna og árlegt veiðiþol a. m. k. 1.5 millj. tonna. Síðan kemur hann að því, að langbest veiðivon muni vera á hrygningarstöðvunum, einnig við Færeyjar og svo í íslenskri fiskveiðilögsögu úti fyrir Austfjörðum og á Dohrnbanka.

Þá víkur Magni að því áhugamáli sínu, hvernig um of hefur verið talað yfir daufum eyrum, og tilgreinir rök fyrir nauðsyn aðgerða. Hann nefnir þar fern rök sem ég tel rétt, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp þó að þar sé að nokkru leyti um endurtekningu að ræða:

„1) Innan tveggja ára verður með einhverjum hætti kvótaskiptur sá afli sem hver þjóð fær að veiða af þessum stofni. Þá hlýtur að verða tekið verulegt tillit til þess aflamagns sem hver einstök þjóð, sem að væntanlegu samkomulagi og aflaskiptingu stendur, hefur veitt þegar að samningum kemur.

2) Ástand ýmissa annarra fiskstofna við landið er þess eðlis, að brýna nauðsyn ber til að nýta alla þá möguleika sem felast í vannýttum stofnum.

3) Afkoma þjóðarbúsins út á við leyfir ekki að tækifæri til aukinnar gjaldeyrisöflunar séu látin ónotuð. Hvað þetta snertir eru möguleikarnir ótvíræðir. Rétt er að benda á í þessu sambandi, að afurðir úr 100 þús. tonnum af kolmunna eru ca. 3–4 milljarða kr. virði miðað við bræðsluaflann og mun meira ef hluti aflans færi til manneldis, svo sem sjálfsagt væri.“ Menn athugi að þetta er ritað í ársbyrjun 1979.

„4) Nokkur hluti fiskiskipaflota okkar er verkefnalaus þann tíma ársins sem helst er von kolmunnaafla hér á heimamiðum.“

Síðan víkur Magni að spurningunni, hvort við eigum skip, og fullyrðir að sterk hagsmunaleg rök hnígi að því, að við aukum kolmunnaaflann mjög hratt á næstu 1–2 árum, og spyr þá um það, hvort við höfum aðstöðu og búnað til þess. Hann svarar þessu eindregið jákvætt og segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef hefðbundin viðmiðun er notuð eigum við innan við 10 eiginleg kolmunnaskip. En miðað við þróun síðustu ára og miðað við þá staðreynd, að væntanlegar veiðar hér við land eiga sér stað við góðar veðurfarslegar aðstæður, tel ég að stór hluti loðnuveiðiflotans sé fær um að sinna þessum veiðum með flotvörpu af nýjustu gerð, og þá á ég við að skipin noti hvert sína vörpu (ekki tvílembingstroll).

Við lauslega athugun sýnist mér að um það bil 30 loðnuveiðiskip hafi 1000 hestafla vélar eða stærri og þar með möguleika að draga flotvörpu við sæmileg veðurskilyrði. Auk þess eru a. m. k. þrír skuttogarar sérlega hentugir til kolmunnaveiða.“

Í lok greinarinnar segir svo Magni:

„Eins og áður segir veiddust hér við land aðeins 35 þús. lestir á s.1. ári af kolmunna“ — þ. e. á árinu 1978. — „Setjum því markið hátt og veiðum í ár“ — þ. e. á árinu 1979 — „yfir 100 þús. lestir og 200 þús. lestir næsta ár. Þetta er framkvæmanlegt og mundi, eins og ég hef bent á, styrkja stöðuna þegar að kvótaskiptingu kemur. Og ekki má gleyma blessuðum ríkiskassanum. Þar hlýtur að vera pláss fyrir þann gjaldeyrisauka sem af þessu hlytist. En til að þetta megi takast verður að hefjast handa. Sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær.“

Ég vitna ekki frekar í Magna Kristjánsson, enda býst ég við að öllum hv. þm. sé kunnugt um baráttu hans í þessum efnum og vel rökstudd skrif hans um þessi mál. Og kannske einmitt vegna þess, að þetta áhugamál hans hefur ekki náð fram að ganga, er hann nú farinn af landi brott. Hann er farinn til að sinna góðu verkefni, og ber ekki að harma það út af fyrir sig þó að gjarnan hefði ég viljað sjá hann nú við kolmunnaveiðar og stóran flota með honum í því verkefni.

En svo vikið sé að því sem segir í skýrslu Sigurjóns Arasonar sem hann flutti á aðalfundi Rannsóknaráðs ríkisins, þá bendi ég aðeins á það, að sagt er að árleg veiði úr stofninum geti numið a. m. k. 1.5 millj. lesta og hlutur okkar Íslendinga gæti orðið a. m. k. 200 þús. lestir ef rétt er að staðið.

Hann bendir svo á það, sem mér finnst athyglisverðast í þessu öllu, að á síðasta ári veiddust alls rúmlega 1.2 millj. lesta af kolmunna og þar af veiddu Sovétmenn um 760 þús. lestir í Norðausturdjúpi rétt utan við íslensku 200 mílna mörkin.

Þá víkur Sigurjón að kolmunnarannsóknunum sumarið 1979 og segir svo orðrétt, með leyfi forseta, um þær: „Vinnslutilraunirnar voru framkvæmdar á Eskifirði og var kolmunninn eingöngu unninn í skreið og var verkunin miðuð við tvo markaði, þ. e. gæludýrafóður og til manneldis í Nígeríu. Báðir þessir markaðir vilja kaupa kolmunnaskreið hvort sem hún er slægð eða óslægð, en óslægða skreiðin má ekki vera of feit. Þess vegna gerðum við athuganir á hve lengi væri hægt að þurrka kolmunnann vegna átu og fitu. Kolmunni var þurrkaður í maí og mældist fitan um 2% og hafði það engin áhrif á skreiðargæðin. Í júlílok var fitan komin í 3.5% og virtust mörkin vera þar.“

Ég hef hér í höndum minnisblað frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins þar sem fjallað er sérstaklega um vinnslustöð af þessu tagi. Þar segir, með leyfi forseta, að „eftirfarandi kröfum sé æskilegast að fullnægja í þessu efni og rennir stoðum undir það, að svona vinnslustöð þurfi að reisa: Það er í fyrsta lagi húsnæði nægilega stórt, hátt undir loft og á þægilegum stað.“ Að vísu segir þar „helst á hitaveitusvæði“. Það er nú það sem ég geri athugasemd við af eðlilegum ástæðum. En það er skiljanlegt og eðlilegt að menn miði við það vegna þess kostnaðar sem um er að ræða. „Frystigeta og frystigeymslurými fyrir hráefni. Vinnuafl sem ekki er rígbundið í öðru þegar nauðsynlegt er að taka á móti smáfiski eða vinna hann. Veiðimöguleikar eða a. m. k. góð sambönd við veiðiskip fyrir kolmunna, loðnu og spærling. Síðan þyrfti að gera tilraunir með þennan þurrkara, sem bent er á að þurfi að reyna til hlítar hér á landi miklu frekar en gert var við tilraunirnar á Eskifirði, og síðan er talað sérstaklega einnig um hönnun og smíði slægingarvéla fyrir lifrarmikinn kolmunna og sagt frá því, að gerður verði samningur við Traust hf. um að hanna eða breyta og smíða eina einfalda slægingarvél fyrir kolmunna og vélin yrði þá tilbúin í tæka tíð.“

Það er sem sagt verið að vinna að þessu máli á ýmsum sviðum sem betur fer.

En svo ég vitni aftur í grg. eða skýrslu Sigurjóns Arasonar, þá segir hann svo orðrétt:

„Söluverð og framleiðslukostnaður fyrir þessar þrjár kolmunnaafurðir, marning, flök og skreið, eru fundin með mælingum og útreikningum og súlurit á mynd 12 sýnir þessar niðurstöður. Mynd 12 svo og þrjú önnur fylgirit eru með greinargerðinni.

Kostnaðartölur úr flaka- og marningsvinnslunni eru fengnar úr færeyskum tilraunum og eru aðlagaðar íslenskum aðstæðum. Af súluritinu sést að af þessum þremur kolmunnaafurðum er skreiðarvinnslan hagkvæmust.“ Þetta súlurit fylgir hér með eins og menn sjá.

Í niðurlaginu í skýrslu Sigurjóns segir hann orðrétt, með leyfi forseta: „Kolmunnaveiðar við Ísland eiga að geta aukist verulega og raunhæft væri að stefna að a. m. k. 200 þús. tonna veiði árlega. Fyrstu árin þyrfti að gera ráð fyrir blönduðum veiðiskap, þ. e. landa hluta kolmunnans úr hverri veiðiferð til bræðslu og hinn hlutinn færi í vinnslu til manneldis, vegna þess, að í landi er ekki til næg aðstaða til vinnslu á neyslufiski, og eins hins, að markaðir fyrir kolmunna til neyslu eru óvissir. Þurrkun kolmunnans getur farið fram á sama hátt og þurrkun annars smáfisks og skapast þá samfelldara hráefnisframboð. Einnig þarf að vera nægilega stór markaður fyrir þessa vöru. Töluverður markaður virðist vera á Norðurlöndum og víðar fyrir þurrkaðan smáfisk í gæludýrafóður og stór markaður er fyrir smáfisksskreið til manneldis í Nígeríu.“ — Þetta þykir mér dapurlegur samanburður. — „Eins og áður er nefnt er framleiðsla á kolmunnaskreið sú vinnsla sem skilar mestum arði.

Fiskverkendur og neytendur hafa ekki enn viðurkennt kolmunnann sem nýja tegund, heldur er sífellt reynt að framleiða úr honum afurðir sem eru sambærilegar við þá fiskrétti sem nú þegar þekkjast á markaðnum. Kolmunninn hentar ekki vel í þessa fiskrétti og þar af leiðandi er markaðsverð kolmunnaafurða um 70% lægra en fyrir sambærilegar þorskafurðir.

Engin tæknileg vandkvæði eru á því að veiða og vinna kolmunnann í afurðir til manneldis. Málið snýst því raunverulega um það verð sem framleiðendur geta borgað fyrir hráefnið. Verðið er mjög háð markaðsverði fullunninnar vöru, sem þarf að vera það hátt að ekki verði tap á rekstrinum.“

Síðan setur hann fram ákveðna hugmynd um nýtingu og verðmætasköpun, og það er fram tekið af hálfu Sigurjóns að hér er um grófar tölur að ræða og ekki hinar áreiðanlegustu. Hann talar annars vegar um söluverðmæti kolmunnaafurðanna og fær út úr því, miðað við 200 þús. tonna veiði, 25 þús. tonn í skreiðarverkun og 175 þús. tonn í fiskmjölsvinnslu. Þá fær hann heildarskilaverðmæti upp á 10.8 milljarða. En olíukostnaðinn, sem er stærsti liðurinn við þessa verðmætasköpun, telur hann nema 3.2 milljörðum bæði fyrir veiðiflotann og fiskmjölsvinnsluna. Hann telur að verðmætasköpunin við kolmunnaveiðarnar verði 7.6 milljarðar, og er þá olíukostnaðurinn 25–30% af söluverðmæti kolmunnaafurðanna.

Um fylgiritin vil ég svo aðeins segja það, að í áætluðum framleiðslukostnaði er reiknað með heitu vatni — eðlilega með ódýrasta orkugjafanum. En miðað við rafmagn, eins og það getur orðið ódýrast, er hér enginn sá munur á, sem skiptir öllum sköpum að dómi Sigurjóns, þó hann hafi eðlilega valið ódýrasta kostinn þegar hann er að setja upp svona dæmi.

Að öðru leyti þarf ekki frekar að fara orðum um fylgirit I.

Óneitanlega eru súlurnar á fylgiriti II ógnvekjandi hvað snertir landsbyggðina, en sannarlega skal vona að það standi til bóta. En það er aðeins eitt sýnishorn af því, hve aðstöðumunurinn er óskaplegur.

III. og IV. fylgiritið þarfnast ekki skýringa, enda þyrfti ég að kunna meiri og betri skil á hinum ýmsu aðferðum til verðmætasköpunar til þess að geta farið náið út í einstök atriði. Súlurit nr. IV sýnir þó vel varðandi einstakar aðferðir hvert er söluverðið, hver hinn breytilegi kostnaður er og hver eru hráefniskaupin.

Ég hygg að ég þurfi ekki að hafa lengri framsögu fyrir þessu máli. Ég held að málið sé á því stigi, að við megum engan tíma missa ef við eigum að gera einhverja tilraun. Eðlilega bind ég mig við mitt kjördæmi, Austurland, í sambandi við þessa vinnslustöð, sem ég tel að sé nauðsynleg. Og það er ekki mín skoðun sem þar ræður, heldur er það skoðun fjölmargra skipstjóra, að þannig eigi að vinna að þessu máli að fara alls ekki út í kolmunnaveiðar í stórum stíl án þess að við séum með vinnslu á kolmunnanum til manneldis í því dæmi, það sé alveg bráðnauðsynlegt, það þurfi að fylgja og það eitt geti tryggt það, að menn laðist að þessum veiðum. Þess vegna er till. um vinnslustöðina kannske meginburðarásinn í þessari till., vegna þess að ég veit að menn eru að gefa kolmunnanum vaxandi gaum eðlilega, en menn þurfa enn þá betur að gera. Það er rétt, sem Magni segir í sinni grg., að það dugir ekki að þvarga endalaust um þá fiskstofna, sem ofnýttir eru. Það þarf að huga fyrst og fremst að þeim fiskstofnum, sem gefa einhverja möguleika, þar sem við getum verulega og án allrar áhættu náð okkur í dýrmætt hráefni og mikil verðmæti fyrir þjóðarbúið.

Ég vil svo aðeins taka það fram, að mér sýnist að hvernig sem á þessu máli verður tekið af hálfu stjórnvalda — og ég treysti því að það verði gert — þá sé hér um brýnt þjóðhagslegt atriði að ræða, jafnt frá sjónarmiði fiskveiða og vinnslumöguleika. Ég er ekki að segja að þessi till. sé á nokkurn hátt tæmandi, að hún sé einhver lausn í málinu. En vegna þeirra manna, sem hafa unnið mest að þessu máli og haft á þessu mestan áhuga og hafa beðið mig að flytja það beint inn á þing, þá hef ég talið mér skylt að gera það. Ég efast ekki um að allir séu sammála um að að einhverri slíkri skipan mála, sem þessi till. lýtur að, þurfi að vinna að af fullri einurð og gera allt sem unnt er til að nýta þessa auðlind sem best. Því er till. um þetta hreyft hér á Alþingi.

Ég legg svo til, herra forseti, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. atvmn.