21.12.1979
Neðri deild: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil nú óska eftir því að hæstv. samgrh. verði inni, því að ég ætlaði að beina fsp. minni til hans. Það getur vel verið að sambandið á milli hv. þm., sem var að tala áðan, og fjmrh. sé orðið svo bágborið að þeir þurfi að tala saman úr ræðustól á Alþingi. Ég veit það ekki, það er þeirra mál, og ég kæri mig kollóttan um það. En ég vil spyrja hæstv. samgrh., sem flugmál heyra undir, hvernig á því standi að slíkar fréttir koma og hvort þær hafi við rök að styðjast. Þó að Ísafjörður sé mér kærari en flestir eða allir aðrir staðir, af eðlilegum ástæðum, held ég að það væri alveg sama hvaða staður það væri á landinu, ef fréttir bærust um að þangað væri ekki hægt að fljúga vegna þess að ekki væri hægt að halda gangandi þeim tækjum sem þarf til að halda flugvöllum opnum og annast þjónustu við flugvélar. Við vitum sennilega öll að kerfið er ómanneskjulegt í alla staði. En þó að einhver málaflokkur eða tiltekinn hluti málaflokks fari fram úr þeim áætlunum sem fjmrn. setur getur slíkt ekki gengið út yfir þessa starfsemi, það verður samgrn. eða hvert rn. um sig að sjá um og hafa um samvinnu við fjmrn. Vafalaust er það hér á bak við að þessi starfsemi er komin fram úr áætlun, það þarf ég í raun og veru ekki að spyrja um. En hitt er meira atriði og skiptir öllu máli, að slíkt sem þetta komi ekki fram fyrr og því sé kippt í lag. Ég ætlast til þess af hæstv. samgrh. En ef hann nýtur ekki stuðnings fjmrh. við að kippa því í lag treysti ég ríkisstj. í heild, þó að ég hafi afskaplega takmarkaða trú á henni, að leysa þetta mál svo að haldið verði uppi þjónustu á flugvöllum landsins. — Ég vona að það sé ekki svo komið að ekki megi ganga svo langt að skulda í Seðlabankanum um áramótin og því séu samgöngur stöðvaðar í landinu rétt fyrir jólin.