09.05.1980
Neðri deild: 72. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2535 í B-deild Alþingistíðinda. (2439)

34. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni leyft mér að flytja brtt. á þskj. 461 um þetta mál. Þessi litla brtt., sem við flytjum, er þannig:

„Við 1. gr. bætist:

Útihús í sveitum, sem eru utan brunahættu við íbúðarhús, er eigendum þó frjálst að brunatryggja samkv. brunabótamati hjá hverju því vátryggingarfélagi, sem til þess hefur starfsleyfi, þrátt fyrir ákvæði 1. gr. laga þessara.“

Brtt. veit að því, að ef þetta frv. yrði samþ. óbreytt þurfa allmargir þeir bændur, sem hafa verið hirðusamir og fyrirhyggjusamir og tryggt útihús sín í frjálsri tryggingu, að skipta um tryggingarfélag. Það þykir okkur flm. bera helst til mikinn keim af einokun og vera lýti á annars góðu frv. Við trúum ekki að það hafi verið meining Stéttarsambands bænda, þegar það bað um að komið yrði á skyldutryggingu, að ganga svo langt að skipa mönnum að skipta um tryggingarfélag. Meginatriðið er það, að öll útihús séu tryggð, og það sýnist okkur að eigi að sitja í fyrirrúmi, en ekki það að fara að ákvarða fyrir bændur hjá hvaða vátryggingarfélagi þeir skuli brunatryggja þessi hús.