21.12.1979
Neðri deild: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég verð því miður að hryggja hæstv. ráðh. með því, að ég hef ekki náð símasambandi við flugmálastjóra. Hann er eflaust að ræða þetta mál. Hann er staddur í skrifstofu Flugleiða. En mér þykir vænt um að hv. 6. landsk. þm. hefur náð sambandi við flugmálastjóra á undan mér og fengið það staðfest, sem ég hélt fram áðan, að það væri skortur á peningum hjá flugmálastjórn. Ég vona að ráðh. trúi flokksbróður sínum betur en mér, þó að hann sé ekki búinn að vera samstarfsmaður hans mjög lengi.

Að sjálfsögðu standa málin illa á Ísafirði og við getum allir verið vissir um að þetta er ekkert gamanmál og síst af öllu rætt hér sem gamanmál, eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni. Ástandið í flugmálum er mjög alvarlegt um land allt. Þetta er eitt sýnishorn af því, hvað það getur komið sér illa fyrir sveitarfélögin og landshlutana þegar flugvellir lokast vegna skorts á peningum, eins og hér á sér stað að mati flugmálastjórnar.

Ég vil ítreka, til þess að það sé rétt með farið, að ég óska eftir að fá staðfest að flugmálastjóri geti farið til ríkisféhirðis og sótt fé og þá hvað mikið. Hæstv. fjmrh. sagði að það mundi nægja til þess verkefnis, sem lægi fyrir á Ísafirði, og miklu meira, en gat ekki um upphæðina.

Hvað það snertir að ég hafi ekki vitað um þetta mál, þá var ég ekki við útvarp í hádeginu. Mér skilst að þessi frétt hafi fyrst komið fram í hádeginu. Það var ekki vitað um þetta í gær þegar flugráðsfundur var haldinn. Það er nú svo, að þótt ég sé flugráðsmaður veit ég ekki fyrir fram hvenær flugmál koma hér á dagskrá yfirleitt, hvað þá þegar þau skella á utan dagskrár. Hefðum við haft tækifæri til þess að afla okkur upplýsinga og fá þá skriflega skýrslu frá flugmálastjóra um þessi mál hefði ég að sjálfsögðu verið betur búinn í þessum umr.

En flugmálin eru í lamasessi, það vantar fé. Ég bið ykkur um að taka þá meira mark á óskum flugmálastjórnar við gerð fjárlaga nú en þið hafið hingað til gert, hv. alþm.