09.05.1980
Neðri deild: 73. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2545 í B-deild Alþingistíðinda. (2471)

173. mál, eyðing refa og minka

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Mér finnst ég ekki geta látið hjá líða að benda á, að í 2. gr. þessa frv. er, að ég tel, ranglega farið með íslenskt mál. Þar stendur í niðurlagi 2. gr.: „Oddviti (bæjarstjóri) greiðir verðlaun þessi, enda séu honum færðar sannanir fyrir vinnslu dýranna.“

Ég hef þekkt margar grenjaskyttur og veit töluvert um það hvernig greni eru unnin og dýr eru unnin og þekki margar átakanlegar sögur, ógleymanlegar sögur frá því, hvernig þessar veiðar fara fram. En ég hef aldrei heyrt talað um vinnslu grenja eða vinnslu dýra. Við tölum um að vinna greni, vinna dýr. Við tölum líka um kjötvinnslu, fiskvinnslu, þörungavinnslu og annað því um líkt og þýðir þá vinnsla nánast það sama og iðnaður, en ég hygg að þetta standist ekki alla vega málvenju eins og hún hefur verið tíðkuð í þessum tilvikum, svo að ég vildi gera till. um að þessu yrði breytt, alla vega skotið til hæstv. forseta hv. d. hvort við ættum ekki að breyta þessu og segja í staðinn fyrir vinnslu dýranna: enda séu honum færðar sannanir fyrir að dýrin hafi verið unnin. — Ég legg það undir dóm forseta, hvort það þarf að bera upp sérstaka brtt. um þetta eða hvort fallist verður á að breyta orðalagi í þessa átt.