12.05.1980
Efri deild: 82. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2558 í B-deild Alþingistíðinda. (2509)

178. mál, upplýsingar hjá almannastofnunum

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er ekki nýtt í sölum Alþingis. Það hefur verið hér á ferðinni í ýmsum myndum allar götur síðan 1973. Hæstv. dómsmrh. lét svo um mælt áðan að málið væri lagt hér fram nú til kynningar. Það er auðvitað rétt að þetta frv. verður ekki afgreitt á þeim skamma tíma sem nú lifir þingsins, en ég vildi vekja athygli á því, að ég held að það sé brýnt orðið að Alþ. aðhafist eitthvað í þessum efnum þannig að þetta frv. verði hér ekki á flækingi til eilífðarnóns. Ég veit að það er ekki við hæstv. núv. dómsmrh. að sakast á neinn veg hvernig þetta mál hefur gengið. Hann hefur svo skamman tíma gegnt sínu embætti að honum hefur auðvitað ekki gefist ráðrúm til að fara þar ofan í öll mál. En ég vildi vekja athygli á því, að hér er um mikið nauðsynjamál að ræða og hagsmunamál fyrir almenning að eiga aðgang að upplýsingum hjá stjórnvöldum og öðrum almannastofnunum, og ég vil beina því til dómsmrh. hvort hann geti ekki beitt sér fyrir því að þetta frv. verði eitt af þeim fyrstu sem tekin verði til meðferðar þegar þing kemur saman að hausti. Ég held að það sé til vansa hvernig þetta mál hefur verið að velkjast hér á áttunda ár án þess að nokkuð hafi gerst. Það er þó kannske fullmikið sagt að segja að ekkert hafi gerst, því það frv., sem fyrst var lagt fram í þessa veru og hét frv. um upplýsingaskyldu stjórnvalda, var satt best að segja ekki upp á marga fiska, en þetta hefur hins vegar batnað á þessum árum, þó svo að þar megi vafalaust enn nokkuð um bæta.