13.05.1980
Sameinað þing: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2577 í B-deild Alþingistíðinda. (2546)

151. mál, Olíumöl

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég kemst enn ekki hjá því að mótmæla því, sem kemur hér fram hjá þm. Alþfl. hverjum af öðrum, að það hafi ekkert verið talað um það fyrir fram að fjvn. tæki að sér rannsókn þessa máls áður en heimildin var gefin. Ég vil spyrja hv. þm. að því, hvort þeir hafi ekki — margir hverjir — það gott minni að þeir minnist þess hvað gerðist við 3. umr. um fjárlög þegar þessi heimildargrein var samþykkt. Það fór fram nafnakall þegar heimildin var samþ. og nokkrir þm, gerðu grein fyrir atkv. sínu. Ég hef því miður ekki fengið skrifaðar ræður manna í hendur, en ég man vel, og ég veit að það muna margir hér, að sumir þm. tóku það sérstaklega fram að þeir litu á það sem forsendu fyrir sínu samþykki að fjvn. tæki að sér rannsókn af þessu tagi. Ég get t. d. nefnt hv. þm. Pál Pétursson, sem gerði alveg sérstaklega grein fyrir atkv. sínu á þennan veg, og ég get minnt hér á sératkv. og orð hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, sem kom hér upp og sagði að nú væri fengið samkomulag um að fjvn. tæki að sér þessa rannsókn og hann væri undrandi á því að þeir Alþfl.-menn skyldu hafa á móti því að fjvn. yrði rannsóknarnefnd í þessu máli. Þetta tók hann alveg sérstaklega fram í fullu samræmi við það sem farið hafði á milli manna áður en þessi heimild var tekin inn. Svo koma menn hér einum mánuði síðar og ætla að reyna að telja fjölmiðlum — að sjálfsögðu ekki þm. því að þeir vita betur — trú um eitthvað allt annað. Mér finnst þetta nokkuð gróft. En staðreyndin er sú, að ef flett er upp í þingtíðindum munu menn finna ummæli Ólafs Ragnars, sem eru greinileg sönnun þess hvað fór á milli manna þegar greinin var samþykkt.

Ég vil svo að lokum taka það fram, að að sjálfsögðu hef ég ekkert á móti því að fjvn. fái það rannsóknarvald sem 39. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um. Ekki mundi ég greiða atkv. á móti því. Ég mundi telja það út af fyrir sig ágætt. Ef n. telur sér þörf á því að fá slíkt vald á hún að biðja um það. Ég er viss um að hver einasti þm. hér inni mun samþykkja það ef n. fer fram á það. (Gripið fram í: Það efast ég um.) Jæja, með einhverjum undantekningum hugsanlega. En það mun ég gera. Ég mun hiklaust samþykkja það.

Svo vil ég að lokum segja það eitt, að í kjölfar þess að samkomulag varð um að fjvn. rannsakaði málið, skrifaði ég þetta bréf, eftir að hafa ráðgast við formann fjvn. um það. Í bréfinu er ósköp einfaldlega farið fram á að fjvn. taki afstöðu til málsins, því að fjmrn. gat ekki tekið afstöðu til málsins fyrr en afstaða fjvn. lá fyrir, og það er beðið um þessa afstöðu með því orðalagi sem í bréfinu er. Ég frábið mér frekari rangtúlkun þess, sem er greinilega gegn betri vitund, hjá ýmsum sem hér hafa talað.