13.05.1980
Neðri deild: 75. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2603 í B-deild Alþingistíðinda. (2582)

94. mál, sjómannalög

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem hv. frsm. sagði, að hér er um ákaflega viðkvæmt mál að ræða. Svo er gjarnan þegar með lögum á að skipa svo viðkvæmum málum sem oft reynist erfitt að útkljá í hinum frjálsu samningum. Í raun og veru er allt það mál, sem hér er um að ræða, þess eðlis.

Ég skal svara þeirri spurningu, sem hv. þm. Karvel Pálmason beindi til mín, en hafa að henni aðeins aðdraganda.

Eins og kom fram í ræðu hv. frsm. var sjómönnum lofað um áramótin 1978–1979 að gerðar yrðu breytingar á tryggingum þeim sem þeir hafa í veikinda- og slysatilfellum. Út af fyrir sig var málið þá ekki nánar skilgreint þó að í viðræðum kæmu fram þau atriði sem þeir lögðu áherslu á. Því verður ekki neitað að þetta mál hefur síðan dregist mjög mikið og allt of mikið. Ástæðan er vitanlega sú, að hér er um ákaflega viðkvæmt mál að ræða. Erfitt reyndist að ná samstöðu með sjómönnum og útvegsmönnum um samningu frv. Að lokum varð fyrrv. samgrh. að skera á hnútinn, getum við sagt, eins og fram kemur í upphaflegu frv. Ég mælti þá fyrir því frv. hér og tók skýrt fram að ég tæki ekki efnislega afstöðu til einstakra atriða frv. Ég hef talið að sumu mætti breyta, en lagði áherslu á að til að tefja ekki málið vildi ég koma því til n. fremur en að flytja nýtt frv., sem tvímælalaust hefði tafið þetta mál miklu meira, og lagði áherslu á að n. fjallaði um málið og hraðaði því.

Til mín komu fulltrúar sjómanna og gerðu grein fyrir þeim aths. sem þeir höfðu við þetta frv. að gera. Ég hét þeim því þá að þær aths. skyldu komast til n. og verða um þær fjallað þar, og ég lagði áherslu á það, m. a. í framsöguræðu minni, að um aths. sjómanna yrði vandlega fjallað. Ég lofaði ekki stuðningi við eina fremur en aðra af þessum tillögum þeirra.

Hv. þm. spyr jafnframt um það loforð sem hafði verið gefið sjómönnum á Ísafirði, þar sem deilt var. Það liggur fyrir skriflega og þarf ekkert um það að deila og mun hafa verið, að því er ég best veit, lesið upp á samningafundi þar. Orðalag er nokkurn veginn svo, — ég er ekki með það hér, — að ég muni leggja á það áherslu, sem ég get, og beita mér fyrir því að frv. til 1. um breyt. á sjómannalögum — það sem hér er til umr. — verði afgreitt á þessu þingi. Þannig er þetta nokkurn veginn orðrétt, en getur orðið alveg nákvæmt ef þess er óskað.

Ég vil jafnframt segja, að ég hef átt viðræður við nm. og vil fagna ágætu samstarfi við n. um þessi mál. Mér hafa sýnst ýmsar brtt. sjómanna eðlilegar, og ég fagna ýmsum af þeim breytingum sem n. flytur. Ég hygg að n. hafi ratað nokkuð hinn gullna meðalveg í því sambandi.

Þó vil ég einnig láta það koma hér fram, að formaður LÍÚ hefur komið til mín og andmælt alveg sérstaklega þeirri breytingu sem er í 2. mgr., þar sem felld er niður setningin: „Laun er þó ekki skylt að greiða í hléum milli veiðitímabila, sem eru hefðbundin og þekkt fyrir fram.“ Mér er það fyllilega ljóst að þessi kvöð, sem lögð er t. d. á við skulum segja lítinn rækjubát með ekki allt of mikla veltu, að halda manni á launum í kannske mánuð eða meira á meðan verið er að búa undir aðra veiði, getur verið ansi erfið, og hætt er við því að framkvæmd hjá útvegsmanni með tilliti til þessa verði sú, að maðurinn verði aðeins ráðinn til þess tíma sem vitað er að veiðihlé verði. Út af fyrir sig er því ekki sagt að sjómenn vinni allt með þessu. Þessu fylgir einnig að gera fleiri ráðningarsamninga en nú eru gerðir. Hitt er svo mætavel skiljanlegt frá sjónarmiði sjómannsins að þurfa ekki að vera atvinnulaus kannske alloft á ári, eins og nú er, á meðan breyta þarf frá einni veiði til annarrar. Mér finnst þessi krafa sjómannsins því eðlileg. Ég fyrir mitt leyti styð þetta eins og það er komið fram í frv.

Ég vil jafnframt með tilvísan til 3. mgr. segja það, að ég er því fylgjandi að sama sé látið yfir menn á skipinu ganga hvort um er að ræða yfirmenn eða óbreytta sjómenn, þeir eigi sömu tryggingu. Mér er ljóst, eins og kom fram hjá hv. þm. Steinþóri Gestssyni áðan, að þarna er um breytingu á kjarasamningi að ræða. En ég verð að taka undir það, sem kom fram hjá hv. frsm., að það er varla boðlegt að menn á sama skipi búi þannig við ólíka tryggingu, m. a. með tilliti til slysatíðni, eins og kom fram í ræðu hans.

Ég tel að þær breytingar, sem gerðar eru á 4. mgr. um árafjölda, séu einnig eðlilegar. Ég vil lýsa því, að ég er jafnframt fylgjandi því að fella ekki niður næstu mgr. á eftir, sem farið var fram á af sjómönnum, þar sem um var að ræða að fara aftur á full laun í slysatilfellum þegar þeir væru í launalausu fríi. Ég held að það sé of langt gengið og ákaflega vafasamt að leggja slíkt á útgerð sem kannske í langan tíma hefur ráðið mann í plássið. A. m. k. getur minni útgerð vart staðið undir slíku. Mér sýnist því að vel hafi verið að þessu máli unnið og sjómenn geti vel við unað, en e. t. v. nokkuð harðræði gagnvart útvegsmönnum.

Ég vil hins vegar segja það almennt um þá þróun, sem nú er, að auka greiðslur atvinnurekenda vegna slysa- og veikindaforfalla, að það er áreiðanlega kominn tími til að leita að öðrum leiðum til að gera mönnum kleift að standa undir slíku en nú eru farnar í beinum greiðslum viðkomandi atvinnurekenda. Ég vek athygli á því, að slík réttindi eru mjög breytileg á milli atvinnugreina og eru sums staðar allt upp í 12 mánuði, t. d. í slysatilfellum, en annars staðar almennt ekki nema líklega 6 mánuðir mest. Þarna er einnig mikill munur á, hvort um veikindi er að ræða eða slysatilfelli. Mér sýnist ljóst að þróunin hljóti að verða í þá átt að menn hljóti auknar tryggingar og ég hygg að nauðsynlegt sé að skoða hvort ekki megi ná þessum árangri gegnum tryggingakerfið. Ég held að satt að segja væri eðlilegast að leita að tryggingum á hinum frjálsa markaði. Ég tel víst að þar sé unnt að fá tryggingar sem dreifi þessum byrðum. Vel kemur til greina, sýnist mér, að bæði atvinnurekendur og launþegar taki þátt í að kaupa slíkar tryggingar og þá til töluvert lengri tíma en er nú í mörgum tilfellum. Þetta held ég að hljóti að vera verulegt umhugsunarefni, því að því verður alls ekki neitað að um verulegar byrðar er að ræða fyrir minni atvinnurekendur og jafnvel svo að þeir geta ekki staðið undir lögboðnum greiðslum og þá er launþeginn litlu nær þótt hann hafi fengið ákvæði í samningi eða jafnvel í lögum um að svo skuli gert.

Ég vil svo segja að lokum að ég fagna því, að þetta mál er komið frá n., og ég leyfi mér að vona að það fái afgreiðslu á þessu þingi. Þá hygg ég að sjómenn geti alveg sæmilega við unað og unnt sé að viðurkenna að við loforð hafi verið staðið.