14.05.1980
Efri deild: 88. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2645 í B-deild Alþingistíðinda. (2623)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég legg á það áherslu að með því frv. um húsnæðismál, sem nú er verið að afgreiða, er ríkisstj. í rauninni að freista þess að efna fyrirheit sem gefin hafa verið á undanförnum árum, jafnvel af fyrri ríkisstj., um þýðingarmikla þætti þessara mála, svokallaðar félagslegar íbúðabyggingar. Í því felst ekki að ríkisstj. hafi hug á að dæma þriðjung þeirra, sem vilja búa í húsnæði, til örbirgðar. Það er misskilningur. Við erum að freista þess að reyna að standa við þau fyrirheit sem gefin hafa verið um félagslegar íbúðabyggingar. Á þeim forsendum byggjast þær yfirlýsingar sem ríkisstj. hefur gefið, m. a. um verulega aukið fjármagn til verkamannabústaðanna. Hitt er aftur ljóst, að að því er varðar Byggingarsjóð ríkisins verður varðandi fjármögnun hans að gera sérstakar ráðstafanir til að ná því marki sem sett var í þeim efnum. Ég minni á að í brtt. stuðningsmanna ríkisstj. er gert ráð fyrir möguleikum til skuldabréfasölu á almennum markaði vegna Byggingarsjóðs ríkisins til að styrkja hann til að standa undir verkefni sínu.

En fyrst og fremst kvaddi ég mér hér hljóðs, herra forseti, til að þakka hv. félmn. d. fyrir framúrskarandi vel unnin störf á þeim knappa tíma sem hún hefur haft yfir að ráða. Auðvitað þekkjum við öll þetta mál allvel, það hefur verið hér á dagskrá lengi, og þó að brtt. séu margar eru þær flestar og raunar mjög margar þeirra um smærri leiðréttingaratriði. Aðrar eru efnislegar, sumar pólitískar. Þær pólitísku eru þekktar úr pólitískri umræðu liðinna ára.

Ég held þess vegna að ég hafi þessi orð ekki fleiri af minni hálfu að sinni, nema tækifæri og tilefni gefist til, en legg á það alveg sérstaka áherslu, að ég tel, að n. hafi unnið mjög gott starf að þessu erfiða verkefni, og undanskil ég þar ekki, nema síður væri, hv. form. félmn. Ed. sem hefur haldið marga fundi um þetta mál á undanförnum sólarhringum.