14.05.1980
Neðri deild: 76. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2687 í B-deild Alþingistíðinda. (2668)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Frsm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Félmn. Nd. hefur á fjórum fundum sínum haft til meðferðar frv. til l. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, 18. mál Alþingis. Eins og raunar kom fram við afgreiðslu frv. í Ed. var í félmn. þeirrar d. lögð mikil vinna í að kynna frv., fara yfir umsagnir og ræða við fulltrúa allra þeirra aðila, sem unnu að gerð frv., svo og aðila er höfðu hagsmuna að gæta í sambandi við setningu þessara laga.

Það kom fram í nál. félmn. Ed., að frv. þetta er samið í framhaldi af sameiginlegum tillögum, sem aðilar vinnumarkaðarins lögðu fram í kjarasamningum vorið 1977 um aðgerðir í vinnuverndarmálum og samþykktar voru af þeim og ríkisstj. 19. apríl 1977. Það kom einnig fram í nál. frá Ed., að skipuð var nefnd 1977, sem í áttu sæti þrír fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, tveir fulltrúar frá Vinnuveitendasambandi Íslands, einn fulltrúi frá Vinnumálasambandi samvinnufélaga og þrír fulltrúar skipaðir af félmrh. Nefnd þessi hafði samráð við fjölmargar stofnanir, sem lögum samkv. hafa eftirlit á vinnustöðum hér á landi, og vann nefndin samkv. því meginsjónarmiði, að eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum yrði sem allra mest innan vinnustaðanna sjálfra. Í frv. er í samræmi við samkomulagið frá 19. apríl 1977 lagt til að ein stofnun, Vinnueftirlit ríkisins, sjái um framkvæmd laganna og er með því lögð rík áhersla á nauðsyn náins samstarfs allra þeirra aðila sem hafa eftirlit á vinnustöðum til þess að komið verði í veg fyrir tvöfalt og margfalt eftirlit með sama hætti á vinnustað, eins og nú vill við brenna.

Félmn. Nd. var í meginatriðum samþykk þeim breytingum, sem gerðar voru á frv. í Ed., og álítur að þær hafi verið til bóta.

Fram kom við umr., þegar frv. var kynnt hér í Nd., nokkur gagnrýni á frv., og í framhaldi þess ákvað n. á fyrsta fundi sínum að kalla til viðræðna við n. nokkra aðila, þ. á m. Hallgrím Dalberg ráðuneytisstjóra, sem var formaður þeirrar nefndar er samdi frv., Ingimar Sigurðsson úr heilbrmrn., sem hefur unnið að frv.-gerð um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, Þóri Hilmarsson brunamálastjóra, Magnús E. Guðjónsson framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga og Hákon Sigurgrímsson frá Stéttarsambandi bænda, og kynnti n. sér viðhorf þessara aðila á einum fundi nefndarinnar.

Það var margt, sem kom fram í viðtölum við þessa aðila, sem skýrir þetta mál. Hallgrímur Dalberg, sem var formaður þeirrar nefndar sem vann að frv., tjáði félmn. m. a., að úttekt hefði verið gerð á 165 vinnustöðum í landinu og þar skoðað í hvernig ástandi þessi mál eru í raun og veru, sem undirstrikar nauðsyn þess að um þetta verði sett löggjöf. Ingimar Sigurðsson, sem er að ganga frá frv. til l. um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, lét þá skoðun í ljós, að eðlilegra hefði verið að hans mati að þessi mál hefðu verið athuguð samtímis, en taldi þó að hann hefði gengið þannig frá hinu frv., sem væntanlega verður lagt fyrir næsta reglulegt Alþingi, að það ætti ekki að vera vandkvæðum bundið, að þetta frv., ef að lögum yrði, yrði sérlög, og ekki mundi vera um mikla skörun að ræða. Hins vegar kom fram í viðtölum við brunamálastjóra, að hann telur mjög óljóst, hvernig verður með þá stofnun eða þau lög sem sú stofnun starfar eftir, það væri að hans mati ekki ljóst, hvort sú stofnun yrði lögð niður eða ætti að starfa áfram að einhverju leyti.

Það kom einnig fram í þeim viðræðum, sem n. átti við formann nefndarinnar sem samdi frv., að það hafði verið haft samráð við fulltrúa í landbúnaði í sambandi við samningu frv. Það kom fram, að búnaðarmálastjóri og verkfæraráðunautur Búnaðarfélagsins ásamt yfirdýralækni hefðu verið á nokkrum fundum nefndarinnar og hefðu þeir fengið sérstaklega til meðferðar það, sem snertir öryggismál í landbúnaði, og tjáð sig við nefndina um viðhorf sitt í þeim málum. Í samtali við fulltrúa Stéttarsambandsins kom til umræðu sú breyting sem Ed. gerði á frv. í sambandi við bráðabirgðaákvæði, þar sem segir að félmrh. skuli fyrir 1. júní 1981 setja reglugerð um þau ákvæði laga þessara sem snerta landbúnaðinn. Skal þar m. a. kveðið á um aðild Stéttarsambands bænda að ákvörðunin um þau ákvæði laganna er sérstaklega varða landbúnaðinn. Reglugerðin skal samin í samráði við stjórn Vinnueftirlits ríkisins, Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands. Þetta er mjög afdráttarlaus tilvitnun í lögin, þannig að það mun vera ljóst samkv. þessu að þau atriði, sem helst er um að ræða að gætu valdið ágreiningi í sambandi við málefni landbúnaðarins, ættu að geta komist í því formi inn í þessi lög sem bændasamtökin gætu fellt sig við.

Það er vissulega galli á frv., að ekki er nógu greinilega tekið fram gildissvið og framkvæmd laganna, hvorki í frv. sjálfu né í aths. með frv. Það er m. a. óljóst hvernig eða hvort aðrar stofnanir verða lagðar niður eða starfsemi þeirra minnkuð. Enn fremur er það galli, að engin áætlun eða spá fylgir frv. um rekstrarkostnað Vinnueftirlitsins eða sparnað sem af sameiningu stofnana leiðir. Þess vegna varð félmn. sammála um að setja í nál. ákvæði um þetta atriði sem er þannig, að þrátt fyrir þau ákvæði til bráðabirgða .í frv., þar sem gert er ráð fyrir að endurskoðun laganna skuli fara fram eigi síðar en fimm árum eftir gildistöku þeirra, telur n. nauðsyn bera til, vegna ágreinings um túlkun ýmissa ákvæða í frv. svo og margra óljósra atriða, að stjórnvöld láti í sumar gera úttekt á gildissviði og framkvæmd laganna að því er varðar ýmsar stofnanir, ný lagafrv. og eldri lög, sem frv. gerir ráð fyrir að falli undir hin nýju lög að einhverju eða öllu leyti. Jafnframt verði lögð fram áætlun um rekstrarkostnað Vinnueftirlits og sparnað sem sameining stofnana leiðir til. Og enn fremur segir í nál.: „Nauðsynlegt er að þessi úttekt liggi fyrir áður en Alþ. kemur saman á ný næsta haust, svo að Alþ. geti gert viðeigandi lagabreytingar, ef ástæða þykir til, áður en lögin taka gildi 1. jan. 1981.“

Það er sameiginlegt álit okkar í n., að við teljum þetta mjög mikilvægt framfaramál sem brýnt sé að verði að lögum, og það er eindreginn vilji þeirra, sem sömdu frv. að það nái fram að ganga. Það var mjög mikilvægt að n. náði samstöðu um málið og var sammála um að leggja til að frv. yrði samþ. óbreytt eins og það nú liggur fyrir, enda liggi fyrir að ríkisstj. fallist á álit n. samkv. framansögðu, eins og ég hef áður bent á. Einstakir nm. áskilja sér þó rétt til að flytja eða fylgja sérstökum brtt. sem fram kynnu að koma við málið.

Hæstv. félmrh. fékk að vita þetta viðhorf n. og varð fúslega við þeim ábendingum, að þegar málið kæmi hér til afgreiðslu yrði hann reiðubúinn að gefa þá yfirlýsingu sem n. hefur óskað eftir.

Ég vil svo vænta þess, að samstaða náist hér í hv. d. um að afgreiða þetta mál greiðlega fyrst okkur tókst að ná algerri samstöðu í félmn.