14.05.1980
Neðri deild: 76. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2689 í B-deild Alþingistíðinda. (2669)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. félmn. fyrir rösklega unnin störf að þessu flókna frv. sem hér er um að ræða. Og einnig af því að ég átti ekki kost á því að vera við afgreiðslu málsins í Ed. í síðustu viku, þá vildi ég koma á framfæri, þó að það væri ekki nema fyrir þingtíðindin, þakklæti til n. þar fyrir það hvernig hún hefur unnið að þessu máli.

Ég vil einnig taka undir það sem hv. frsm. n., Alexander Stefánsson, sagði hér áðan, að það er ákaflega mikilsvert að samstaða hefur náðst í n. um þetta stóra mál, og ég tel að það sé ekki nema sjálfsagt að verða við þeirri ósk n., sem birtist í nál. á þskj. 504, en þar er lögð á það áhersla, að stjórnvöld láti í sumar „gera úttekt á gildissviði og framkvæmd laganna, að því er varðar ýmsar stofnanir, ný lagafrv. og eldri lög, sem frv. gerir ráð fyrir að falli undir hin nýju lög að einhverju eða öllu leyti. Jafnframt verði lögð fram áætlun um rekstrarkostnað Vinnueftirlits og sparnað sem sameining stofnana leiðir til.“

Í nál. segir enn fremur: „Nauðsynlegt er að þessi úttekt liggi fyrir áður en Alþingi kemur saman á ný næsta haust, svo að Alþingi geti gert viðeigandi lagabreytingar, ef ástæða þykir til, áður en lögin taka gildi 1. jan. 1981.“

Í framhaldi af þessu áliti n. vil ég láta það koma fram, að ég mun gera til þess ráðstafanir, strax og hv. Alþ. hefur afgreitt frv. þetta, að kalla saman þá nefnd sem undirbjó frv. Ég mun óska eftir því, að n. ræði við þá aðila sem einkum koma við sögu og þetta mál einkum snertir, m. a. þá aðila sem hreyft hafa gagnrýni hér á hv. Alþingi. Ég mun einnig óska eftir því við n., að hún skili til félmrh. skriflegri skýrslu um málið sem ég geti lagt fyrir Alþingi í haust, þannig að þm. geti gert það upp við sig sjálfir, ef ríkisstj. teldi ekki til þess ástæðu, hvort þeir telja nauðsynlegt að flytja frv. til l. um breytingu á hinum nýsamþykktu lögum sem tæki þá gildi frá og með 1. jan. 1981.

Ég vil einnig geta þess hér, að í athugun eru sérstaklega í tengslum við þetta frv. ákvæði sem í gildi eru í landinu um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Hefur verið unnið að samningu frv. sem nær til verksviðs laganna um heilbrigðiseftirlit, um geislavarnir og um eiturefni. Einnig hefur verið rætt um að í sama frv. verði ákvæði um samstarf þessara mikilvægu þátta heilbrigðiseftirlitsins við áfengisvarnir og reykingavarnir. Þetta frv. er í undirbúningi og ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. geti lagt það fyrir Alþ. á næsta hausti.

Þá vil ég og geta þess, að núv. ríkisstj. hefur sett af stað sérstaka athugun á málefnum Brunamálastofnunar ríkisins. Í skipunarbréfi nefndar, sem um þau mál fjallar, eru henni sett þau tímatakmörk að hún skili áliti, að mig minnir, síðsumars, í ágúst eða sept. Það ætti þá að vera unnt að taka mið af því nál. þegar athugað verður fyrir áramót, hvort nauðsynlegt verður þá talið af hv. Alþ. að lagfæra einhver ákvæði þess viðamikla frv. sem ég vænti að hv. Alþ. lögfesti nú þegar á næstu sólarhringum.