16.05.1980
Sameinað þing: 59. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2749 í B-deild Alþingistíðinda. (2728)

200. mál, samkomulag milli Íslands og Noregs um fiskveiði- og landgrunnsmál

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt að ég lýsi í örfáum orðum afstöðu minni til þessa samnings, sérstaklega með tilliti til sjávarútvegsins. Ég vil taka það fram, að ég hefði vitanlega viljað að samningurinn væri ákveðnari og meira okkur í hag en hann er, og vil segja og undirstrika: meira okkur í hag, því ég tel að ýmis atriði þessa samnings séu mjög okkur í hag. Mun ég koma að þeim síðar.

Ég get hins vegar ekki sagt að ég hafi orðið fyrir verulegum vonbrigðum með þennan samning. Ég tel að eftir ítarlegt og raunsætt mat á hinum ýmsu aðstæðum, sem ég mun nefna, hafi þess varla verið að vænta að við gætum fengið miklu betri samninga en hér liggja fyrir.

Ég tek undir þær ýtrustu kröfur sem gerðar hafa verið af okkar hálfu til Jan Mayen svæðisins. Ég tek undir það, að siðferðislega ætti Jan Mayen vitanlega að tilheyra þessu landi. Jan Mayen liggur langsamlega næst Íslandi af byggðum löndum og Jan Mayen er mjög tengd okkur í gegnum fiskveiðar og nokkra nýtingu, þó hún sé ekki mikil. Við eigum þarna að þessu leyti stórra hagsmuna að gæta, eins og greinilega kemur fram í þessum samningi. Við eigum einnig mjög mikilla hagsmuna að gæta á Jan Mayen svæðinu í sambandi við hugsanlegar boranir eftir olíu. Mengun þaðan getur valdið gífurlegu tjóni á grundvallaratvinnuvegi okkar, fiskveiðum. Af þessum ástæðum öllum væri það sannarlega réttlætismál að Jan Mayen tilheyrði Íslandi.

En ég verð að segja það, að þegar ég les hin ýmsu gögn, sem fyrir liggja og við styðjumst við í þessu sambandi, hef ég orðið fyrir vonbrigðum. Ég verð að segja t. d. að 121. gr. í drögum að hafréttarsáttmálanum veldur mér vonbrigðum. Sú grein segir alveg skýlaust að eyja skuli hafa rétt til efnahagslögsögu. Eina undantekningin, sem þar er gert, er sú, að klettar, sem ekki geta borið mannlegt líf, skuli ekki hafa rétt til slíkrar lögsögu. Við höfum sagt, og hæstv. utanrrh. flutti það mál með miklum ágætum í upphafi viðræðnanna hér í Reykjavik, að Jan Mayen ætti e. t. v. ekki rétt til efnahagslögsögu. En Jan Mayen er þó 500 ferkílómetra stórt svæði og ég hygg að þar megi viðhalda mannlegu lífi, að vísu með nokkrum aðflutningi.

Ég varð einnig fyrir vonbrigðum með 63. gr. hafréttarsáttmálans, sem segir alveg tvímælalaust að þegar um flökkustofna er að ræða skuli þjóðir, sem eiga fiskveiðisvæði sem slíkur stofn gengur um, koma sér saman um veiðar á þeim flökkustofni. Það er ekkert í hafréttarsáttmálanum sem veitir einu ríki rétt umfram annað, þannig að ef ekki tekst samkomulag geta ríkin veitt eins og þeim sýnist. Ég tek undir það, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði áðan, að Norðmenn eru harðir veiðimenn og virðast ekki fara mikið eftir þeim nauðsynlegu friðunarreglum sem fylgja ber og við Íslendingar a. m. k. höfum sýnt viðleitni til að fylgja.

Ég kynnti mér að sjálfsögðu eins og aðrir þm. þau rit sem út hafa verið gefin um sögulegan rétt okkar. Þau eru fróðleg, á því er enginn vafi. En ég verð þó að segja það, að mér þykir það, sem fram er dregið, heldur magurt. Satt að segja hafa Hollendingar haft meiri afnot af Jan Mayen en e. t. v. við, t. d. ráku þeir hvalveiðistöð þar um árabil. Ég held að okkur sé nauðsynlegt að viðurkenna þessi rök, þó að ég undirstriki það sem ég sagði áðan, að af öðrum ástæðum, — legu eyjarinnar o. s. frv., — eigum við, að því er mér finnst, mjög sterkan siðferðilegan rétt.

Menn hafa einnig sagt hér að Jan Mayen væri á hinu íslenska landgrunni. Er Jan Mayen á hinu íslenska landgrunni? Síðustu kenningar vísindamanna segja að hryggurinn suður af Jan Mayen sé brot af landgrunni Grænlands, hann sé rek frá Grænlandi í austurátt og það séu önnur jarðlög þar en á hinu íslenska landgrunni og hryggnum þar norður af.

Þetta hljómar e. t. v. eins og ég sé hér að verja rétt Norðmanna til eyjarinnar. Það er ég ekki að gera, því ég undirstrika enn einu sinni að af öðrum ástæðum eigum við þarna að mínu mati tvímælalaust mikinn rétt. En þetta eru þó allt ástæður sem nauðsynlegt er að viðurkenna ef við lítum raunsætt á þetta mál. Mér sýndist þess vegna ljóst, þegar við gengum til þessara viðræðna, að þær yrðu erfiðar og mér sýnist af því, sem hér var lesið áðan upp úr því sem hæstv. fyrrv. utanrrh. hafði lagt fram í landhelgisnefnd, að hann hafi haft eitthvað svipað mat.

Um einstaka liði, sem fram koma í þessum samningi gagnvart fiskveiðum, vil ég fara örfáum orðum um og skal þó stytta mál mitt.

Það kom fram hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, að í 3. gr. er ákveðið að fiskveiðinefnd sú, sem setja á á fót, skuli vera sammála til þess að tillögur hennar hafi gildi. Hann talar um neitunarvald Norðmanna. En við höfum líka neitunarvald. Á það legg ég mikla áherslu. Þegar kemur að því að endurskoða það, sem Norðmenn mega veiða á svæðinu, vitum við t. d. að Norðmenn munu sækja mjög fast, eins og þeir hafa gert, að fá meira en 15%. Þeir gerðu það nú og þeir munu halda því áfram. Ég tel þess vegna mikilvægt að við höfum neitunarvald í slíku tilfelli. Einnig á þessi nefnd að fjalla um ýmis önnur atriði sem varða fiskveiðar. Í því sambandi getur verið mikilvægt að við höfum einnig neitunarvald. Ég vek athygli á því, að verði nefndin ekki sammála er málunum vísað til ríkisstj., sem eiga að halda áfram samkomulagsumleitunum. Ég fæ satt að segja ekki séð hvernig á annan máta er betur frá málunum gengið með fiskveiðinefndina. Ég held að við hefðum ekki getað fallist á, að meiri hl. fengi að ákveða, og því hafi þetta verið eina raunhæfa lausnin. Ég hef ekki fyrr heyrt aths. við þetta atriði.

Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram og harma að í þessum samningi eru í 4. gr. það sem kallaðar hafa verið útgöngudyr fyrir Norðmenn, þ. e. sé bersýnilega um ósanngjarna ákvörðun að ræða geti þeir verið lausir mála. En ég vil vísa sterklega til þess sem hæstv. utanrrh. sagði um það mál. Ég get einnig sagt það hér, kannske meira til gamans en í alvöru, að þegar ég spurði sjútvrh. Norðmanna að því, í hvaða tilfellum gæti orðið um slíkar ákvarðanir að ræða, sérstaklega með tilliti til þess að í 2. mgr. fá Norðmenn uppbót ef við veiðum meira en í upphafi var ákveðið, þannig að þeir eru að þessu leyti varðir. Eina, sem hann gat bent mér á, var það, að við gætum t. d. ákveðið minni veiðar en vísindamenn leggja til. Menn geta allir séð í huga sér hvenær það verður. Það var niðurstaða mín, eftir að mikið hafði verið um þetta þjarkað, að þetta væri nánast formsatriði sem Norðmenn yrðu að hafa til að geta komið þessum samningi í gegnum norska þingið eða utanríkisnefnd norska þingsins. Ég tel að sú viðurkenning, sem er í 4. gr. á því að við megum ákveða heildarkvóta náist ekki samkomulag, og viðurkenning, sem er í öðrum greinum, m. a. í inngangi þessa samnings, á yfirgnæfandi mikilvægi fiskveiðanna fyrir okkur Íslendinga séu svo mikilvægar að það sé satt að segja litlu verði keypt þó að þessar svokölluðu útgöngudyr séu þarna.

Ég get tekið undir það, sem hér hefur komið fram, að 15% heildarmagnsins eru of mikið fyrir Norðmenn miðað við þær veiðar sem þeir hafa stundað hér undanfarin ár, t. d. á fimm ára tímabili. Við töldum að 10% væri hóflegt. Þeir kröfðust 25%. Samkomulag varð um 15%, fyrst og fremst á þeirri forsendu að þau 90 þús. tonn, sem ákveðin voru í fyrra, voru 15% af því sem upphaflega var gert ráð fyrir að veiða. Ég tel það mikilvægt í þessari grein að þetta hlutfall er ákveðið til fjögurra ára. Fiskifræðingar okkar og sérfræðingar, sem um þessi mál fjölluðu, lögðu á það ríka áherslu að þessi hundraðshluti fengist ákveðinn til allmargra ara þannig að á hann kæmist hefð. Ég tel það vera mikilvægt, þegar málið er vakið upp að nýju, að svo hefur verið um þetta mörg ár. Ég tel einnig mikilvægt í þessari grein, sem segir í lokaorðum hennar, að við ákvörðun um veiði eftir fjögur ár skuli höfð í huga sjónarmið sem báðir aðilar hafa lagt til grundvallar við gerð samkomulags þessa. Við gerð þessa samkomulags eru lagðir til grundvallar yfirgnæfandi hagsmunir okkar Íslendinga í fiskveiðum, m. a. á Jan Mayen svæðinu, svo ég tel þarna allvel frá málum gengið. En þar er þó atriði — það skal ég fúslega viðurkenna — sem ég hefði viljað hafa á nokkuð annan veg. Við vildum allir hafa þarna inni ákvæði sem segði: Náist ekki samkomulag skal hundraðshlutinn verða óbreyttur. Það náðist ekki, en ég tel sæmilega um hnútana búið eins og greinin er nú orðuð.

Gerð hefur verið við það aths., að sá hluti, sem Norðmenn mega veiða, er á Jan Mayen svæðinu einu og menn hafa sagt: Það opnar þeim leið til að semja um viðbótarveiði, t. d. á svæði Efnahagsbandalagsins. — Við skulum aðeins líta á þetta mál. Nú er líklegt að Efnahagsbandalagið fái einhverja hlutdeild í loðnuaflanum, því miður. Vonandi tekst okkur að gera hana sem allra minnsta af því að þeir hafa ekki stundað slíkar veiðar, en það tel ég vera okkar sterkustu rök gagnvart Efnahagsbandalaginu. En ef þeir fá einhvern hluta er okkur að sjálfsögðu nokkuð sama hvort Þjóðverjar veiða hann eða Norðmenn. Ef Norðmenn semja við Efnahagsbandalagið um að fá þann hluta, sem Efnahagsbandalagið kann að fá, skiptir ekki máli að mínu mati hver veiðir hann. En ég legg töluvert upp úr hinu, að þessi 15%, sem Norðmenn hafa leyfi til að veiða, eru á Jan Mayen svæðinu. Þau er mörg árin sem engin loðna gengur á Jan Mayen svæðið, eftir því sem fiskifræðingar segja okkur, og þau ár, sem loðna gengur ekki á Jan Mayen svæðið, hafa Norðmenn ekki leyfi til að veiða þessi 15%, það er alveg ljóst. Að mínu mati var því betra að binda hlutfallið við Jan Mayen svæðið en svæðið allt. Ef það hefði verið bundið við svæðið allt hefði orðið að brjóta samninginn upp í viðræðum við Efnahagsbandalagið. Það hefði krafist þess að sjálfsögðu að fá aðild að samkomulagi um heildarveiðina utan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Ég geri mér því vonir um að þau verði mörg árin sem ekkert verði veitt á Jan Mayen svæðinu og þá vonandi sem allra minnst á Efnahagsbandalagssvæðinu, eftir því hvernig okkur tekst að semja um það.

Um aðra fiskstofna vil ég segja, að ég hélt því stíft fram fyrir mitt leyti, eins og aðrir í nefndinni, að við ættum að fá helmingaskipti, og hefði fagnað því. En mér virðist þó rétt að hlusta á það sem sérfræðingar okkar á þessu sviði segja um aðra stofna sem þarna er um að ræða. Þarna er um tvo stofna að ræða, þ. e. síldina og kolmunnann. Þessir stofnar ganga í gegnum fiskveiðilögsögu margra þjóða. Samkv. þeim drögum, sem fyrir liggja að hafréttarsáttmála, ber þessum þjóðum öllum að koma sér saman um hve mikið eigi að veiða af þessum fiskstofnum og hvernig eigi að skipta. Við Íslendingar fáum þar ekki það vald sem við fáum með samningum yfir loðnustofninum, því miður, getum við sagt. Okkur verður eflaust úthlutað einhverjum kvóta. Til dæmis hafa menn sagt að eðlilegt hlutskipti Íslands í kolmunnaveiðinni væri 200 þús. lestir. Við erum þar að vísu í stórhættu, því við veiðum ekki nema 10–20 þús. lestir. Það er að vísu allt annað mál, en slæmt að okkur skuli ekki hafa tekist að festa fætur betur í þeirri veiði. — En ef við fáum úthlutað 200 þús. lestum af kolmunna munum við vitanlega leggja áherslu á veiðar hans sem næst okkar strönd, en ekki fara norður í Jan Mayen eftir þessum kolmunna. Ég held því að það hafi ekki eins mikla þýðingu, þó að ég taki undir að það hefur þýðingu sem viðurkenning á okkar rétti, að fá helmingarétt til veiða á Jan Mayen svæðinu.

Ég vil segja um 8. gr., að það var e. t. v. ekki síst ég sem stóð í því allan tímann að reyna að fá það viðurkennt að þessi samningur yrði lagður fram í viðræðum við aðrar þjóðir. Vitanlega verðum við að viðurkenna að það verða viðræður við aðrar þjóðir. Þær eru að hefjast við Efnahagsbandalagið. Mér sýnist það ákaflega mikilvægt og tek undir það sem hæstv. utanrrh. sagði, að það fékkst viðurkennt að þennan samning skuli leggja fram ekki síður en hafréttardrögin. Það er mjög mikilvægt. Ef þessi samningur verður samþykktur verður hann vitanlega lagður fram í viðræðum við Dani sem hefjast í næstu viku. Það er ekki lítils virði að geta sagt að þjóð eins og Norðmenn, sem á slíkra hagsmuna að gæta, hafi viðurkennt þann rétt sem við eigum, — meiri rétt til fiskveiða, meiri hagsmuna að gæta og rétt til að ákveða heildarmagn á loðnu, eins og hv. síðari ræðumaður tók fram. Þetta tel ég ákaflega mikils virði.

Það er rétt, að einn embættismaður, sem var okkur erfiður, hljóp upp á síðustu mínútu. En ég verð að segja það, að ég lít það þó miklu alvarlegri augum að einn af okkar ágætu nefndarmönnum gerði það sama. Ég hef satt að segja ekki áhyggjur út af einum norskum embættismanni, en ég hefði heldur viljað að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefði fylgt okkur einhuga í gegnum þennan samning allan. Það var ekki tekið undir athugasemdir Evensens á nokkurn máta t. d. af utanrrh. Noregs. Utanrrh. Noregs hefur fullvissað okkur um að hann muni styðja þennan samning af alefli og kynna hann fyrir Efnahagsbandalaginu. Ég efast ekki um að hann muni gera það. Mér sýnist að hann hafi komið þannig fram í þessum viðræðum öllum að ég treysti honum fyllilega til þess. Ég held því að menn geri allt of mikið úr aths. embættismannsins.

Ég ætla ekki að hafa um samning þennan langt mál, enda komið matarhlé. Ég vil segja að lokum að samstarfið í nefndinni í Osló var gott og mér þótti gott að vinna að þessu máli með þeim mönnum sem til þess völdust. Íslensku nm. unnu einhuga að því að skoða þau drög sem komu hverju sinni frá Norðmönnunum. Við gerðum sameiginlegar aths. við þau og bárum þau til baka, áttum sameiginlega fundi með ráðh. sem fulltrúar stjórnmálaflokkanna tóku annað slagið þátt í. Ég held að slík vinnubrögð hafi verið til fyrirmyndar.

Ég held að við höfum allir gert okkur grein fyrir því meðan á viðræðunum stóð, að við mundum ekki ná fram öllum okkar ítrustu kröfum. Það var alveg ljóst. Ég mat það hins vegar svo, að við hefðum náð fram verulegum hluta þeirra og mörgum mikilvægum atriðum. Mér heyrðist aðrir nm. meta það svo einnig, eins og hér hefur komið fram. Ég verð því að segja að það veldur mér vonbrigðum að við gátum ekki orðið alla leiðina sammála um að standa að þessu samkomulagi. Það er vitanlega veikleiki hjá okkur að gera það ekki. En ég held að menn hljóti þó allir að viðurkenna, hvar sem þeir eru í flokki, að það er ólíkt betra að hafa þennan samning en engan samning.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði áðan að Norðmenn væru miklir veiðimenn. Með þessum samningi höfum við þó nokkra stjórn á veiði þeirra. Við hefðum enga stjórn ef við hefðum ekki þennan samning. Ég held í öðru lagi að menn hljóti að viðurkenna að það er verulegur styrkur fyrir okkur að hafa þennan samning í væntanlegum viðræðum við Efnahagsbandalagið. Þær viðræður um fiskveiðiréttindi verða miklu erfiðari en þær sem við höfum nú tekið þátt í. Það er von mín að við getum orðið samstiga í þeim.