17.05.1980
Neðri deild: 79. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2804 í B-deild Alþingistíðinda. (2783)

184. mál, Iðnrekstrarsjóður

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er vissulega jafnan tilefni til að taka málefni iðnaðarins sérstaklega til umr. hér á hinu háa Alþingi. Ég hef raunar nokkrum sinnum í vetur gert tilraun til að koma þessum málefnum hér á dagskrá og varpað fsp. fram til ríkisstj. í þeim efnum, en orðið hefur heldur fátt um svör, sem reyndar er við að búast.

Það getur að sjálfsögðu verið gott og nauðsynlegt að setja á stofn nýtt og nýtt kerfi með nýjum lánaheimildum, nýjum möguleikum til styrkja og framlaga, það getur verið gott að tala um áhættulán og ábyrgðir, viðbótarlán og hvað eina. En auðvitað er kjarni málsins sá, að sá iðnaður, sem fyrir er í landinu, og sá iðnaður, sem vissulega hefur náð góðum árangri, hafi rekstrarskilyrði til að geta starfað áfram. Ég held að í þessu sambandi sé t. d. afskaplega fróðlegt að horfa til ullar- og skinnaiðnaðar. Eins og ég veit að hæstv. iðnrh. er mjög vel kunnugt var þróunin þannig á s. l. ári, að kostnaðarhækkanir við reksturinn voru einhvers staðar á milli 50 og 60% á sama tíma og tekjuaukningin var ekki nema í kringum 26 eða jafnvel 28%, eitthvað á því bili. Það þarf enginn maður að vera í neinum vafa um að þegar þannig er staðið að útflutningsframleiðslunni hlýtur eitthvað að láta undan fyrr eða síðar.

Það, sem veldur því að ég geri þetta mál að sérstöku umræðuefni núna, voru ummæli hæstv. iðnrh. þegar hann fór áðan að tala um sérstakar svæðisbundnar áætlanir um iðnþróun. Ég minnist þess m. a. frá s. l. sumri, þegar hæstv. iðnrh. var staddur á Akureyri, að hann gaf út fréttatilkynningu um það, eftir að hafa kynnt sér stöðu ullar- og skinnaiðnaðarins þá, að þessi heimsókn hefði orðið mjög gagnleg. Ég skildi hana þannig, að vegna sérstakra vandamála, sem þessi tegund útflutningsframleiðslunnar átti þá við að búa, mætti vænta þess, að með einhverjum hætti yrði komið til móts við eða reynt að finna lausn á þeim rekstrarerfiðleikum sem þessi framleiðsla átti við að stríða.

Ég sé ástæðu til þess í þessu sambandi að minna á að bæði samtök iðnverkafólks á Akureyri og Sambandsverksmiðjur SÍS á Akureyri, sem eru langsamlega stærstu aðilarnir af þessum iðnaði, kölluðu þm. Norðurl. e. norður til sérstaks fundar til að ræða þessi mál. Því miður verður að segjast eins og er, að fram að þessu hefur næsta lítið komið út úr þeim fundi. Að vísu hefur gengið sigið nokkuð, það hefur komið til gengisfellingar og verulegs gengissigs síðan, þannig að tapið á ullar- og skinnaiðnaðinum er ekki jafngeigvænlegt og myndin ekki jafnsvört af þeim sökum og hún virtist vera í byrjun marsmánaðar og í febrúarmánuði s. l. Samt er fjarri því að endar náist saman. Þrátt fyrir hið mikla gengissig, sem verið hefur, sígur áfram á ógæfuhliðina.

Nú skulum við ekki vera að reyna að blekkja okkur með því eða svæfa samviskuna með því að þeir menn, sem standa að þessum iðnaði, og það iðnverkafólk, sem þarna er um að ræða, sé ekki hæft fólk í sinni starfsgrein. Þvert á móti er hér um mjög þrautþjálfað fólk að ræða, sem sumt hefur svo áratugum skiptir unnið að þessari framleiðslu. Þarna hefur verið unnið gífurlegt markaðsstarf í öðrum löndum fyrir þessa vöru og jafnan byggt á því, að við Íslendingar yrðum að haga útflutningsframleiðslu okkar á þann veg að við gætum framleitt dýra vöru og góða vöru, sannkallaða gæðavöru, sem yrði eftirsótt á hinum dýrustu mörkuðum. Við vitum það líka fyrir að frá framleiðslu, sem hér um ræðir, hefur fengist hærra verð erlendis en vöru frá sambærilegum erlendum aðilum, bæði á Norðurlöndum og Írlandi. Þetta er mjög eftirsótt vara og pantanirnar koma inn í stríðum straumum. M. ö. o.: það er nóg verk að vinna og hið þrautþjálfaða fólk, sem þarna vinnur, hefur þess vegna uppfyllt það sem hægt var að ætlast til af því. Það framleiðir vöru sem er eftirsótt erlendis og menn eru reiðubúnir að greiða hærra verði en vöru frá öðrum löndum sem rétt er að bera sig saman við í þessum efnum. Samt sem áður hefur það gerst, jafnvel nú í vetur, að lokað hefur verið iðnfyrirtækjum, sem hafa byggt á þessum rekstri, og framleiðslan er öll í mikilli óvissu.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það, hvílíkt tjón það yrði fyrir okkur ef þessir markaðir, sem búið er að vinna þannig upp, glötuðust, ef við stæðum ekki við okkar skuldbindingar í sambandi við vörur á þá, ef nafn okkar gleymdist, ef þeim aðilum, sem senda pantanirnar núna í stríðum straumum til landsins, yrði ekki sinnt með eðlilegum hætti. Það er þess vegna gífurlega mikið hér í húfi og þetta mál mjög alvarlegt fyrir byggðarlag eins og Akureyri. Ætli það megi ekki gera táð fyrir að þeir, sem hafa afkomu sína af þessum rekstri, skipti þúsundum þar? Það er ekki aðeins að þetta hafi þannig mjög af gerandi og mjög bein áhrif á alla byggðaþróun í þessum stærsta iðnaðarbæ landsins í útflutningsiðnaðinum, heldur er þetta einnig mjög þýðingarmikið, a. m. k. að mati hæstv. landbrh., í sambandi við stefnu okkar í þeim málum að landbúnaðurinn geti stuðst við sterkan iðnað í landinu sem byggi afkomu sína á úrvinnslu úr innlendu hráefni.

Ég vil nú spyrjast fyrir um það, að gefnu því tilefni að hæstv. iðnrh. ræddi hér áðan um svæðisbundnar áætlanir um iðnþróun, hvaða fréttir hann hafi að segja í sambandi við eðlilegar óskir þessa útflutningsiðnaðar í sambandi við hans kröfur, að hvaða leyti ríkisstj. hefur orðið við þessum óskum og hvernig hæstv. ríkisstj. býst við því að mæta þeim á næstunni, við skulum segja í sambandi við þessar hugmyndir um iðnþróunina. Ég spyr sérstaklega að því, hvaða hugmyndir hæstv. iðnrh. geri sér um það uppsafnaða óhagræði iðnaðarins, sem oft hefur komið á dagskrá, og einnig uppsafnaðan söluskatt, og óska upplýsinga um hvernig þau mál standi nú. En á sama hátt og þessi þrjú síðustu misseri, síðan hæstv. iðnrh. tók við völdum, á sama hátt og æ síðan, hefur staða útflutningsiðnaðarins veikst mjög verulega vegna miklu verri rekstrarskilyrða en áður, vegna þess að kostnaðarhækkanirnar hafa orðið meiri en mögulegar tekjuhækkanir og auðvitað fyrst og fremst hjá þeim iðnaði sem verður að ákveða vöruverð sitt með löngum fyrirvara, eins og hér um ræðir, þar sem vöruverðinu er slegið föstu í byrjun hvers árs og þessi iðnaður er því mjög veikur fyrir öllum hækkunum á rekstrarkostnaði sem yfir dynja á árinu. Ég geri ráð fyrir að enginn geti á þessari stundu svarað því, hvernig þessi iðnaður á að mæta þeim gífurlegu kostnaðarhækkunum sem fyrirsjáanlegt er að yfir dynja á næsta sumri.

Lítum yfir þessa sögu og veltum því sérstaklega fyrir okkur, hversu atvinnuöryggi þessa fólks er orðið lítið þrátt fyrir að kaup þess hefur sannarlega ekki orðið neinar drápsklyfjar á einu eða neinu. Það er ekki kaup þessa fólks sem er að sliga niður þennan atvinnurekstur á þeim tíma, sem núv. hæstv. iðnrh. hefur setið að völdum í ríkisstj., og á þeim tíma, sem þessi vinstri stjórn og sú síðasta, sem á undan henni var, hafa smátt og smátt verið að brjóta niður efnahagslíf landsins og þann grundvöll sem búið var þó að laga fyrir atvinnulífið í tíð ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar. Það er ekki þetta lágt launaða fólk sem er að sliga þennan atvinnurekstur. Það eru ýmsar aðrar hækkanir, það er ýmis annar kostnaður sem þarna hleðst á og eyðileggur afkomuna. Þetta er kjarni málsins.

En við skulum líka rifja það upp, að iðjufólk á Akureyri var heldur ekkert sérlega hrifið eða upp með sér af formanni Verkamannasambands Íslands, Guðmundi J. Guðmundssyni, sem þá var ekki háttvirtur, en er orðinn það núna, þegar hann var á þessum tíma að efna til stórpólitískra átaka á vinnumarkaðinum og lofa upp í ermina sína „samningunum í gildi“, sem hann hefur ekki einu sinni verið maður fyrir að segja eitt einasta orð um eftir að hann var kosinn á Alþingi. Þetta fólk sá í gegnum svikin og vissi að framkoma af þessu tagi mundi ekki vera vænleg fyrir svo viðkvæman rekstur sem ulla- og skinnaiðnaðurinn var. Það var af þeim sökum sem fulltrúar þessa lágt launaða fólks vildu ekki taka þátt í þeirri pólitísku skemmdarstarfsemi sem formaður Verkamannasambandsins og stjórnarmaður í BSRB, hv. þm. Guðrún Helgadóttir, beittu sér svo mjög fyrir á þessum árum. Það var eftirtektarvert á þeim tíma að starfa með Jóni Ingimarssyni formanni iðnverkafólks á Akureyri í þeirri nefnd, sem fjallaði um þessar aðgerðir fyrir launþega á öllu Norðurlandi, og heyra þau rök formanns iðnverkafólks á Akureyri að hann tæki ekki þátt í skemmdarstarfsemi af þessu tagi. Það er líka komið á daginn núna að þróunin hefur orðið eins og þetta fólk óttaðist. S. l. ár var gífurlega vont í þessum rekstri og allar horfur eru á að þetta ár verði verra.

En það er ekki aðeins að útflutningsiðnaðurinn sé þannig verr settur en áður, og er skemmtilegt að heyra hæstv, iðnrh. vera alltaf að tala um iðnþróun úti um landið og víkja aldrei að sjálfum rekstrargrundvellinum. Hvaða máli skiptar hvað er teiknað uppi í iðnrn.? Hvaða máli skiptir þótt hæstv. iðnrh. fari til Akureyrar, Egilsstaða og hvert sem hann vill, ef ekki er hægt að reka eitt einasta fyrirtæki af því að kostnaðurinn hleðst svo upp? Hvaða máli skiptir það? Og hvaða bull er þetta um iðnþróun þegar búið er að drepa allt niður? Hvernig er staðan t. d. í samkeppnisiðnaðinum? Hvað er að gerast þar? Það væri gaman að gera úttekt á því. — Ég sé að nú kemur fyrrv. iðnrh. inn. Það væri gaman að gera úttekt á því, hvernig staðan er núna t. d. í sælgætisiðnaðinum eða þegar hann stjórnaði í skjóli sjálfstæðismanna þeim málum. Það væri skemmtilegt að sjá það. Ég minnist þess að vísu, að hæstv. félmrh. hafði afskaplega mörg orð um það á þeim tíma að hæstv. forsrh. fylgdi rangri stefnu í húsnæðismálum, taldi að hann hefði lítið gert í þeim efnum. Hins vegar var þá nóg atvinna í sælgætisiðnaðinum, en þar eru menn að missa atvinnuna núna. Og hvernig er það í kexinu? Hvernig er t. d. byggingariðnaðurinn?

Komum kannske að einu atriði þessa máls, sem ekki er síður skemmtilegt að athuga: Á hverju byggir t. d. Þjóðhagsstofnun tölur sínar um stöðu iðnaðarins? Hvað skyldu það vera gamlar tölur? Ætli þær séu frá árinu 1977 eða 1978? Það eru ekki tölur um stöðuna eins og hún er í dag, svo mikið er víst, og þess vegna kemur sú bága mynd, sem launafólkið sjálft, sem öryggi sitt á undir þessum rekstri, veit um, ekki fram í þeim fínu pappírum sem þar eru búnir til, en veldur því m. a. hversu þetta fólk, sem er lægst launað í þjóðfélaginu, er rólegt núna. Það veit að búið er að fara þannig með efnahag landsins að ekki einu sinni hið minnsta svigrúm fyrir lægst launaða manninn er til. Hæstv. forsrh. lýsir því yfir að 1% launahækkun sé sama og 1% hækkun á verðbólgunni og náttúrlega ekki hin minnstu mótmæli frá formanni Verkamannasambands Íslands við þeim ummælum. Allt er þetta nú orðið satt og rétt. Og þá langar mig að spyrja: Hvernig heldur formaður Verkamannasambands Íslands að hægt sé að lifa af 250–300 þús. kr. launum á mánuði? Það væri gaman að heyra hann búa til kostnaðarreikning fyrir það heimili sem gæti gert það. (Gripið fram í.) Hvernig skyldi það vera hægt? Nei, sannleikurinn er að sjálfsögðu sá, að eins og á þessum málum hefur verið haldið er búið að eyðileggja svo gersamlega, ekki aðeins rekstrargrundvöllinn fyrir heimilunum, heldur um leið búið að fara þannig með rekstrargrundvöll atvinnufyrirtækjanna að það er ekki einu sinni gerð tilraun til þess hér á Alþ. að fara orðum um það á hverju hann skuli byggjast.

Við gætum haldið áfram að velta þessum málum fyrir okkur. Nú er svo komið, á sama tíma og peningakreppa er mikil í landinu, lánsfjárkreppa, peningarnir streyma út úr bönkunum, það ræðst ekki neitt við neitt, þar með vantar þann grundvöll sem bankarnir hljóta að vera, ekki síst í svo mikilli verðbólgu, til þess að geta séð atvinnuvegunum fyrir nauðsynlegu rekstrarfé, þ. e. að ná einhverjum peningum inn, að þá er búið að búa svo í haginn að enginn má lengur eiga bankabók, ekki einn einasti maður, án þess að hið opinbera þurfi ofan í það að fara. Svo er verið að tala um það í þessu ágæta frv., að Iðnrekstrarsjóður eigi að leggja fram fé til hlutafjársöfnunar til að byggja upp eigið fé í fyrirtækjum.

Nú er þetta dálítið merkilegt. Ef eigið fé í fyrirtæki skipti svo miklu máli, að ástæða væri til að skattleggja menn til þess að ríkissjóður gæti lagt fram fé til hlutafjárkaupa, hvernig stendur þá á því, að í skattalögunum má ekki halda þannig á að menn séu örvaðir til að leggja fé sitt í atvinnurekstur? Hvers vegna skyldi það ekki vera gert í einhverjum mæli og með öðrum hætti reynt að stuðla á jákvæðan hátt að því, að fólk vildi koma nálægt atvinnurekstri? Vanaviðkvæðið upp á síðkastið er einmitt á hinn bóginn, að þeir eru fleiri og fleiri sem segja við mann að ekki sé hægt að standa fyrir fyrirtæki lengur vegna þess að það viti bókstaflega enginn maður hvernig rekstrargrundvöllurinn verði í næsta mánuði. Þeir segja mér t. d. norður á Raufarhöfn að ef þeir fljúgi til Reykjavíkur sé flugfarið orðið hálfu dýrara þegar þeir komi norður aftur. Þannig dynja hækkanirnar yfir, ekki ræðst neitt við neitt og engin tilraun er gerð til að stjórna nokkrum sköpuðum hlut.

Herra forseti. Ég sé sérstaka ástæðu til að fagna því, að hæstv. iðnrh. skuli vilja beita sér fyrir þróunaraðgerðum sem tengjast byggðaviðhorfum, held ég að hann hafi sagt, og vona að í þessu felist þá að hann muni beita sér fyrir því, að einhver rekstrargrundvöllur verði undir þeim iðnaði sem keppir við hinn erlenda iðnað, bæði útflutningsiðnaði og ekki síður samkeppnisiðnaði, því að hann er bókstaflega allur að grotna niður og það er ekki að sjá að hæstv. ríkisstj. geri minnstu tilraun til að hamla þar á móti. Mundi þó, ef eitthvað væri um þessi mál hugsað, sýnast nærtækt að í sjónvarpinu yrði nú gert almennilegt átak til að hvetja fólk til að kaupa íslenskan varning og tryggja þannig íslenska atvinnustarfsemi, þannig að menn hugsi ekki fyrst og fremst um það, með hvaða ráðum og hvernig þeir geti auðveldast komist úr landi og er þá sama þó þeir eigi ekki fyrir ferðinni til baka eins og ástandið er að verða í þessu landi.