19.05.1980
Sameinað þing: 61. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2840 í B-deild Alþingistíðinda. (2815)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að tilkynna hér, eins og oft hefur áður verið gert í þinglok, að ríkisreikningur, A-hluti, fyrir árið 1979 er nú fullgerður af hálfu ríkisbókhalds og verður dreift hér til þm. innan skamms tíma, síðar í dag a. m. k. Jafnframt verður hann fenginn yfirskoðunarmönnum til meðferðar.

Eins og kunnugt er eru gjöld og tekjur ríkisreiknings gerð upp á grundvelli áfallinna gjaldaskuldbindinga og álagðra tekna, sem mjög oft fer ekki saman við greiðslur á þessum liðum, en fjárlög eru hins vegar í aðalatriðum byggð á greiðsluhreyfingum. Jafnframt skal minnt á að stofnkostnaður er færður til gjalda á rekstrarreikning strax við kaup eða framkvæmd, en fjárfesting er ekki færð til bókar á efnahagsreikning og síðan afskriftir færðar þaðan á gjöld á endingartíma eignarinnar.

Helstu niðurstöðutölur A-hluta ríkisreiknings fyrir árið 1979 eru þessar:

Gjöld urðu 249 146 millj. kr. og tekjur 248 036 millj. kr. Gjöld umfram tekjur urðu því 1 110 millj. kr., sem er 7774 millj. kr. óhagstæðari niðurstaða en gert er ráð fyrir í fjárl. Árið áður var hallinn lítið eitt hærri eða 1609 millj. kr.

Greiðsluafkoma ríkissjóðs við bankakerfið, fyrst og fremst Seðlabankann, var hagstæð um 2250 millj. kr., en í fjárl. var gert ráð fyrir 7595 millj. kr. greiðslubata. Árið 1978 var hins vegar um halla að ræða að fjárhæð 379.5 millj. Að teknu tilliti til gengismunar og verðbóta á lánum við Seðlabankann hækkaði skuld ríkissjóðs við bankann um 2332 millj. kr. á árinu.

Með hliðsjón af þeim breytingum, sem urðu á síðasta ári á verðtryggingu lána, og tilkomu lánskjaravísitölu um mitt ár 1979 var ákveðið að bókfæra öll vísitölubundin lán í árslok 1979 samkv. þágildandi vísitölum. Áður höfðu lán A-hluta ríkisins verið tilgreind á nafnverði. Hækkun skulda af þessum ástæðum nam 26 267 millj. kr. Í þessari fjárhæð er hækkun margra ára aftur í tímann. Gengisbundin lán hafa ávallt verið færð upp í árslok miðað við gildandi gengi og var svo einnig gert nú. Endurmatsjöfnuður varð því á árinu mjög há fjárhæð, eða 29 052 millj. kr. miðað við 11 307 millj. kr. á árinu 1979. Skuldir umfram eignir A-hluta ríkisins námu í árslok 1979 60 931 millj. kr. og höfðu hækkað á árinu um 30 162 millj. kr. og þar af, eins og áður sagði, um 26 267 millj. vegna uppfærslu vísitölubundinna lána vegna margra ára. Í þessu sambandi er þess að geta, að efnislegir fjármunir A-hlutans, eins og fasteignir, vélar og áhöld teljast ekki með eignum í þessu uppgjöri.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að gera grein fyrir efni ríkisreiknings sem dreift verður á borð þm. síðar í dag. Ég tel hins vegar ástæðu til að fara hér örfáum orðum til viðbótar um stöðu ríkissjóðs að loknum 4 fyrstu mánuðum þessa árs.

Upplýsingar um gjöld og tekjur ríkissjóðs í lok aprílmánaðar liggja nú fyrir. Samkv. þeim var rekstrarjöfnuður neikvæður um 6.6 milljarða kr. á fyrstu 4 mánuðum ársins. Rekstrarjöfnuðurinn var þó heldur hagstæðari en á sama tíma undanfarin ár. Það eru einkum tvö atriði, sem öðrum fremur eru þessu valdandi. Í fyrsta lagi sköpuðust mjög sérstakar aðstæður á fyrstu mánuðum þessa árs, þar sem fjárlög voru ekki samþ. fyrr en komið var fram að páskum. Ýmis þau fjárframlög, sem venja er að inna af hendi á fyrstu mánuðum ársins, komu ekki til útborgunar fyrr en eftir samþykkt fjárlaga, þar sem þau rúmuðust ekki innan þeirrar greiðsluheimildar sem Alþingi hafði samþykkt. Var hér fyrst og fremst um að ræða framlög til stofnkostnaðar ásamt framlögum til ýmissa sjóða og styrkja. Í öðru lagi má rekja þessa bættu útkomu til þess, að markvisst hefur verið unnið að því í fjmrn. að draga úr árstíðabundnum halla ríkissjóðs, en hann hefur á undanförnum árum verið mestur fyrstu mánuði ársins. Hefur þessi viðleitni borið nokkurn árangur.

Gjöld ríkissjóðs á fyrstu 4 mánuðum ársins urðu 102.3 milljarðar kr., en tekjur námu 95.7 milljörðum kr. á sama tíma. Rekstrarjöfnuður frá áramótum til aprílloka varð því, eins og ég hef áður greint frá, neikvæður um 6.6 milljarða kr. Til samanburðar má geta þess, að á sama tíma á s. l. ári varð rekstrarjöfnuður neikvæður um 13 milljarða kr.

Skuldaaukning ríkissjóðs við Seðlabankann varð nokkru meiri en nemur mismun gjalda og tekna þar sem halli varð á lánahreyfingum á tímabilinu. Skuld ríkissjóðs við bankann jókst um 7.6 milljarða kr. En til samanburðar má geta þess, að á fyrstu 4 mánuðum ársins 1979 jukust skuldir ríkissjóðs við bankann um 11.4 milljarða kr. Greiðsluáætlun hefur verið gerð í fjmrn. og byggist hún á niðurstöðum fjárl. Samkv. henni er að því stefnt, að í lok nóv. verði skuldastaðan við Seðlabankann orðin svipuð og hún var um s. l. áramót.

Ég taldi rétt að þessar upplýsingar kæmu hér fram áður en þing lýkur störfum sínum nú á næstu dögum.