21.05.1980
Efri deild: 99. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2980 í B-deild Alþingistíðinda. (2937)

94. mál, sjómannalög

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Samgn. fékk til meðferðar frv. til l. um breyt. á sjómannalögum, 94. mál, sem komið er frá Nd. Nefndin fjallaði um frv. á fjórum fundum og fékk til viðræðu fulltrúa frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, Sjómannasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Aflatryggingasjóði.

Samgn. Nd. gerði nokkrar breytingar á frv. og urðu nokkuð skiptar skoðanir í Nd. um þær breytingar. Málið var afgreitt þar með þeirri ábendingu, að samgn. Ed. tæki það til sérstakrar athugunar.

Í 3. mgr. 1. gr. var gerð sú breyting, að sú regla, sem gilt hefur um stýrimann, vélstjóra, bryta og loftskeytamann um tveggja mánaða kaup ef hann yrði óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla, skyldi einnig gilda um aðra skipverja. Og í 4. mgr. segir, að hafi skipverji verið ráðinn á sama skip eða hjá sama útgerðarmanni í þrjú ár samfellt skuli hann halda föstu kaupi o. s. frv., en því var breytt í tvö ár og einnig samsvarandi að fimm árum var breytt í fjögur ár.

Þeir fulltrúar, sem komu til nefndarinnar frá Alþýðusambandi Íslands, voru sérstaklega spurðir að því, hvort hægt væri að bera þessi ákvæði fyrir sjómenn saman við þær sambærilegu reglur sem gilda fyrir aðrar stéttir. Svar þeirra var á þá leið, að sérstaða sjómanna væri slík að alls ekki væri hægt að segja að þetta yrði hagstæðara fyrir sjómenn. Bentu þeir í því sambandi á 2. tölublað Fréttabréfs Alþýðusambands Íslands frá þessu ári þar sem segir í niðurlagi 12. liðar — í sameiginlegum kröfum á samningssviði ASÍ — að réttur sjómanna til launa í veikinda- og slysatilfellum verði aldrei minni en sá réttur sem landverkafólki er tryggður. Er þar með gefið í skyn að það telji að eðlilegt sé að hann sé nokkru rýmri.

Í umr. í nefndinni var bent á að samkv. 3. gr. laga um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins beri hinni almennu deild sjóðsins að bæta aflahlut skips og áhafnar þegar brýna nauðsyn ber til að draga úr sókn til verndar mikilvægum nytjastofnum. Á þann hátt yrði leystur nokkur hluti þess vanda sem kann að skapast við þær breytingar sem felast í 2. mgr. frv., um að skipverji skuli taka kaup til þess dags og að honum meðtöldum er ráðningu hans lýkur samkv. ráðningar- eða kjarasamningi, og skiptir þá ekki máli þótt hann hafi verið áður afskráður, og enn fremur vegna breytingar sem gerð var í Nd., þar sem felld var niður setningin:

„Laun er þó ekki skylt að greiða í hléum milli veiðitímabila, sem eru hefðbundin og þekkt fyrir fram.“ Fulltrúi Aflatryggingasjóðs tjáði nefndinni, að sjóðurinn hefði alls ekki bolmagn til að standa undir slíkum greiðslum, og nefndi sem dæmi, að stöðvun loðnuflotans í vetur hefði getað haft í för með sér 800 millj. kr. útgjöld fyrir sjóðinn. Nefndinni er því ljóst að þetta atriði ásamt ýmsum fleirum í sambandi við samþykkt frv. þarf að taka til nánari athugunar svo fljótt sem kostur er. Enn fremur er ljóst að þær breytingar, sem frv. gerir ráð fyrir að verði á lögunum, kalla á að nánari ráðningarsamningar verði gerðir milli sjómanna og útgerðarmanna heldur en þeir sem tíðkast hafa fram að þessu, a. m. k. í mörgum tilfellum.

En vegna þess, að nú er liðið hálft annað ár síðan gert var ráð fyrir og því lofað að kjarabætur eitthvað í þá átt sem felst í frv. yrðu veittar, taldi nefndin, að ekki væri hægt að fresta lengur að samþykkja þessi ákvæði, og leggur því til að frv. verði samþykkt óbreytt. Undir nál. skrifa allir nefndarmenn, en Guðmundur Karlsson gerir það með fyrirvara.