21.05.1980
Neðri deild: 83. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2991 í B-deild Alþingistíðinda. (2946)

180. mál, lánsfjárlög 1980

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það kom fram hjá hv. 4. þm. Austurl., forseta þessarar hv. d., í svari við fsp. frá mér utan dagskrár í gær, að það væri erfitt að þjóna tveimur herrum, og allir skildu að þar var átt við annars vegar þá hæstv. ríkisstj., sem fer með völd í landinu og nýtur til þess þingmeirihl., og hins vegar að venju formenn þingflokkanna og þingflokkana sem eiga hefðum samkv. og lögum ákveðinn rétt til þess að hafa með stjórn þingsins að gera. En síðan bætti hæstv. forseti því við, að þriðji aðili væri hinir 57 þm. sem kjósa forseta þingsins og veita þeim þau umboð sem þeir hafa til stjórnunar daglegra funda. Ég held að eftir ræðu hv. þm. áðan hljóti fjórði aðilinn að bætast við, sem sé Framkvæmdastofnun ríkisins, því að það mátti halda að hann væri hér í og með að tala fyrir hennar hönd sem „kommissar“ þar, sérstaklega þegar hann fór að tala um og benti réttilega á að í lífeyrissjóðum landsmanna mætti finna meginhluta af sparifjármyndun landsmanna. En um leið sagði hann og í framhaldi af því, að það væri engin ástæða til þess að vera að kaupa sér tryggð eða trúnað þeirra manna sem færu með stjórn hinna 110 lífeyrissjóða. Nú spyr ég þennan hv. þm og aðra þá sem hafa sömu skoðanir og hann: Hvað er þá langt í að það verði engin munur á þessum aðilum og á þeim 110 þús. sparifjáreigendum hér í landinu sem eiga sparifé sitt í bókum í bönkum og sparisjóðum? Verður þá ekki næsta skrefið að ríkisstj. á hverjum tíma, stjórnendur þessara opinberu sjóða, sem veita af náð sinni til hinna og þessara þegna þjóðfélagsins, gefi næst heimild til þess að ríkissjóður og „kommissarar“ þessarar ákveðnu stofnunar og annarra seilist í sparifjárbækur ungra og aldraðra? Það kom fram nú í sambandi við síðasta skattaframtal að núv. hæstv. ráðh. hafa fullan hug á að fylgjast með því, hvað gamalt fólk eigi í sparifjárbókum sínum, líklega til að geta stigið skrefið áfram, eins og gert hefur verið og fullur hugur hefur verið á í sambandi við lífeyrissjóðina um margra ára skeið, og seilst í sparifé manna sem það eiga á bókum.

Ég ræði það mál, sem hér er á dagskrá, kannske fyrst og fremst vegna þess, að að þessum málum er vikið í frv. ríkisstj. sem við erum hér að ræða, 180. máli þingsins, og þeim tillögum sem ríkisstj. hefur lagt fram í málinu og hefur fullan hug á að ná fram. Breytir þá engu þótt brtt. séu komnar fram frá tveim hlutum viðkomandi n. sem hefur haft málið til meðferðar. Ætlan þeirra er hin sama og hefur verið lengi. Reyndar kom það berlegast fram í stjórnartíð ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar hinnar síðari, þegar gengið var í að taka með valdi af þessum sjóðum í eyðsluhít þáv. hæstv. ríkisstj., í ríkissjóð sjálfan.

Þetta er nokkurt tilfinningamál fyrir mig, fyrst og fremst vegna þess að það eru nokkrir áratugir liðnir síðan ég átti þátt í samningum í stéttarfélagi, sem ég þá og nú á setu í stjórn fyrir, að hluti af því, sem önnur stéttarfélög sömdu þá um að rynni inn í tímakaup viðkomandi aðila, yrði lagður fyrir til kaupa lífeyrisréttinda, þetta væri sparifé sem við legðum fyrir til ellinnar eða til að mæta hugsanlegri örorku sem félagsmenn gætu orðið fyrir ef slys eða sjúkdóma bæri að höndum. Þetta sparifé okkar var að rýrna öll ár síðan, þangað til á árinu 1977. Þá ekki aðeins opnuðust möguleikar, heldur voru sjóðir skyldaðir til að tryggja fé sitt þannig — eða hluta af ráðstöfunarfé sínu — að hægt væri að stefna að því markmiði, sem sjálfsagt var að allir sjóðirnir stefndu að, að geta borgað verðtryggðan lífeyri. Okkur, sem áttum þátt í því að þessi fyrstu samningsbundnu sjóðir urðu til, er það kannske enn þá meira tilfinningamál vegna þess að við þurftum í mörg ár að berjast fyrir því, að þessum sjóðum væri haldið við, og smám saman óx þetta í kringum sig í þann farveg að fleiri og fleiri sáu að þetta var nauðsynleg leið til að ná því máli fram að geta skapað öldruðum viðunanlegan lífeyri á elliárunum. Það var þá þegar séð að það yrði aldrei hægt að ná því, sem til þyrfti, úr hinu almenna tryggingakerfi ríkisins. Þar er um lágmarkstryggingar að ræða og þá á náttúrlega hver og einn að hafa leyfi og rétt til að semja um eða ráðstafa sparifé sínu þannig að hann geti átt meira til sinna elliára.

Þegar ákveðið var á sínum tíma að skylda sjóðina að tryggja sitt fé, eins og ég gat um, þ. e. að verðtryggja hluta af ráðstöfunarfénu, urðu miklar umr. hér á hv. Alþ. í sambandi við þetta mál. Margir mætir menn lögðu þar sitthvað til málanna. Ég minnist þess sérstaklega, að þá átti sæti hér á hv. Alþ. formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, Eðvarð Sigurðsson, maður sem allir, sem hafa unnið innan verkalýðshreyfingarinnar, hafa vissulega hlustað á og tekið mark á þegar hann hefur talað í þessum málum sem öðrum, þótt allir væru hins vegar ekki sammála honum í stjórnmálaskoðunum hans almennt, og hann sagði þá það sem stangast alveg á við það sem reyndar hann sjálfur og svo flokksbræður hans gengu inn á og framkvæmdu þegar þeir komust til valda í þessu þjóðfélagi. — Má reyndar segja um flesta Alþb.menn nú orðið, að þeir falli undir bókarheitið gamla og víðfræga: „Guðinn sem brást“, en allir þessir guðir alþýðunnar hafa nú brugðist upp á síðkastið, síðustu misserin, og bregðast enn og bresta sumir þótt þeir bresti ekki enn í grát. En þegar ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar fyrir árið 1978 voru til umr. hér í hv. d. sagði þessi þáv. þm. m. a., með leyfi forseta:

„Af því, sem ég nú hef sagt, lýsi ég fyllstu andstöðu í fyrsta lagi við að það skuli vera fyrirhugað að lögbinda meðferð fjármagns lífeyrissjóðanna, en með því er ríkisstj. að sölsa undir sig yfirráð yfir stórum hluta þess fjármagns sem lífeyrissjóðirnir hafa til umráða. Þetta er grundvallarafstaða. Ég álít að Alþ. eigi alls ekki að setja löggjöf varðandi lífeyrissjóðina á þennan hátt. Og ég vil í öðru lagi alveg sérstaklega mótmæla þeirri prósentutölu sem hér er um að ræða. Jafnvel þó að þessi leið væri farin er þetta allt of há prósenta og gerir lífeyrissjóðunum nærri ókleift að starfa. Með svona lagasetningu er verið að stórskerða völd stjórna lífeyrissjóðanna og þó kannske einkum og sér í lagi áhrif þeirra sem eiga þessa sjóði, þ. e. a. s. áhrif sjóðfélaganna sjálfra á stjórnun og meðferð fjármagns lífeyrissjóðanna.

Ég vil enn fremur taka það fram,“ hélt Eðvarð Sigurðsson áfram, „að þetta ákvæði, sem er í þessu frv. varðandi lífeyrissjóðina, er sett án samráðs við lífeyrissjóðina. Það eru engir samningar við lífeyrissjóðina — og engan lífeyrissjóð svo að ég viti til — að baki þessu ákvæði í því frv. sem hér liggur fyrir. Það hefur tvívegis aðeins verið talað við mig einan persónulega af ráðh., en þá tölu, sem um er að ræða í frv., hef ég ekki heyrt fyrr en síðdegis í dag. Þetta eru vinnubrögð sem ég álít að eigi engan veginn að viðhafa.

Þegar mál eru sett fram og á að afgreiða þau á jafnskömmum tíma og ætlunin er með þessu frv, er auðvitað ekkert ráðrúm til gaumgæfilegrar athugunar á jafnviðkvæmu og vandasömu máli og hér er á ferðinni. Ég verð að treysta því, að sú þn., sem fær þetta mál til meðferðar, leggi nauðsynlega vinnu í athugun á málinu, flaustri því ekki af.

Ég er alveg sannfærður um að þessi lagasetning, ef af henni verður, mun á margan hátt torvelda störf lífeyrissjóðanna, og ég er alveg sannfærður um að það markmið, sem hæstv. ríkisstj. virðist ætla sér að ná með þessu frv., næst ekki. Lífeyrissjóðirnir geta þetta ekki og það er rétt að menn hafi það í huga. Þeir geta ekki gert þetta. Í öðru lagi er ég alveg sannfærður um að ef þetta ákvæði verður að lögum muni það m. a. torvelda mjög innheimtu iðgjalda lífeyrissjóðanna. Og ég bið nú ráðamenn, embættismenn og ráðh., að hafa það í huga, að það eru ekki allir lífeyrissjóðir þannig settir eins og t. d. Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna, þar sem innheimta iðgjalda er ekki vandamál. Margir af lífeyrissjóðum almennu verkalýðsfélaganna verða að byggja innheimtumöguleika sína á eftirliti sjóðsfélaganna sjálfra. Og þegar áhugi þeirra til þess að greiða er farinn, þá verður minna fé í sjóðunum en ella.

Ég endurtek,“ sagði hv. þm. Eðvarð Sigurðsson, „að ég lýsi yfir fyllstu andstöðu við þessa grein í frv., sem hér er til umr., og legg mikla áherslu á að viðkomandi þn. athugi þetta mál mjög gaumgæfilega.“

Nú hefur það að vísu sannast, eftir að þetta mál var til l. umr. 1977, að margar þær spár, sem Eðvarð Sigurðsson var þá með, hafa ekki staðist. En meginmál þess, sem hann þá flutti, stenst enn þá og hefur staðist allan tímann og mun standast, en það er að sjálfsögðu þetta, að það er verið að taka ráð af þeim mönnum sem fara með og eiga þá fjármuni sem í þessum sjóðum eru. Það má hins vegar til sanns vegar færa, sem kom hér fram í máli hv. frsm. 3. minni hl., sem talaði áðan, og reyndar líka hjá frsm. 1. minnihl., að svo ógnarlega mikið fjármagn er um að ræða sem safnast upp í þessum sjóðum að það er í þjóðfélagi eins og okkar þjóðfélagi sem er jafn fjármagnsþurfi til allra framkvæmda og raun ber vitni um, nauðsynlegt og fyrir stjórnvöld, sem vilja hafa einhverja stjórn á peningamálum, að geta haft nokkurn ráðstöfunarrétt á þessu fé. En það á ekki að vera með valdboði. Það á að bjóða þau kjör að sjóðirnir sjálfir sjái sér ekki aðeins rétt og skylt, heldur sækist bókstaflega eftir því að ávaxta sitt fé á þennan hátt, eins og kom á daginn eftir að lögin frá 1977 voru samþ. að varð ofan á. Það hefur orðið skoðun þeirra, sem fara með stjórn á mörgum þessara sjóða, að það væri ekki aðeins ráðlegt og skylt, heldur hagkvæmt fyrir sjóðina að ávaxta hluta ráðstöfunarfjár sjóðanna — hluta, ég undirstrika það — í verðtryggðum skuldabréfum. En skiljanlega vilja þeir, sem stjórna þessum sjóðum, hafa nokkuð um það að segja og ráða nokkru um hvert fé þetta fer. Og að sjálfsögðu hlýtur að verða að viðurkenna þá skoðun sem hina réttu, sem kom fram í umr. 1977 og reyndar 1978 einnig hjá Guðmundi H. Garðarssyni, þáv. formanni Verslunarmannafélags Reykjavíkur, þegar hann sagði að það væri eðlilegt að þessir sjóðir; ef þeir væru aflögufærir, styddu við þá atvinnugrein sem þeir hinir sömu störfuðu hjá og greiddu hluta af þessu fé í lífeyrissjóðina. Hann taldi að það væri eðlilegt að þeir, sem færu með þessa fjármuni, fengju að ráða nokkru, ef þeir væru aflögufærir, og fengju að styðja þá atvinnugrein sem þeir ynnu í og vildu vinna í og hefði átf þátt í að mynda viðkomandi sjóði.

Þar fyrir utan skulum við ekki gleyma því, að það hefur verið skilningur á milli stjórnenda þessara sjóða og hinna almennu félagsmanna, sem greiða í viðkomandi sjóði. Það hefur verið skilningur, það hafa verið persónuleg tengsl, ekki aðeins í gegnum viðkomandi stéttarfélag eða stéttarfélagasambönd, heldur líka vinnustaðir. Það hefur verið skilningur á vandkvæðum viðkomandi einstaklinga sem hefur leitt til þess að stjórnir sjóðanna hafa getað beitt sér fyrir að þeir einstaklingar, sem hafa haft hug og getu til þess og þrek — skulum við bæta við — að fara í það að eignast eigið húsnæði hafi átt skjól hjá þessum sjóðum, og með því að þeir voru til er stór hluti þeirra, sem teljast núna íbúðareigendur, einmitt í þeirri aðstöðu, en hefðu ekki verið það ella. Þessi fyrirgreiðsla hefði ekki fengist á einhverri stjórnarskrifstofunni, hvort sem hún heitir Byggðasjóður eða Framkvæmdastofnun. Þessi persónulegu tengsl hefðu ekki fengist þar. En ef það hefði hins vegar átt að vera í formi pólitískrar fyrirgreiðslu veit ég að skilningur hefði verið fyrir hendi hjá þeim opinberu stofnunum, sem undir það falla, sem ég er hér að tala um.

Það voru reyndar fleiri sem töluðu gegn því hér á árunum að þessi leið væri farin, og skal ég ekki vitna í fleiri sem af þingi eru farnir, menn eins og Lúðvík Jósepsson og aðra slíka, enda hef ég vitnað í þann sem ég ber mestu virðinguna fyrir og þarf ekki að tína meira upp úr því liðinu. Hins vegar væri full ástæða til að benda á hvað sumir af þeim þm. Alþb., sem þá sátu á Alþ. og sitja enn, sögðu þá um þetta mál. Núv. hæstv. fjmrh., Ragnar Arnalds, hafði skoðun á þessu máli eins og öllum öðrum málum þá. Hann lagði til, en hann var í minni hl. í fjh.- og viðskn. Ed. Alþ. ásamt fulltrúa Alþfl., að ákvæðið um 40% lögþvingun lífeyrissjóðanna, eins og það var kallað, yrði fellt. Það var sjálfur núv. hæstv. fjmrh. sem hafði framsögu fyrir málinu og ég les orðrétt, með leyfi forseta, og hann talaði þá að sjálfsögðu í nafni og fyrir hönd síns flokks, Alþb. — hann sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Það er hinn þáttur málsins sem er okkur fyrst og fremst þyrnir í augum, að hér er verið að taka fjármagn lífeyrissjóðanna traustataki með löggjöf og ráðstafa því á ákveðinn hátt. Þetta fjármagn og þessir sjóðir eru að nokkru leyti bein eign verkalýðshreyfingarinnar og að nokkru leyti óbein eign. Verkalýðshreyfingin fékk því framgengt, að þessir sjóðir tóku til starfa og hafa verið byggðir upp, og hún varð á sínum tíma að kosta því til að slá nokkuð af launakröfum sínum, fórna nokkru til þess að þetta spor yrði stigið. En hitt er jafnljóst, að verkalýðshreyfingin lætur sig miklu skipta hvað verður um þetta fjármagn og það er ekki eðlilegt að þetta fjármagn sé af henni tekið nema að undangengnum frjálsum samningum við þá sem raunverulega eiga þetta fjármagn og hafa ráðstöfunarrétt á því lögum samkvæmt. Lágmark væri að þeir samningar gengju út á það, til hvaða þarfa þetta fjármagn verði notað.“

Þetta sagði hv. þm. Ragnar Arnalds, núv. hæstv. fjmrh., á Alþ. 20. des. árið 1977, en þá hafði hann forustu um það fyrir Alþb. að þessi svokallaða lögþvingan yrði felld. Það er því ekki að ófyrirsynju er ég tel að hann falli undir samheiti guðanna sem hafa brugðist alþýðu þessa lands.

Vegna þess að hæstv. fjmrh. er kominn hér í salinn þykir mér rétt að beina til hans nokkrum orðum.

Hv. þm. Karvel Pálmason kom nokkuð inn á það mál sem frsm. fyrr í þessari umr. og sagði orðrétt, með leyfi forseta, að þeir lífeyrissjóðir, sem ríkið væri með puttana í, væru nánast „stikkfrí“, eins og hv. þm. orðaði það. Nú þykir mér ærin ástæða til og vil mjög gjarnan að hæstv. fjmrh. upplýsi við þessa umr. málsins, og það er ekki að ófyrirsynju að ég bið ráðh. um að upplýsa þingheim um það, hvað það séu margir lífeyrissjóðir utan þeirra sem reiknað er með samkv. þessum lögum og um hve mikið ráðstöfunarfé er að ræða þar. (Fjmrh.: Fyrir utan hvað?) Fyrir utan þá lífeyrissjóði sem talað er um í frv. ríkisstj., sem eru lögbundnir eða njóta viðurkenningar fjmrn. Hve margir lífeyrissjóðir eru utan þeirra og hve mikið ráðstöfunarfé er þar á ferðinni, því að þeir lífeyrissjóðir eiga, svo að ég noti orðalag hv. þm. Karvels Pálmasonar, að vera „stikkfrí“? Í framhaldi af þessari spurningu vil ég líka spyrja hæstv. ráðh.: Eru lífeyrissjóðir ríkisbankanna lögboðnir eða njóta þeir viðurkenningar fjmrn. og falla þeir undir þessi skyldukaup, eða má vera að þessi aðall í okkar landi, aðallinn sem vinnur hjá ríkisbönkunum, njóti einhverra sérstakra vildarkjara hjá hæstv. ríkisstj.?

Ég spyr vegna þess að mér hefur borist í hendur skýrsla sem skýrir frá lánakjörum ýmissa lífeyrissjóða hér á landi. Þar kemur í ljós, að það er aðeins lífeyrissjóður eins ríkisbankans, Útvegsbankans, sem fylgir hinni almennu reglu um vexti, lánaupphæðir og lánatíma. En það virðist svo sem nokkrir aðrir ríkisbankar hafi aðrar reglur, einhverjar sérreglur, sem eru þannig, að Landsbanki Íslands og Seðlabanki Íslands eru með lífeyrissjóðslánavexti langt fyrir neðan það sem þekkist hjá öðrum lífeyrissjóðum landsins, langt fyrir neðan það sem er hjá Útvegsbanka Íslands. Upplýsingar um lífeyrissjóð Búnaðarbanka Íslands hef ég ekki fengið. Auk þess veit ég ekki undir hvað sérfríðindamenn aðrir hjá opinberum sjóðum falla af þessu, hvort þeir falla undir reglur Seðlabankans, Landsbankans eða einhverjar enn aðrar. En þarna er auðvitað stórkostlegur munur á, svo að nemur á annan tug prósenta, og það er því ekki að ófyrirsynju, eins og ég sagði, að ég leyfi mér að spyrja hæstv. fjmrh. þessarar spurningar: af hverju þessir sjóðir geti lánað með svo lágum vöxtum starfsmönnum sínum, þetta eru opinberir starfsmenn í raun, — af hverju þeir geti lánað með þessum kjörum. Við vitum að það er mjög nýlega sem opinberir starfsmenn hafa orðið að nokkru að ganga í átt að því sem allur almenningur í þessu landi verður að borga fyrir slík lán, og mér er spurn: Eru einhverjir sérsamningar á ferðinni milli hæstv. ríkisstj. og þessara aðila — eða hvað? Ég hef ekki trú á að lífeyrissjóðir þessara aðila geti krafist jafnlágra vaxta og þeir gera nema til komi stórkostleg meðlagsgreiðsla frá viðkomandi stofnunum eða óbeint frá ríkissjóði, og það er að sjálfsögðu á ábyrgð hæstv. fjmrh.

Það hafa komið fram brtt. við frv. ríkisstj. varðandi lífeyrissjóðina. Ég tek það fram strax, að mér þykir brtt. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. ekki ganga nógu langt og ég mun því styðja brtt. þá, sem hv. 4. þm. Austurl., Sverrir Hermannsson, mælti fyrir áðan, og aðrar brtt. sem hann og félagar hans hafa lagt fram á sérstöku þskj.

En það eru fleiri atriði, sem auðvitað varða þetta mál, og þ. á m. loddaraleikurinn með framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs verkamanna, sem er einstakur svo að ekki sé meira sagt. Það er ekki oft sem tækifæri gefast til að ræða við hæstv. ráðh., þó að þeir séu tíu talsins, því að venjulega sjáum við aðeins einn og tvo hér í hv. d. Þeir virðast hafa vaktaskipti á hv. þm., sitja einn til tveir yfir þeim og láta þá þræla á nefndafundum á morgnana og allar helgar og svo þingfundum allan daginn, öll kvöld og fram á miðjar nætur, en hafa vaktaskipti sjálfir eins og góðum yfirmönnum ber að gera til að vera fullfrískir til að reka á eftir þrælunum og koma til þings öðru hvoru til að sjá til þess að þrælarnir séu iðnir og að störfum. En guði sé lof að nú hefur forseti d. tekið að sér að vera trúnaðarmaður á þessum vinnustað fyrir verkalýðinn hér á þingi og gætt þess að okkur sé ekki misboðið nema í hófi.

En vegna þess að hæstv. fjmrh. er hér nú langar mig til að spyrja hann hvort ekki hefði verið ástæða til að geta eitthvað um í þeirri fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1980 sem við höfum haft hér með að gera, og svo aftur á móti í sambandi við frv. sjálft, sem við höfum hér til umr. og erum að ræða, frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1980, — hvort ekki hefði verið einhver ástæða til að geta um þær ásköpuðu vanræksluskuldir og það sem ég kalla hreina eignaupptöku fyrrv. og núv. fjmrh. á fé sjálfstæðra sjóða verkalýðshreyfingarinnar. Ég tala nú um þann hinn eina sjóð sem virkilega telst eign verkalýðshreyfingarinnar og á ég þá við Atvinnuleysistryggingasjóð. En þannig hefur hæstv. núv. fjmrh. farist og reyndar fyrrv. líka, en þó hefur það gengið úr hófi í þá mánuði sem núv. hæstv. ráðh. hefur setið að völdum að svo er komið fyrir sjóði þessum, að ríkissjóður keppist við að innheimta fyrir hann hjá atvinnuvegunum, hjá vinnuveitendum víðs vegar um land, innheimtir og tekur í sína hít til ráðstöfunar, en borgar ekki sjóðnum sjálf. Og svo er komið að lausafjárstaða Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur aldrei verið verri en einmitt nú og má ekkert út af bera í sambandi við atvinnuleysi hér á landi svo að hann standi ekki frammi fyrir miklu vandræðum. Og að forsjármanni ríkissjóðs detti í hug að borga þessum sjóði verkalýðshreyfingarinnar dráttarvexti fyrir það fé sem hann heldur fyrir honum og hefur haldið mánuðum saman og hefur í raun gert hann ófæran að gegna sínu hlutverki ef ekki verður bætt úr, — nei, það hefur honum ekki komið til hugar. Þeir hinir sömu hafa þó forgöngu um mestu þræla- og okurvexti á almenning. Ef skattborgaranum mistekst að standa í skilum á ákveðnum degi og ákveðinni klukkustund eru fulltrúar hæstv. fjmrh. komnir á eftir honum, ekki aðeins með hótanir um upptöku eigna, heldur og með háa og margfalda dráttarvexti.

Það stendur þannig á með Atvinnuleysistryggingasjóð, að það hefur ekki einu sinni komið yfirlit yfir þá sem eiga að borga í sjóðinn. Það hefur ekki einu sinni borist yfirlit frá þeim innheimtuaðila sem hefur með þetta að gera, en það er ein deild fjmrn., hvorki fyrir árið 1978 né fyrir árið 1979. Og fyrir sjómenn, en það yfirlit á að berast sjóðnum nær samstundis, hefur ekkert enn þá komið fyrir árið 1979. Og fyrir þennan tíma hefur ríkissjóður ekki enn þá gert upp það sem hann hefur innheimt frá atvinnurekendum. Hér er auðvitað um hreinan fjárdrátt að ræða, sem hæstv. núv. og fyrrv. fjmrh. hafa staðið fyrir. Sjóðurinn er kominn niður í að hafa handbærar í lausafé tæpar 450 millj. til ráðstöfunar ef atvinnuleysi skellur á. Það eru alltaf bætur í gangi og skiptir tugum millj. á hverjum mánuði sem þarf að greiða í fæðingarorlof. Sjóðurinn hafði til ráðstöfunar fyrir nokkrum dögum aðeins 377 millj., en þeir, sem eru í stjórn sjóðsins, telja að þarna þurfi að vera til ráðstöfunar nær 2 milljarðar sem megi grípa til ef á þarf að halda. Fyrir stuttu sendi ríkissjóður 300 millj. kr. ávísun sem hluta greiðslu upp í það sem ríkissjóður skuldar Atvinnuleysistryggingasjóði, en það fylgdu með þau skilaboð til sjóðsins að það ætti að greiða þetta strax Byggingarsjóði ríkisins. Að sjálfsögðu sagði stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs: Nei, það fer ekki krónu meira úr þessum sjóði fyrr en uppgjör hefur borist frá ríkissjóði yfir þá innheimtu sem ríkissjóður hefur framkvæmt fyrir hönd sjóðsins og full skil eru gerð þar á og samið um það, sem tekið hefur verið í heimildarleysi frá sjóðnum, og það verður samið um það við sjóðsstjórnina sem m. a. er kjörin hér á Alþ. og skipuð af samtökum vinnuveitenda og stærsta aðila verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi, Alþýðusambandi Íslands.

Það kemur að sjálfsögðu í ljós, þegar þetta mál og önnur eru rædd á hv. Alþ., að það er ekki að ófyrirsynju að við þm. Sjálfstfl. höfum áskilið okkur rétt til að ræða efnislega bæði þetta mál og önnur sem hefur átt að keyra í gegnum þingið á síðustu dögum, svo að þm. gæfist að sjálfsögðu ekki tími til að skoða mál almennilega eða ræða, um leið og þeir hafa verið sviptir öllum frístundum, meðan hæstv. ráðh., eins og ég sagði áðan, hafa vaktaskipti á því að þeir væru að störfum. Því miður hefur komið í ljós að sumir hinna yngri þm. úr stjórnarliðinu standa í þeirri meiningu að hér eigi mál að ganga þannig fyrir sig að allir segi já og amen við öllu sem frá hæstv. ríkisstj. kemur. Þetta er að sjálfsögðu mikill misskilningur. Við erum kjörnir hingað — og þeir, sem eru í minni hl, hverju sinni, eru að sjálfsögðu einnig hingað kjörnir til að ræða málin sem slíkir í sölum Alþingis og koma aðfinnslum sínum og gagnrýni að á það sem okkur finnst aðfinnsluvert vera. Það er ein af þeim skyldum sem lýðræðinu fylgja, og ég tel að ríkisstj. á hverjum tíma verði að gefa tækifæri til þess að það sé hægt að gera.

Það var aðeins fyrir tveim dögum að þm. Alþfl. héldu því fram, að engin ástæða væri til annars en verða við óskum ríkisstj. um að þingslit yrðu í gærdag. Þeir vöknuðu við að stærsti stjórnarflokkurinn var að boða ákveðnar aðgerðir í útvarpsumr. frá Sþ. á mánudagskvöld. Þá vöknuðu þeir við að það væru ýmis mál sem þyrfti kannske að kanna og athuga betur. Það er furðulegt hvernig þessi stjórnarandstöðuflokkur hefur hagað sér hér að undanförnu sem slíkur. Hann hefur talið það sína helgustu skyldu að finna að því innanheimilisvandamáli sem við búum við í Sjálfstfl. Það er út af fyrir sig vandamál, eins og alltaf er þegar hluti af heimilisforsjánni fer að halda fram hjá. En það gengur vonandi yfir. Það grípur ákveðin líffæri sumra manna á ákveðnum aldri að þeir hlaupa svona út undan sér, en þetta lagast vonandi, svo að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson þarf a. m. k. ekki að hafa langtímaáhyggjur af því. Hins vegar held ég að hann og flokksbræður hans ættu frekar að hafa áhyggjur af öðru. Þeir, sem hafa talið sig vera hið sérstaka og heilaga munstur á samheldni, vináttu og forsjá ættu að hafa í huga það sem þeirra eigin flokksbræður stóðu fyrir í Vestfjarðakjördæmi ekki alls fyrir löngu þegar þeir þrælbrutu verkalýðshreyfinguna þar á bak aftur svo að í sárin sér enn þá.

En með það mál sem hér er til umr. er eins og önnur auðvitað ljóst að við gefum okkur tíma til að ræða það. Það er sjálfsagt, það er eðlilegt og það er þingræðislegt að hæstv. ríkisstj. á hverjum tíma, sem á meiri hl. að baki sér á Alþ., reyni að liðka til og það sé liðkað til fyrir málum sem hún þarf að koma fram. Ríkisstj. þarf ekki að kvarta um að við í stjórnarandstöðunni höfum verið að tefja mál að óþörfu fyrir þeim í vetur. Við höfum verið boðnir og búnir til þess að vera hér nætur og daga til að hjálpa þeim við að koma málum fram. En það er skylda þeirra jafnframt að gæta þess að það gefist starfsfriður og eðlilegur starfstími til að kanna þau mál sem verið er að leggja fyrir okkur. Það er þjóðin sem á heimtingu á þessu og við höfum þá skyldu við okkar kjósendur að gera þetta. Þess vegna verða þeir að taka því að við skoðum málin og ræðum þau og þeir verða líka um leið að hafa það í huga að þeir einir eru ekki kjörnir þm. á Alþ. Við erum líka kjörnir sem í stjórnarandstöðu erum og við höfum líka áhugamál sem við höfum flutt og við þurfum að fá þau rædd, bæði í deildum og í Sþ.

Ég skal ekki hafa mörg fleiri orð um þetta. Ég var búinn að segja að ég mundi fylgja brtt. þm. Sjálfstfl. Ég vil að síðustu taka undir það frekar, sem talað var um Erfðafjársjóð, og vitna enn í orð hv. þm. Sverris Hermannssonar, en hann hefur miklu minni áhuga, að virðist, á þeim sem lifandi eru, þeim sem eiga sitt í lífeyrissjóðnum og þurfa að halda á sínu fé hérna megin grafar, — hann hefur meiri áhyggjur af þeim sem eru horfnir héðan og skilja sitt eftir. Það út af fyrir sig er auðvitað rétt, sem er meginefni í máli hans og annarra sem eru á móti því að ríkissjóður sé að hirða úr Erfðafjársjóði í eyðslueyri, að af þeim eigum, sem eftir eru skildar hérna megin grafar, hafa allir skattar verið borgaðir af því fólki sem þetta skilur eftir sig, það er búið að greiða full gjöld af þeim. Þótt borgaður sé erfðafjárskattur, sem rennur til góðra málefna eins og hingað til hefur verið, telur það í sjálfu sér enginn eftir. En það á auðvitað að vera lágmarksskylda að sá, sem þessar eigur hefur öðlast, fái að ráðstafa þeim eins og hann sjálfur óskar eftir, en þær verði ekki notaðar í eyðsluhít ríkissjóðs á hverjum tíma, eins og ég sagði áðan. Og það er enginn vafi á að þeim fjármunum, sem hafa lent hjá Erfðafjársjóði, hefur verið vel varið. Ég þekki það sjálfur í sambandi við byggingarframkvæmdir fyrir gamalt fólk sem ég hef tekið þátt í með félögum mínum. Við höfum að vísu ekki leitað á þau mið. Hins vegar veit ég um að heimili sem byggð hafa verið fyrir aldraða víðs vegar um land, hafa átt á nokkuð víst að róa, þegar þau hafa sótt til þessa aðila, og fengið mikla og góða fyrirgreiðslu. Auk þess hefur meginhluti þessara fjármuna farið til að hjálpa þeim sem miður mega sín í okkar þjóðfélagi. Ég held að hver og einn, sem hverfur úr þessu lífi, geti vel hugsað sér að hluti af eignum hans renni til slíkra mála, en hins vegar mundu þeir snarbylta sér við í gröf sinni ef þeir vissu að þetta fé kemst í hendur hæstv. fjmrh. Ragnars Arnalds, og sjálfsagt eiga margir eftir að ganga aftur þegar þetta hefur verið samþykkt.

Herra forseti. Ég skal láta máli mínu lokið að sinni.