21.05.1980
Neðri deild: 83. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3010 í B-deild Alþingistíðinda. (2950)

180. mál, lánsfjárlög 1980

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Áður en ég vík að því dagskrármáli, sem hér er til umr., vil ég, með leyfi forseta, aðeins minnast á að frá því að fundi var frestað hér í hv. d. kl. rétt fyrir 7 í kvöld hafa tveir aðstandendur hæstv. ríkisstj. komið fram í fjölmiðlum til að gera þinghaldið nokkuð að umræðuefni, annars vegar hæstv. forsrh. í viðtali við Ríkisútvarpið í fréttatíma kl. 7 og hins vegar formaður þingflokks Alþb., — og reyndar formaður þingflokks Sjálfstfl. einnig, — en í orðum beggja hv. aðstandenda ríkisstj. kom fram eitthvað á þá leið, að hér væri verið að tefja þinghaldið af ásettu ráði eða — eins og hæstv. forsrh. orðaði það — sumir þm. Sjálfstfl. væru að tefja þinghaldið. Ég vil ekki láta þessum orðum ómótmælt og mótmæli þeim hér. Ég tel að sú umr., sem hér hefur farið fram í dag um eitthvert mikilvægasta mál þessa þings, þ. e. lánsfjárlög, sé alls ekki óeðlileg og því fari fjarri að menn séu af ásettu ráði að tefja þinghaldið. Það er ekkert óeðlilegt að um svo mikilvægt mál eins og lánsfjárlög fari fram ítarleg umr. hér á hv. Alþingi.

Það er að þessu látið liggja m. a. út af því frv. sem hér liggur fyrir um Húsnæðismálastofnun ríkisins. En ég vek athygli á því, að nál. um það mál var fyrst dreift nú rétt fyrir kvöldmat, og af þessum orðum hv. aðstandenda ríkisstj., sem ég vitnaði til áðan, virðist vera að þeir hafi ætlast til þess af Alþ. að hægt væri að drífa það mál í gegn á einum degi eftir að nál. lá fyrir, jafnviðamikið mál og þar er um að ræða. Auðvitað er slíkt alveg útilokað. Hér er um mjög viðamikla og flókna löggjöf að ræða sem útilokað er að hægt sé að drifa í gegn á svo stuttum tíma, og raunverulega er það vanvirða við Alþ. hæstv. ríkisstj. skuli ætlast til þess, að svo sé gert. Við þm. Sjálfstfl. höfum margoft látið það í ljós, og síðast bréflega snemma í vikunni, að við værum reiðubúnir til að sitja áfram á Alþ. fram yfir hvítasunnu til að ræða þetta mál og ýmis önnur mál, en teldum hins vegar að ef ætti að afgreiða jafnmikið stórmál og húsnæðismálin gæti þingi ekki lokið fyrir hvítasunnu. Ég skil raunar ekki kveinstafi hv. aðstandenda ríkisstj. í þessum efnum. Við þm. eru hingað kjörnir til að meðhöndla mál eftir okkar bestu samvisku, og ég held að ekki sé hægt að ætlast til þess af okkur óbreyttum þm, að við getum afgreitt mál hér eins og á færibandi eftir því sem ríkisstj. á hverjum tíma þóknast.

Auðvitað hlýtur manni að detta í hug og gera að umtalsefni hverjir hafa raunverulega tafið þinghaldið hér í vetur. Þingið hefur verið verklaust dögum saman, þm. eiga fjölda mála órædd, — mál sem ekki fást rædd og hafa ekki komist á dagskrá, og nú hafa þm. þurft með skriflegum áskorunum að knýja fram fund í Sþ. á morgun til að fá rædd ýmis mál sem nauðsynlegt er að fá rædd ýmis mál sem nauðsynlegt er að fá á dagskrá m. a. til að fá svarað fsp. sem legið hafa fyrir hæstv. ráðh. vikum saman án þess að þeir hafi svarað þeim hér á þinginu. Ég víl því ítreka mótmæli mín við þeim ummælum, sem komu fram í fjölmiðlum í kvöld af hálfu aðstandenda ríkisstj., um að hér væri verið að tefja þingið af ásettu ráði. Við þm. Sjálfstfl. erum reiðubúnir til að sitja fram yfir hvítasunnu og eins lengi og nauðsynlegt er til að hægt sé að ræða mál ítarlega þannig að þau fái eðlilega meðferð og að þau fái þá meðferð sem samviska okkar að sjálfsögðu býður, þannig að hægt sé að afgreiða þau endanlega frá hv. Alþingi.

Að þessum orðum mæltum vil ég víkja nokkuð að frv., sem hér liggur fyrir, og reyndar í tengslum við það fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni fyrir árið 1980 sem er grundvöllur frv. Hér er um að ræða einhver mikilvægustu lög Alþingis og þessi lög ásamt með fjárlögum ráða að sjálfsögðu mjög miklu um alla efnahagsþróun í landinu þetta ár og reyndar lengra fram í tímann. Það er því alls ekki óeðlilegt að þau séu rædd hér ítarlega frá ýmsum hliðum og þess vegna tel ég að sú umr., eins og ég sagði áðan, sem fram hefur farið hér í dag sé alls ekki óeðlileg.

Eitt af því, sem hlýtur að valda mönnum verulegum áhyggjum í sambandi við fjárfestingar- og lánsfjáráætlunina og það frv. sem hér liggur fyrir, eru þær miklu erlendu lántökur, sem fyrirhugaðar eru á þessu ári, og sú mikla aukning á erlendum lántökum, — sem nú stendur fyrir dyrum. Ég vil í þessu sambandi benda á að í síðasta hefti Fjármálatíðinda, sem ég hygg að þm. hafi fengið í hendur, er grein eftir formann bankastjórnar Seðlabankans um erlendar lántökur — grein sem ég tel þess virði að vakin sé sérstök athygli á hér á Alþingi — þó að það sé að sjálfsögðu ríkisstjórnar og Alþingis á hverjum tíma að taka endanlegar ákvarðanir um slík mál held ég að við hljótum að leggja við hlustirnar þegar formaður bankastjórnar Seðlabankans ræðir þessi mál, og e. t. v. er það ekki tilviljun að þessi grein skuli birtast einmitt nú eftir að hæstv. ríkisstj. hefur í lánsfjáráætlun birt fyrirhugaðar lántökur sínar á árinu. Í þessari grein kemur fram í upphafi að aðgangur að erlendu lánsfé, sem hafi orðið greiðari síðustu ár og jafnvel síðasta áratug, hafi tvímælalaust átt þátt í því að auka alþjóðaviðskipti og gera fjármagnsfátækum þjóðum auðveldara að afla fjár til uppbyggingar atvinnuvega sinna. En mikilvægasta hlutverk þessara alþjóðlegu fjármagnsmarkaða s. l. át hefur þó verið að jafna með fjármagnsinnflutningnum hið alvarlega misvægi í greiðslujöfnuði á milli olíuútflutnings- og olíuinnflutningsríkja sem siglt hefur í kjölfar hinna gífurlegu hækkana á olíuverði. En í þessari grein er bent á að með þeim hætti, sem hann lýsti og ég drap hér á með örfáum orðum í stuttri endursögn, hafi hinir alþjóðlegu fjármagnsmarkaðir aukið svigrúm einstakra þjóða bæði til þess að ráðast í fjárfestingu langt umfram eigin sparnað og jafna greiðsluhalla við önnur lönd með erlendum lántökum í stað samdráttar í tekjum og atvinnu. Þessi fjármagnstilflutningur á milli þjóða hafi haft heilladrjúg áhrif á hagvöxt og atvinnuþróun, en á það er jafnframt bent í þessari grein, að þessir fjármagnstilflutningar og þessi þróun hafi samtímis aukið á vandann á öðrum sviðum efnahagsmála. Þjóðum hafi á þennan hátt verið gert auðveldara en ella að eyða um efni fram og jafnframt geti stjórnvöld skotið sér um lengri eða skemmri tíma undan þeirri ábyrgð að halda opinberum útgjöldum og tekjuþróun innan þeirra marka sem sett eru af framleiðslugetu þjóðarinnar. Ofnotkun erlends fjármagns, ekki aðeins hér á landi, heldur reyndar meðal annarra þjóða einnig, hafi þannig leitt til þess að slakað hafi verið á klónni víða varðandi stjórn efnahagsmála og það eigi þátt í vaxandi verðbólgu og óstöðugleika í efnahagsstarfsemi. Þetta hefur verið hvatning ýmsum þjóðum, og þ. á m. okkur Íslendingum, til að lifa um efni fram ár eftir ár. Í stað þess að láta framkvæmdir og útgjöld markast af framleiðslugetu þjóðarinnar hafa verið tekin erlend lán ár eftir ár og við á þann hátt aukið verðbólguóstöðugleika okkar í efnahagslífi sem veldur stöðugt auknum erfiðleikum.

Greinarhöfundur víkur síðan nokkuð að því, hvernig þróunin hafi verið hér á landi, og bendir á að þess megi sjá mörg dæmi að Íslendingar hafi haft mikið gagn af þessum aukna aðgangi að erlendu lánsfé og einnig hafi komið hér fram glögglega, eins og víða annars staðar hjá öðrum þjóðum, þær hættur sem ofnotkun þess lánsfjár getur haft í för með sér. Uppbygging atvinnuveganna hafi að miklu leyti átt sér stað fyrir erlent fjármagn og þá ekki síst nýting innlendra orkugjafa sem hafi haft í för með sér mikinn sparnað í eldsneytisinnflutningi og treyst grundvöll innlendrar þróunar. En fyrir utan þessi jákvæðu áhrif, sem benda megi á að þessi erlendu lán hafi haft, bendir greinarhöfundur á að notkun erlends fjármagns hafi einnig haft neikvæðari áhrif. Greinarhöfundur segir orðrétt, með leyfi forseta.:

„Þótt notkun erlends lánsfjár hafi þannig á margan hátt haft jákvæð áhrif á efnahagsþróun er engu að síður ástæða til að álíta að auðveldari lánsfjáröflun hafi dregið um of úr efnahagslegu aðhaldi og gert stjórnvöldum kleift bæði að fresta nauðsynlegum aðgerðum gegn aðsteðjandi vanda og ráðstafa fjármunum um efni fram án þeirrar fyrirhyggju sem æskilegt hefði verið. Ríkisframkvæmdir, sem ekki eru beinlínis tekjuaukandi, eru í vaxandi mæli fjármagnaðar með erlendum lánum í stað innlendra tekna, og eiginfjármyndun fyrirtækja, t. d. á sviði orkumála, hefur verið haldið niðri með óraunhæfri verðlagningu, af því að hægt hefur verið að halda áfram uppbyggingu með erlendum lántökum. Á sama hátt hefur svigrúmið til þess að jafna viðskiptahalla við útlönd á erfiðleikatímum með erlendum lánum vafalaust verið ofnotað í því skyni að forðast óvinsælar ráðstafanir sem þó verður sjaldan slegið mjög lengi á flest.

Fyrir þjóðarbúið eru lántökur erlendis á allan hátt hliðstæðar við lántökur einstaklinga og fyrirtækja: þær eru tækifæri til að nota um tíma meiri fjármuni en ella væru til ráðstöfunar.“

Ég hygg að þetta séu orð í tíma töluð og séu aðvörunarorð sem okkur beri vissulega að hafa í huga og þá ekki síst nú þegar rædd er og afgreidd lánsfjáráætlun fyrir árið 1980. Ég held að það dyljist engum, sem fylgst hefur með þróun íslenskra efnahagsmála undanfarin ár, að við höfum ofnotað erlent fjármagn, við höfum ekki aðeins tekið að láni erlent fjármagn til ýmissa arðbærra framkvæmda, eins og orkuframkvæmda eða til að byggja upp sérstök arðgefandi atvinnufyrirtæki, heldur höfum við tekið erlent fjármagn einnig til ýmissa óarðbærra framkvæmda og við höfum jafnframt tekið erlent fjármagn sem hrein eyðslulán til að jafna greiðsluhalla við útlönd –greiðsluhalla sem oftast stafar af því að neysla okkar innanlands hefur verið meiri en við höfum getað aflað á hverjum tíma.

Ég vil, áður en ég skilst við þessa grein, með leyfi forseta, lesa upp lokaorð hennar, en þar segir:

„Eftir mikla hækkun á árunum 1974 og 1975 hafa skuldir Íslendinga við útlönd haldist í svipuðu hlutfalli af þjóðarframleiðslu s. l. fjögur ár, og var hlutfallið um 35% í lok síðasta árs. Þótt greiðslubyrðin af þessum skuldum hafi hingað til reynst viðráðanleg hljóta svo miklar erlendar skuldir að hafa í för með sér verulega áhættu ef á móti blæs í efnahagsmálum eða skyndilegar breytingar verða á erlendum lánsfjármörkuðum. Áframhaldandi aðhald um erlendar lántökur hlýtur því annars vegar að miðast við það að halda greiðslubyrði þjóðarbúsins innan viðráðanlegra marka, en hins vegar að tryggja að lánsféð sé aðeins notað til framkvæmda, er skila öruggum arði, og leggi þannig traustari grundvöll að efnahag þjóðarinnar á komandi árum.“

Að þessum orðum tilvitnuðum er rétt að huga örlítið að því, hvernig nú sé fyrirhugað, með þessu frv. til lánsfjárlaga, sem hér liggur fyrir, og með fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1980, að standa að erlendum lántökum á árinu og hvernig hæstv. ríkisstj. hyggist fara eftir þeim sjálfsögðu leiðbeiningum sem komu fram í þessari grein formanns bankastjórnar Seðlabankans.

Á bls. 22 í lánsfjáráætluninni eru samandregin aðalefnisatriði frv. til lánsfjárlaga um þetta efni. Þar kemur fram að löng erlend lán hafa numið 335 milljörðum kr. í árslok 1979, en fært til meðalgengis sé það um 35% af vergri þjóðarframleiðslu ársins, en þetta hlutfall var árin þrjú næst á undan 32–34%. Það er reiknað með að þetta hlutfall haldist óbreytt að meðtöldum lántökum ársins 1980. Það er sem sagt ljóst, að á s. l. ári og þá á þessu ári er um að ræða umtalsverða aukningu á erlendum lánum miðað við verga þjóðarframleiðslu.

Greiðslubyrði vegna afborgana og vaxta af löngum erlendum lánum hefur s. l. þrjú ár verið sem hlutfall af útflutningstekjum sem hér segir: 1976 13.8%, 1977 13.7% 1978 13.3%, árið 1979 er áætlað að hlutfallið hafi verið komið upp í 14.2%, en á árinu 1980 tekur þetta hlutfall verulegt stökk upp á við og er reiknað með að það verði 16–17%. Þessar tölur sýna að hér er um allverulega aukningu á erlendum lántökum að ræða.

Það er reiknað með að endurgreiðslur af löngum lánum verði um 46.3 milljarðar kr. á árinu 1980, en auk þess er gert ráð fyrir endurgreiðslu af gjaldeyrisskuldum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að jafnvirði um 10 milljarða kr. Á móti endurgreiðslu gjaldeyrisskulda þarf að taka samsvarandi lán ef halda á gjaldeyrisforðanum óbreyttum, sem telja verður eðlilegt markmið, þannig að út frá greiðslujafnaðarsjónarmiðum er ný lántökuþörf áætluð 72.3 milljarðár kr. á árinu 1980.

Heildarupphæð innkominna langra erlendra lána er áætluð 85.5 milljarðar kr., en það er áætluð fjárþörf vegna fyrirhugaðra framkvæmda á árinu 1980 umfram það fé sem afla verður innanlands. Auk þess er gert ráð fyrir erlendum lánum til að breyta stuttum lánum í lengri lán eða til að breyta lánum þannig að heildarlánsfjárhæðin, sem reiknað er með að taka erlendis frá, er allnokkru hærri en hér um ræðir.

Það er fróðlegt að huga örlítið að því hvernig þessir 85,6 milljarðar skiptast á hina ýmsu útgjaldaþætti sem lánsfjáráætlun ríkisins tekur til. Það er gert ráð fyrir að til að standa undir framkvæmdum við A- og B-hluta fjárlaga þurfi erlend lán upp á 11.3 milljarða. Til ýmissa fyrirtækja, sem ríkissjóður á eignaraðild að og standa í framkvæmdum, er gert ráð fyrir að þurfi erlend lán upp á 30.4 milljarða. Til ýmissa bæjar- og sveitarfélaga, og þá aðallega vegna hitaveituframkvæmda,. er gert ráð fyrir að þurfi 8 milljarða, til lánastofnana þurfi 5.5 milljarða, en til ýmissa atvinnufyrirtækja, þar með talin járnblendiverksmiðja, skipakaupa, flugvélakaupa, hafnargerða, innlendrar skipasmíði, nýrra iðnaðarverkefna og þar fram eftir götunum, þurfi 30.2 milljarða, eða samtals 85.5 milljarða kr.

Það kom glöggt fram í þeirri grein sem ég vitnaði til hér áðan, og ég held að flestir geti verið sammála um það, að lán til arðbærra framkvæmda séu eðlileg. Í því efni hafa menn einkum nefnt orkuframkvæmdir. Ég tek það sérstaklega fram, að ég er ekki að gagnrýna hér erlendar lántökur til orkuframkvæmda. Hins vegar er jafnljóst að til þess að hægt sé að standa undir greiðslum og afborgunum þessara erlendu lána, sem ætluð eru til orkuframkvæmda, þegar þar að kemur, verði að haga rekstri og gjaldtöku þessara fyrirtækja fyrir þjónustu, sem þau inna af hendi, á þann veg að fyrirtækin standi undir sér og geti sjálf greitt þær afborganir og vexti sem nauðsynlegar eru vegna þessara erlendu lána. Því miður höfum við dæmi um það alveg síðustu daga að því fer fjarri að hæstv. ríkisstj. hafi þetta atriði í huga.

Það kemur fram í lánsfjáráætluninni, að langstærsti hlutinn af lánum til orkumála eigi að fara til Landsvirkjunar eða 28.7 milljarðar, en þar er fyrst og fremst um að ræða að ljúka við Hrauneyjarfossvirkjun, þ. e. að taka í notkun 1. áfanga Hrauneyjarfossvirkjunar sem ráðgert er að gera haustið 1981. En nú er það svo, að þessi áætlun um lánsþörf Landsvirkjunar upp á 28.7 milljarða er byggð á ákveðnum forsendum. Hún er t. d. byggð á ákveðnum forsendum um verðlagsþróun hér innanlands. Það hefur verið rakið af öðrum hér í dag, að það sé ljóst, miðað við þær upplýsingar sem þegar eru fram komnar, að þær verðlagsforsendur, sem þessi lánsfjáráætlun byggir á og Landsvirkjun að miklu leyti byggir á í sínum áætlunum, muni ekki standast, þannig að verðlag muni hækka meira en þessar verðlagsforsendur gera ráð fyrir. Þá er ljóst að Landsvirkjun muni þurfa aukið fjármagn ef halda á áfram framkvæmdum á sama hátt og áætlað er.

Þessi áætlun um lánsfjárþörf Landsvirkjunar byggist líka á því, að greiðsluhallalaus rekstur geti átt sér stað á árinu 1980. Í áætlunum Landsvirkjunar um greiðsluhallalausan rekstur var gert ráð fyrir að fyrirtækið þyrfti 30% hækkun á gjaldskrá sinni frá og með 1. maí s. l. Því fór fjarri, að hæstv. ríkisstj. færi eftir þessum óskum

Landsvirkjunar og tæki þar með mark á þeim forsendum sem hún byggði á, því að Landsvirkjun fékk aðeins að hækka gjaldskrá sína um 12%. Þetta eina atriði gerir það að sjálfsögðu að verkum að sú áætlun, sem hér liggur fyrir um Landsvirkjun, stenst engan veginn. Samkv. lauslegum tölum, sem þó hafa ekki endanlega verið frá gengnar, er gert ráð fyrir að greiðsluhalli Landsvirkjunar á þessu ári, eftir að búið er að taka ákvörðun um gjaldskrá fyrirtækisins, verði um 1200 millj. kr. og rekstrarhalli verði enn meiri eða allt að 1500 millj. kr. á þessu ári.

Það gefur auga leið, þegar við höfum þetta í huga, að tvennt er til ráða: að draga úr framkvæmdum fyrirtækisins eða að auka enn lántökur fyrirtækisins. Hvort tveggja er slæmur kostur.

Ég held að það hafi verið upplýst margoft og rætt ítarlega, að það er mikil þörf á að Landsvirkjun geti látið framkvæmdir sínar ganga á þann veg að 1. áfangi Hrauneyjarfossvirkjunar verði tilbúinn haustið 1981. Að öðrum kosti er veruleg hætta á orkuskorti. Þar að auki má benda á að allir verksamningar hafa verið gerðir um þessar framkvæmdir og illt verður að snúa til baka frá þeim öðruvísi en það valdi Landsvirkjun stórkostlega auknum útgjöldum í bætur til verktaka vegna verktafa.

Hinn kosturinn, að taka aukin lán, er einnig slæmur. Með því er enn einu sinni verið að velta vandanum fram í tímann, stinga höfðinu í sandinn, látast ekki sjá þann vanda, sem þarna er við að glíma, og ýta honum á undan sér.

Það liggur því alveg ljóst fyrir, svo að við tökum bara þennan eina þátt, þ. e. lánsfjáráætlun að því er Landsvirkjun snertir á þessu ári, að sú tala, sem í þessu frv. stendur er þegar orðin úrelt, nema hæstv. ríkisstj. breyti um stefnu varðandi ákvörðun um gjaldskrár þessa fyrirtækis. Auðvitað á að haga rekstri og gjaldskrám slíkra fyrirtækja þannig að þau geti á hverjum tíma lagt einhvern hluta af framkvæmdafé sínu fram sem eigið fjármagn. Það er hygginna manna háttur, sem glöggt kemur fram í því t. d., að þegar leitað var til Alþjóðabankans á sínum tíma varðandi lán, bæði fyrir Búrfellsvirkjun og fyrir Sigölduvirkjun, þá gerði sú alþjóðlega lánastofnun það beint að kröfu að fyrirtækið legði fram ákveðinn hluta af framkvæmdafé sem eigið fjármagn, tók ekki í mál að framkvæmdir væru nánast 100% unnar fyrir lánsfé. Alþjóðabankinn hefur nú sleppt hendinni af Landsvirkjun, ef svo má segja, þar sem hann lánar ekki til Hrauneyjarfossvirkjunar, heldur hefur Landsvirkjun leitað á hinum almenna alþjóðlega lánamarkaði eftir lánum, og það ég verð að segja, að viðbrögðin hjá hæstv. ríkisstj. eða okkur Íslendingum eru ekki til fyrirmyndar. Viðbrögðin eru þau að reka fyrirtækið með stórkostlegum halla og leggja ekki eyri sem eigið fé til þessara framkvæmda og stofna á þann hátt framtíð þessa mikilvæga orkuöflunarfyrirtækis í stórkostlega hættu. Sannleikurinn er sá, að hér er um svo mikinn rekstur að ræða, hér er um að ræða fyrirtæki sem hefur það miklar tekjur og það mikil útgjöld jafnframt, að ef eitthvað fer úrskeiðis varðandi slíkan rekstur, þótt ekki sé nema í tiltölulega stuttan tíma, er voðinn vís. Það er að sjálfsögðu afleitt að hæstv. ríkisstj. skuli nánast með opnum augum stefna í hættu framtíð þessa mikilvæga orkuöflunarfyrirtækis á þann hátt sem hér er gert. Það er ekki búhyggindi, heldur furðuleg skammsýni, sem fram kemur í þessu ráðslagi hæstv. ríkisstjórnar.

Það kemur fram í lánsfjáráætlun, að gert er ráð fyrir að erlendar lántökur til framkvæmda við A- og B-hluta fjárlaga verði 11.3 milljarðar, en heildarlánsfjárupphæð til þessara ákveðnu þátta í lánsfjáráætluninni verði um 35.4 milljarðar, þannig að jafnframt er gert ráð fyrir verulegum innlendum lántökum í þessu skyni. En til að sjá megi, hvað gengið er enn lengra út á þá braut að taka lán til framkvæmda, vil ég leyfa mér að bera saman lánsfjáráætlanir áranna 1979 og 1980 eins og þær hafa verið lagðar fram á hv. Alþ., en ég mun hins vegar síðar koma að því, hvernig lánsfjáráætlun fyrir árið 1979 stóðst í raun, en þó fóru lánin í mörgum greinum langt fram úr því sem upphaflega var ráðgert í lánsfjáráætlun eins og hún var lögð fram á Alþingi í fyrravor.

Árið 1979 voru ætlaðir til framkvæmda í A-hluta fjárlaga í lánsfjáráætlun 4.7 milljarðar kr. Á þessu ári er áætlað að þessi upphæð fari upp í 12 milljarða kr. Það er sem sagt gert ráð fyrir að lántökur vegna A-hluta fjárlaga þrefaldist nánast á milli áranna 1979 og 1980. Ef við tökum B-hluta fjárlaganna var gert ráð fyrir því árið 1979 að heildarlántökur yrðu tæpir 11 milljarðar, en eiga að verða árið 1980 23.3 milljarðar kr. Ef við skoðum nánar hinar ýmsu framkvæmdir, bæði undir A- og B-hluta fjárlaganna, má glöggt sjá að því fer fjarri að í öllum greinum sé um að ræða arðbærar framkvæmdir. Ég hygg að með þessari lánsfjáráætlun sé gengið allt of langt í lántökum og allt of langt í lántökum til ýmissa framkvæmda sem ekki teljast arðbærar, heldur ýmissa framkvæmda, sem eðlilegra er að séu fjármagnaðar af tekjum hvers árs og megi að því leyti líkja við beina eyðslu, eins og glöggt kemur fram þegar skoðaður er listinn yfir þær framkvæmdir sem hv. þm. hafa fengið í hendur og ég mun ekki gera frekar að umtalsefni..

Það er líka fróðlegt að bera saman lánsfjáröflun í heild fyrir árin 1979 og 1980. Það kemur glöggt fram á þeim samanburði hversu reiknað er með gífurlegri aukningu á lánsfé, bæði innlendu og erlendu, fyrir árið 1980. Árið 1979 var innlend fjáröflun, þ. e. innlend lánsfjáröflun til opinberra framkvæmda, reiknuð samkv. lánsfjáráætlun 5.2 milljarðar kr. Sambærilegur liður í lánsfjáröflun nú er 23.6 milljarðar. Þannig er nánast um að ræða fimmföldun á lánsfé á innlendum markaði til opinberra framkvæmda. Innlend fjáröflun til fjárfestingarlánasjóða eykst ekki eins mikið, en hún eykst þó úr 17.8 milljörðum kr. samkv. lánsfjáráætlun ársins 1979 í 29 milljarða kr. samkv. lánsfjáráætlun ársins 1980. Erlend lán eru að sjálfsögðu hér miðuð við gengi sem lánsfjáráætlun 1980 byggir á, en tilhneigingin sést þó glöggt vegna þess að erlend lán á árinu 1979 voru áætluð 28 milljarðar, en fara upp í 55 milljarða til opinberra framkvæmda og fjárfestingarlánasjóða.

Af þessu yfirliti má glöggt sjá að hvort sem um er að ræða lántökur á innlendum markaði eða lántökur á erlendum markaði er hér um stórauknar lántökur að ræða af hálfu ríkisins. Þetta ber því vott um að hæstv. ríkisstj. hefur annaðhvort ekki vilja eða tök á því að ráða við eða gera tilraun til að ráða við þann mikla verðbólguvanda sem þjáir okkar þjóðfélag. Þessar ákvarðanir eru eins og olía á verðbólgubálið, þannig að því fer fjarri að nokkur tilraun sé gerð til þess af hálfu hæstv. ríkisstj. að standa við þau ákvæði málefnasamningsins að reyna að ráða eitthvað við verðbólguna.

En nú er margföld reynsla fyrir því, að áætlun er eitt og framkvæmdin er annað. Ég held að miðað við þær forsendur, sem þessi lánsfjáráætlun byggir á og ég gat um áðan, verðlagsforsendur, og ég nefni eitt dæmi, Landsvirkjun, þar sem ég þekki svolítið til, þá sé alveg ljóst að þessi lánsfjáráætlun muni ekki standast frekar en lánsfjáráætlun á s. l. ári stóðst.

Við skulum örlítið átta okkur á því, hvernig síðasta lánsfjáráætlun, sem hv. Alþ. samþykkti, stóðst í raun. Það var gert ráð fyrir að til A-hluta fjárlaga væri tekið lán að upphæð 4.7 milljarðar kr. Í reynd fór þessi upphæð upp í 5.7 milljarða kr., þannig að hér var um verulega hækkun að ræða. Til B-hluta fjárlaga var reiknað með í lánsfjáráætlun að tæpir 11 milljarðar yrðu teknir að láni, en urðu í raun 16.8 milljarðar, þannig að lánsfé hækkaði um 5.8 milljarða kr. eða tæplega 60% . En í heild hækkaði lánsfé vegna þessara þátta úr 15.7 milljörðum í 22.5 milljarða kr.

Eins og ég gat um áðan bendir margt til þess, að sú lánsfjáráætlun, sem við erum nú að fjalla um og hv. Alþ. er að ganga til samþykktar á, muni stórhækka á þessu ári. Og hvernig var brugðist við á síðasta ári? Hvaðan var það fjármagn tekið sem þurfti til viðbótar lánsfjárþörf ríkisins umfram lánsfjáráætlun ársins 1979? Við skulum aðeins átta okkur á því.

Innlend lán hækkuðu úr 5.5 milljörðum í 8 milljarða. Spariskírteini áttu samkv. upphaflegri áætlun að vera 4.2 milljarðar, urðu 6.5 milljarðar. Innheimta af endurlánuðu spariskírteinafé, sem reiknað var að yrði 975 millj., lækkaði í 555 millj. Önnur innlend lán en ég hef getið um hér að framan, sem engin voru reiknuð í lánsfjáráætlun 1979, urðu rúmir 1 milljarður, og erlend lán, sem samkv. lánsfjáráætlun áttu að vera 10,5 milljarðar kr., fóru upp í 14 milljarða.

Þessi dæmi um hvernig lánsfjáráætlun 1979 stóðst læt ég nægja. Það væri hægt að rekja hér ýmis einstök atriði í þessu efni, en það skal ég ekki gera. Ég bendi á þetta til að sýna fram á að þegar forsendur lánsfjáráætlunar eru veikar, eins og reynslan á eftir að sýna varðandi þá lánsfjáráætlun sem við erum að fjalla um nú, hækkar lánsfé bæði á innlendum og erlendum markaði verulega. Og ég spái því, að svo eigi eftir að verða enn fremur á þessu ári. Ég spái því, að sú lánsfjáráætlun, sem við erum hér að fjalla um, eigi áður en langt um líður eftir að verða marklaust plagg. Reyndar er hún þegar orðin það í mörgum greinum áður en við samþykkjum hana á hv. Alþ. Það er bæði verðlagsþróunin, sem veldur því, og stefna ríkisstj. að öðru leyti.

Ég hygg að allir séu sammála um að það sé eitt af því mikilvægasta í efnahagslífi okkar að snúa við þeirri þróun að þjóðartekjur á mann fari lækkandi, en það gerum við að sjálfsögðu ekki á annan hátt en þann að auka framleiðslu þjóðarinnar. Og nú tek ég aftur fram, til þess að það valdi ekki neinum misskilningi, að ég hygg að því fé, sem varið er til orkuframkvæmda, rafmagns og hitaveitu, sé vel varið, en þá verður auðvitað að haga ákvörðun um gjaldskrá á þann veg, að sjálfstæði þessara fyrirtækja sé ekki stefnt í voða. En það þarf fleira til en að byggja virkjanir eða hitaveitur. Það þarf að renna stoðum undir atvinnulífið í landinu og það þarf að tryggja að atvinnuvegirnir fái það fjármagn sem þeir þurfa til að geta byggt sig upp og haldið eðlilegum rekstri. Það veldur því miklum vonbrigðum að sjá að þessi lánsfjáráætlun og það frv., sem við höfum hér fyrir framan okkur, stefnir allt í þá átt að draga fé frá atvinnurekstrinum, draga fjármagn frá atvinnuvegunum til ríkisins. Þetta frv. gerir ráð fyrir að hin lamandi hönd ríkisvaldsins, sem legið hefur ærið þungt á atvinnulífi okkar landsmanna undanfarin ár, leggist á atvinnulífið með enn meiri þunga en verið hefur, og þótti hún þó æðiþung fyrir. Um þetta má sjá mörg dæmi í þeirri lánsfjáráætlun, sem hér liggur fyrir, og í þeim grg. og þeim forsendum sem hún byggir á.

Það kemur t. d. glöggt fram, að það er gert ráð fyrir að svokölluð samneysla muni aukast um 2% í heild á árinu 1980. Og hvað þýðir það? Samneysla er tískuorð í dag. Það er fínt orð yfir aukna skatta, yfir auknar opinberar framkvæmdir og þýðir í raun að ríki og sveitarfélög muni taka stærri hluta af tekjum landsmanna, en minna verður eftir hjá einstaklingunum og fyrirtækjum þeirra og fyrirtækin og einstaklingarnir verða þá verr í stakk búin til að leggja atvinnulífinu til fjármagn, annaðhvort með beinum fjárframlögum eða með því að auka sparnað í bönkum og lánastofnunum, sem þá kemur atvinnulífinu að sjálfsögðu til góða í auknum lánveitingum þessara stofnana.

Það kemur enn fremur fram í þessari fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, að framkvæmdir hins opinbera eigi að aukast á kostnað atvinnuveganna. Það kemur fram í lánsfjáráætluninni, að gert sé ráð fyrir að opinberar framkvæmdir aukist um 21% frá s. l. ári, en alls sé áætlað að 126.6 milljörðum kr. verði varið til opinberra framkvæmda á árinu. Þessi fjárhæð er tæplega 39% af heildarútgjöldum til fjármunamyndunar samkv. fjárfestingaráætlun samanborið við 33% á árinu 1979. Hér er því um að ræða verulega aukningu á þessu sviði. En það kemur jafnframt fram í þessari áætlun, að gert sé ráð fyrir að fjármunamyndun í atvinnuvegunum eigi að minnka um 3.6%. Þegar opinberar framkvæmdir vaxa um 21.3% á fjármunamyndun í atvinnuvegunum að minnka. Það er gert ráð fyrir að atvinnuvegirnir fái minna fjármagn til að byggja sig upp en þeir höfðu á árinu 1979, vegna þess að ríkið tekur æ stærri hlut af því fjármagni sem til ráðstöfunar er í þjóðfélaginu. Auðvitað eru þessar framkvæmdir ríkisins margar nauðsynlegar og arðgefandi, eins og orkuframkvæmdirnar eins og ég gat um, en ef á að halda þeim áfram með fullum krafti hefði að sjálfsögðu verið nauðsynlegt að draga úr einhverju á móti til þess að atvinnuvegirnir fengju aukið fjármagn og jafnframt til að draga úr þeirri miklu þenslu sem er í þjóðfélaginu.

En það kemur víðar fram í lánsfjáráætluninni en í þeim dæmum, sem ég hef hér rakið, að ætlað er minna fjármagn til atvinnuveganna en áður. Það kemur m. a. fram þar sem fjallað er um fyrirætlanir um útlán þeirra fjárfestingarlánasjóða sem lána til atvinnuveganna. Í töflu, sem birtist á bls. 39 í lánsfjáráætluninni, er gert ráð fyrir að upphæð útlána atvinnuvegasjóðanna, þ. e. þeirra sjóða sem lána til landbúnaðar, fiskveiða, iðnaðar og verslunar og ýmissa þjónustugreina atvinnuveganna, vaxi um 16.1% á milli ára í krónum talið. Hér er.um að ræða raunverulega magnminnkun vegna þess að verðbólgan hefur verið langt umfram 16.1% á milli ára, eins og öllum er kunnugt um, eða um 50–60%, þannig að atvinnuvegirnir munu fá mun minna fjármagn frá þessum sjóðum, sem eru raunverulega grundvöllur þess að atvinnuvegirnir geti byggst upp.

En þessarar þróunar, þ. e. þessarar auknu fjártöku ríkisins, má sjá stað enn víðar í þessari lánsfjáráætlun. Það kemur t. d. fram, að ríkið hyggst seilast enn lengra inn í bankana en það gerði á s. l. ári. Viðskiptabankarnir hafa um langt árabil ráðstafað hluta innlánaaukningar sinnar til Framkvæmdasjóðs. Síðustu tvö árin var þetta hlutfall 5% árið 1978 og 4% árið 1979. Nú er gert ráð fyrir að hækka þetta hlutfall upp í 7%. Það er sem sagt gert ráð fyrir að draga um 6 milljarða kr. út úr viðskiptabönkunum til Framkvæmdasjóðs. Hvað þýðir það? Það þýðir auðvitað að bankarnir verða að sama skapi miklu verr í stakk búnir til að lána fjármagn til atvinnulífsins og atvinnuveganna. Og fjármagnsþörf atvinnuveganna eykst mjög hratt með aukinni verðbólgu. Það er alveg ljóst, að lánsfjárþörf atvinnuvega, bæði til rekstrar og til uppbyggingar, vex mjög hröðum skrefum þessa mánuði, þannig að allt bendir til þess, ef hæstv. ríkisstj. ætlar að halda áfram þeirri stefnu að draga fjármagn út úr bönkunum í jafnríkum mæli og hér er gert ráð fyrir, að þá muni verða þröngt fyrir dyrum margra þeirra sem reka fyrirtækin þegar líður fram á haustið. Sumir nefna reyndar stöðvun í þessu sambandi hjá mörgum atvinnufyrirtækjum, og það er ekki ólíklegt að til þess geti komið. Ég held því að það sé alveg nauðsynlegt að hæstv. ríkisstj. reyni að hugsa sitt ráð, reyni að átta sig á því að það er ekki allur vandi í efnahagsmálum leystur með því að draga stöðugt aukið fjármagn til ríkisins.

Ég vil nú vitna í jafnmerkan mann og Mao formann í þessu sambandi, en hann sagði einhvern tíma þá frægu setningu — ég held að það hafi verið í menningarbyltingunni í Kína — að hann vildi láta 1000 blóm blómstra. Og ég held að hæstv. ríkisstj. og hæstv. félmrh. ættu að taka sér þetta til fyrirmyndar. Það ætti að gera á þann veg að láta fyrirtækin í landinu blómstra, þær þúsundir fyrirtækja í framleiðslu og í þjónustu sem hér starfa og við hæstv. iðnrh. gerðum nokkuð að umtalsefni í fyrrakvöld. Ég held að hæstv. ríkisstj. eigi ekki að draga til sin frjómagnið úr þessum blómum í íslensku atvinnulífi. Það leiðir ekki til annars en að fyrirtækin visna innan frá, lognast út af, stöðvast, og því fylgir atvinnuleysi og hrun. Það er ekki lausn á öllum vanda að draga fjármagn frá atvinnulífinu, frá fyrirtækjunum til ríkissjóðs, eins og gert er ráð fyrir í þeirri lánsfjáráætlun sem hér er til meðferðar.

Í enn fleiri greinum má sjá að hæstv. ríkisstj. dregur fjármagn frá atvinnulífinu. Að vísu hefur hún nokkuð dregið í land í einu atriði frá því sem að var stefnt í frv. eins og það var lagt hér fram, en það er varðandi fjártöku frá lífeyrissjóðunum. Í frv., eins og það var upphaflega lagt fram, var ráð fyrir því gert, að 40% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna færu til kaupa á skuldabréfum með fullri verðtryggingu frá ákveðnum sjóðum, þ. e. ríkissjóði, Byggingarsjóði ríkisins og Framkvæmdasjóði Íslands, og þar með var tekið fyrir það sem lífeyrissjóðirnir hingað til hafa getað gert: að kaupa verðtryggð skuldabréf frá ýmsum stofnlánasjóðum atvinnuveganna, en þannig hafa lífeyrissjóðirnir lagt sitt af mörkum til uppbyggingar og eflingar íslensku atvinnulífi og gjarnan gert það á þann veg að sjóðirnir hafa keypt skuldabréf frá þeim stofnlánasjóðum sem starfa á sviði viðkomandi atvinnugreina. Lífeyrissjóður Iðju og iðnverkafólks hefur t. d. keypt frá Iðnlánasjóði og þeim sjóðum sem stuðla að iðnaði, Lífeyrissjóður verslunarmanna frá Stofnlánasjóði verslunar og þar fram eftir götunum. Sem betur fer lét hæstv. ríkisstj. sér segjast í þessu efni og hefur nú nokkuð dregið í land frá því sem að var stefnt með frv. upphaflega. Hún hefur látið undan bæði mikilli gagnrýni, sem hefur verið flutt á hv. Alþ., og harðorðum mótmælum, sem fram hafa komið frá lífeyrissjóðum í landinu, og því flutt brtt. sem rýmkar allnokkuð í þessum efnum, en þó ekki nægilega. Ég tel því að sú brtt., sem þeir hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, Sverrir Hermannsson og Albert Guðmundsson hafa flutt, sé mun betri en sú brtt. sem þeir nm. í fjh.- og viðskn., sem standa að ríkisstj., hafa flutt. (Forseti: Ráðgert er að fresta fundi nú kl. 10. Ég spyr hv. þm. hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni eða hvort hann vilji fresta ræðunni.) Ég skal senn láta máli mínu lokið, herra forseti, þannig að hægt verði að gera hér fundarhlé strax.

Ég ítreka það, sem ég sagði áðan, að ég tel að þessi fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sé í mörgum atriðum mjög óraunhæf, það séu þegar mörg teikn á lofti um að hún muni ekki standast, og jafnframt að hún beri þess merki, að hún muni auka þenslu og verðbólgu í þjóðfélaginu. Hún leiðir til samdráttar í íslensku atvinnulífi og ber með sér að ríkisstj. hefur þá stefnu að draga æ meira fjármagn frá atvinnulífi landsmanna til ríkisins. — (Fundarhlé.]