22.05.1980
Neðri deild: 85. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3049 í B-deild Alþingistíðinda. (2993)

194. mál, aðstoð við þroskahefta

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Í félmn. Nd. Alþingis sitja sjö ágætir þm.: Alexander Stefánsson, Friðrik Sophusson, Jóhann Einvarðsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Steinþór Gestsson, Eggert Haukdal og Guðmundur J. Guðmundsson. Félmn. Alþingis kom sér saman um það að flytja hér í þinginu frv. til l. um breyt. á l. nr. 47 30. maí 1979, um aðstoð við þroskahefta. Frv. er nánast aðeins ein grein, að aftan við 24. gr. laganna bætist ný mgr., svo hljóðandi:

„Einnig skal veita úr sjóðnum styrki til framkvæmda við heimili sjálfseignarstofnana og annarra aðila, svo og vistheimili.“

Það er sem sagt verið að slá því föstu með þessu frv., að styrkir til framkvæmda við heimili sjálfseignarstofnana skuli greiðast úr þessum sjóði, en á því lék vafi og þurfti að skera úr þessu í eitt skipti fyrir öll.

Í grg. frv. segir m. a.:

„Samkv. lögum í dag eiga heimili sjálfseignarstofnana og vistheimili fyrir vangefna ekki rétt til fjárveitinga úr Framkvæmdasjóði þroskaheftra.

Þetta gerðist við samruna tveggja lagabálka um þessi mál á þingi í fyrra, þar sem að þessu misræmi var ekki gætt, þó félmn. eða Alþ. hafi aldrei ætlað sér að svipta þessa sjálfsögðu aðila möguleikum í þessu efni. Þá var einnig hugsanlegt að hvað vistheimilin snerti yrði Styrktarsjóður vangefinna starfræktur samhliða Framkvæmdasjóðnum. Við afgreiðslu fjárlaga lagði formaður fjvn. áherslu á fulla einingu nefndarinnar um það, að þessi verkefni öll yrðu á vegum Framkvæmdasjóðsins. Sú varð og raunveruleg afgreiðsla Alþingis.

Stjórnarnefnd þroskaheftra mun á næstunni úthluta og skipta fé Framkvæmdasjóðsins. Lagabreyting verður til að koma svo þessi mikilvægu verkefni liggi ekki algerlega úti við skiptingu þessa fjármagns. Allir eru hins vegar á því, að þessi verkefni séu meðal þeirra forgangsverkefna sem veita þarf fjármagn til. Því er þetta frv. flutt.“

Ég held því að málin séu eins skýr og verða má með samþykkt þessa frv. Hins vegar gerist það í framhaldi af framlagningu þessa frv., að félmn. skilar nál. á þskj. 568 og er nú kannske rétt fyrst að rekja efni þess. En þar segir í niðurlangi nál. sem allir nm. skrifa undir:

Félmn. Nd. leggur til, að frv. verði samþ., og leggur áherslu á að fjárlága- og hagsýslustofnun taki tillit til þessarar aukningar á verkefni Framkvæmdasjóðs öryrkja og þroskaheftra við fjárlagagerð árið 1981. Jafnframt vill n. láta koma fram þá skoðun n., að við fjárlagagerð 1981 eigi að ná fram verðtryggingu á framlagi til sjóðsins í samræmi við 25. gr. laganna.“ (HBl: Er nú ráðh. kominn í málþóf?) Þetta er sem sagt sjónarmið félmn., sem hefur fjallað um þetta frv. Ég tel því að það sé í býsna miklu ósamræmi við niðurstöðu n. þegar fram kemur till. m. a. frá einum flm. frv. um það, að til viðbótar framlagi samkv. 1. málslið skuli ríkissjóður leggja sjóðnum til a. m. k. 225 millj. kr., í fyrsta sinn á árinu 1981, skuli sú fjárhæð hækka í samræmi við vísitölu framfærslukostnaðar miðað við árið 1980 að grunni. Ég tel að þessi brtt. komi nánast eins og skrattinn úr sauðarleggnum eftir að félmn. hefur komið sér saman um þá afgreiðslu málsins sem fram kemur á þskj. 568. (ÁG: Það skrifaði einn nm. undir með fyrirvara.) Já, það er að vísu rétt, að einn nm. skrifar undir með fyrirvara, en samt verður það að segjast alveg eins og er, að nál. á þskj. 568 stangast í raun og veru algerlega á við þá till. sem flutt er á þskj. 524. (HBl: En nú er deildin búin að samþykkja till.) Já, ég veit það, að deildin er búin að samþykkja till., en allir eiga orð sín til endurskoðunar og ég tel að hér hafi verið heldur um of fámennt á fundi deildarinnar þegar hún afgreiddi málið við 2. umr. og því sé kannske ekki óeðlilegt að málið sé tekið til endurskoðunar við 3. umr. (FrS: Hverjir voru fjarstaddir sem nú eru hérna?) Á því kann ég nú ekki full skil.

En ég vil bara segja það hér að lokum, að ég er alls ekki að mótmæla efni þessarar till. út af fyrir sig. Ég tel að hún komi vel til greina efnislega séð. En ég lýsi því yfir, að í öllum tilvikum þegar svipuð mál hafa komið til minna kasta, hef ég staðið hart gegn því að mál af þessu tagi væru afgreidd áður en fjárlagafrv. fyrir 1981 hefur verið tekið til undirbúnings og meðferðar í fjmrn. Ég hef verið andvígur því að negla niður hvað ætti að standa í fjárlagafrv. fyrir árið 1981, eins og hér er raunar verið að gera. Hér er verið að slá því föstu að bæta ákveðinni upphæð við það framlag sem lögbundið er. (SighB: En framlagið í Iðnrekstrarsjóðinn?) Ég kannast ekki við að það sé ákveðið eitt eða neitt til Iðnrekstrarsjóðs varðandi fjárlög ársins 1981 í frv. sem hér er til umr. Og ef hv. þm. ímyndar sér að svo sé, þá ætti hann að líta í frv. og athuga hvort honum hafi ekki missýnst. (Gripið fram í.) En með hliðsjón af því; að félmn. d. hafði komist að eðlilegri niðurstöðu í þessum efnum með frv. því, sem hím hafði flutt, og grg., sem frv. fylgdi, þá tel ég að það hafi verið ótímabær niðurstaða hjá hv. d. að samþykkja nákvæma upphæð í þessu skyni í fjárlögum næsta árs. Við getum vel átt til góða að taka ákvörðun um það hér í þinginu. Og án þess að ég sé út af fyrir sig að mótmæla efni þessarar brtt., sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Árni Gunnarsson fluttu hér, vil ég af þessari ástæðu leyfa mér að leggja til að sú breyting verði gerð á frv., eins og það liggur núna fyrir, að þessi viðbótarmálsgrein, sem bættist við frv. áðan, verði felld niður. Það er seinasta mgr. a-liðar 25. gr. laganna.

Herra forseti. Ég legg sem sagt til með skriflegum hætti að á frv. til l. um breyt. á l. nr. 47 30. maí 1979, um aðstoð við þroskahefta, verði sú breyting gerð, að 2. gr. falli niður.