22.05.1980
Efri deild: 102. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3095 í B-deild Alþingistíðinda. (3065)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Til mín var beint þeirri spurningu, hvaða stofnun þetta væri og hvers konar stofnun það væri og hver væri starfsmaður sá sem fréttamaður útvarpsins átti samtal við 20. þ. m. Ég hef gert ráðstafanir til að óska eftir því, að sendiráð Íslands í Bandaríkjunum sendi sem nákvæmastar upplýsingar um þessa stofnun. Ég vænti að þær komi fljótlega og þá mun ég að sjálfsögðu útbýta þeim til utanrmn. og líka upplýsingum um þann starfsmann sem viðtalið átti sér stað við og það af þeim sökum að hann var titlaður í samtalinu kjarnorkusérfræðingur. Mér leikur hugur á að ganga úr skugga um hvort svo sé eða ekki.

Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef aflað mér um þessa stofnun í Bandaríkjunum, var hún sett á fót 1971. Það eru einstaklingar sem að henni standa og e. t. v. fyrirtæki. Hún er í engum tengslum við bandarísk stjórnvöld, heldur er hún einkafyrirtæki. Ég get ekki að svo stöddu dæmt um hve virt hún er. Þetta er ekki ýkjastór stofnun á bandarískan mælikvarða. Það er talið að þar muni vinna um 15 manns. Henni veitir forstöðu, ef þær upplýsingar eru réttar sem ég hef, fyrrverandi aðmíráll. Ég hygg að það sé ekki of sterkt að orði kveðið hjá hv, fyrirspyrjanda, að stofnunin teljist á vinstri væng stjórnmálanna og hafi það orð á sér. Það er í sjálfu sér sjálfsagt gott markmið, þar sem hún er svona friðarsinnuð, að því er virðist, og gagnrýnin mjög á stefnu Bandaríkjanna í milliríkjaviðskiptum og varnarmálum og þeim málum sem það snerta.

Þetta eru þær upplýsingar sem ég hef tiltækar um stofnunina, en ég mun sem sagt gera gangskör að því að fá ítarlegar upplýsingar um hana og um þennan kjarnorkusérfræðing, sem mér satt að segja, eftir viðtalinu að dæma, fannst ekki sérstaklega mikið vísindalegt bragð að.

Þó vil ég taka það fram, að eftir að við höfum fengið þennan útdrátt eða þátt, sem birtur var í útvarpinu, afritaðan og honum hefur verið dreift til utanrmn. sýnist mér að þessi kjarnorkusérfræðingur hafi tæpast fullyrt jafnmikið og maður ætlaði eftir að hafa hlustað á útvarpið, vegna þess að það eru ýmsir varnaglar í því sem hann segir. Í raun og veru fullyrðir hann alls ekki á enskunni að það séu kjarnorkuvopn á Keflavíkurflugvelli. Hann dregur alveg í land með það. Ég verð því að ætla að lagt hafi verið fullmikið upp úr þessu samtali.

Hitt er svo annað mál, að þetta er ekkert nýtt. Það er rétt sem fyrirspyrjandi sagði, að einn starfsmaður þessarar stofnunar, Schneider, skrifaði grein í rit 1975 eða 1976, þar sem hann lét líka liggja að því að hér væru geymd kjarnorkuvopn. En það var þó byggt á ágiskunum hans, hann hafði ekki sannanir fyrir því. Sama hefur átt sér stað um aðrar stofnanir, sem kannske eru af svipaðri gráðu og þessi stofnun, að þær hafa slegið þessu upp. En ég held að það megi segja um allt slíkt að það sé á ágiskunum byggt, ekki rökstutt, því að auðvitað getur það ekki verið neinn rökstuðningur fyrir því að hér séu kjarnorkuvopn að hér séu flugvélar sem geti flutt kjarnorkuvopn. Það ætti að liggja nokkuð í augum uppi.

Ég tel mjög nauðsynlegt að þessi mál séu könnuð rækilega og gerð sé gagnskör að að eyða þeirri tortryggni sem ríkir í þessum efnum hér, þannig að enginn þurfi að velkjast í neinum vafa um hvort geymd séu á Keflavíkurflugvelli kjarnorkuvopn. Ég vænti að við höfum möguleika til að ganga úr skugga um það. Við höfum, að ég ætla, íslenska menn sem hafa þá kunnáttu að þeir gætu gengið úr skugga um þetta. Við höfum hér mikla og mæta öryggismálanefnd sem ætti að hafa þetta verkefni m. a. á sinni könnu. Það er vel til athugunar að fela henni það verkefni að ganga úr skugga um þetta. Það er um að gera að á þessu máli sé tekið á þann hátt og það sé kannað á þann hátt, að fólk beri traust til þess hvernig sé gengið úr skugga um þetta.

Ég minni á það, eins og gert var áðan, að a. m. k. þrír utanrrh. hafa lýst því yfir að ekki væru geymd kjarnorkuvopn á Keflavíkurflugvelli. (StJ: Þeir hafa væntanlega gengið úr skugga um það allir saman?) Já, þeir hafa byggt það á upplýsingum áreiðanlega. Það voru ekki heldur þeir menn sem ég tel ástæðu til að rengja. Ég tek alveg eins mikið mark og meira mark á þeim mönnum en kjarnorkusérfræðingi vestur í Bandaríkjunum. Um hann eigum við eftir að fá nánari upplýsingar. En hina mennina, sem hafa gefið þessar upplýsingar, þekkjum við. Það er ekki heldur út í bláinn að þeir hafa gefið þær. Það er ákvæði í varnarsamningnum sem beinlínis kveður á um að það mundi þurfa leyfi íslenskra stjórnvalda til þess að hér væru geymd kjarnorkuvopn. Slíkt leyfi hefur aldrei verið gefið. Eftir slíku leyfi hefur aldrei verið leitað. Þar við bætist svo að Ísland er aðili að alþjóðasamningum um dreifingu kjarnorkuvopna, þar sem það hefur tekið á sig skyldur í því efni ásamt Bandaríkjunum og Sovétríkjunum, sem voru aðalhvataaðilar að því að það samkomulag var gert á sínum tíma. Það væri algert brot á þeim samningi ef hér væru geymd kjarnorkuvopn. Af Íslands hálfu hefur það verið og er slík forsenda fyrir dvöl varnarliðsins hér að það séu ekki kjarnorkuvopn hér á landi, að ég tel að bandarísk stjórnvöld og hernaðaryfirvöld, hverjar getsakir svo sem menn vilja hafa uppi í garð þeirra, mundu ekki taka þá áhættu að hafa hér kjarnorkuvopn vitandi hvað við mundi liggja. — Ég mundi tafarlaust beita mér fyrir viðeigandi ráðstöfunum ef það sannaðist.

Ég vil taka það fram, að ég hef ekki minnstu trú á að það séu geymd þarna kjarnorkuvopn. Ég held að það sé fráleitt. Ég hef verið þarna og farið um völlinn. Ég játa að ég þekki ekki kjarnorkuvopn, en mér finnst það með ólíkindum ef færi fram hjá manni sá búnaður sem þyrfti að vera ef kjarnorkuvopn væru geymd þarna.

Aðalatriðið í þessu efni er að þetta sé reynt að rannsaka og ganga úr skugga um það og leiða í ljós hvort þarna eru kjarnorkuvopn eða ekki. En ég tel alveg hiklaust að þarna séu ekki kjarnorkuvopn, og það er meginatriðið. Að slíkri rannsókn mun ég vinna í samvinnu við utanrmn. og ég mun vinna að því að afla þeirra gagna, sem hún fer fram á í þessu sambandi, og gera aðrar þær ráðstafanir sem talin er þörf á.

Það væri meira en lítið brot af hálfu varnarliðsins og yfirmanna þess að hafa látið þrjá íslenska utanrrh. gefa slíkar yfirlýsingar sem þeir hafa gefið og hafandi kjarnorkuvopn á Keflavíkurflugvelli. Ég trúi ekki að slíkt viðgangist. Það mega aðrir trúa því að skiptum á milli ríkja og milli manna sé þannig háttað.

Það eru náttúrlega vonbrigði að menn skuli frekar vilja leggja trúnað á raddir sem berast um þetta frá stofnunum í útlöndum, sem hafa ekki neina sérstaka aðstöðu til að kynna sér málið og byggja niðurstöður sínar á einhverjum líkum sem þeir gefa sér, en að trúa því sem íslensk yfirvöld hafa sagt og lýst yfir æ ofan í æ og ekki hafa verið leidd nein rök að að væri rangt, — engin rök verið leidd að því.

Ég ætla ekki að öðru leyti að fara út í umr. um þessi málefni almennt, en vil endurtak að það er alger forsenda fyrir því varnarsamstarfi, sem hér á sér stað, og fyrir dvöl varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, að þar séu ekki geymd kjarnorkuvopn.