28.05.1980
Efri deild: 104. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3157 í B-deild Alþingistíðinda. (3100)

180. mál, lánsfjárlög 1980

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það væri ástæða til að ræða margt í þessu frv. En ég mun ekki hverfa að því ráði. Ekki einu sinni hefur mér komið til hugar nú að bera fram sjálfsagðar brtt., eins og t. d. brtt. varðandi 19. gr. frv. um að ekki verði skorinn niður, eins og gert er með þessari grein, hluti af launaskattinum sem á samkv. lögum að ganga til Byggingarsjóðs ríkisins. Þessi grein þýðir að á þessu ári eru teknir 3.8 milljarðar kr. frá Byggingarsjóði ríkisins til að setja í ríkissjóð. Ég ætla ekki heldur og hef ekki heldur borið fram brtt., sem hefði verið ástæða til, við 20. gr. frv., en 20. gr. frv. skerðir það fé sem samkv. lögum á að ganga úr ríkissjóði til Byggingarsjóðs verkamanna.

En hvers vegna ber ég ekki fram till. um þetta? Það er vegna þess að ég held að svo illa sé komið fyrir okkur að það sé vonlaust að bera fram brtt., jafnvel um svo sjálfsögð mál sem þessi tvö sem ég hef hér drepið á, hvað þá um annað. Ég hef samt látið mér koma til hugar að hæstv. ríkisstj. sé ekki alls varnað. Því hef ég af miklu lítillæti, en þó í vitund um að málið er mjög þýðingarmikið, borið fram till. ásamt tveim félögum mínum, hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni og Lárusi Jónssyni, á þskj. 630. Þessi brtt. er við 29. gr. frv., en 29. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjmrh. er heimilt að lækka áformuð lánsfjármögnuð útgjöld fyrirtækja og stofnana í B-hluta fjárlaga um 2612 millj. kr. á árinu 1980.“

Það er furðulegt, að samkv. upplýsingum, sem fjh.- og viðskn. hafa fengið um það í hverju þessi niðurskurður er fólginn, kemur hann harðast niður á þeim málaflokki sem ríkisstj. samkv. málefnasamningi sínum segir að eigi að hafa forgang. Ég á við orkumálin. Allir þeir liðir, sem gert er ráð fyrir að þessi niðurskurður komi niður á, eru mjög þýðingarmiklir. En ég hef leyft mér ásamt félögum mínum að bera fram brtt. sem varðar einungis einn af þessum liðum og það er Vesturlína. Brtt. er sú, með leyfi hæstv. forseta, að það komi við 29. gr. svo hljóðandi viðbót: „Heimild þessi nær ekki til útgjalda vegna Vesturlínu.“

Þessi till. byggist á því, að hér er um alveg einstakt mál að ræða. Ég hygg að það geti ekki verið ágreiningur um að svo sé. Vesturlinu var byrjað að reisa árið 1978. Það var í upphafi gert ráð fyrir að því verki yrði lokið haustið 1979. Orkubú Vestfjarða var stofnað á þeirri forsendu. Nú var ekki staðið við þetta. Ég skal ekki fara að innleiða neinar umræður hér um hvers vegna það var eða hverjir bera ábyrgð á því. Það er liðin tíð og þjónar engum tilgangi að fara að ræða um það. En þegar framkvæmdatíma Vesturlinu var breytt og horfið var frá að ljúka henni á árinu 1979 var lýst yfir þegar af fyrrv. ríkisstj. að þessu verki skyldi lokið á árinu 1980. Allar framkvæmdir við Vesturlínu hafa verið miðaðar við þetta. En samkv. áætlunum og eins og fram kemur í fjárfestingar- og láns­ fjáráætlun fyrir árið 1980 er gert ráð fyrir að það þurfi að verja til Vesturlínu á þessu ári 4387 millj. kr. Þá er reiknað með að verkinu verði lokið og hægt að tengja Vestfirði við aðalorkusvæði landsins og spara Vestfirðingum og þjóðfélaginu í heild olíukostnað sem nemur milljörðum króna.

Nú felur 29. gr. þessa frv. í sér heimild til að skerða þá upphæð, sem lánsfjáráætlunin ætlar til Vesturlínu, um 438 millj. kr. Þetta þýðir að þessu verki verður ekki lokið á þessu ári, með skelfilegum afleiðingum fyrir Vestfirðinga og ég vil segja fyrir þjóðfélagið í heild vegna þess að hér eru svo miklir hagsmunir í veði. Það er svo með framkvæmd eins og rafmagnslínu að það stoðar ekki að langt sé komið verkið. Það verður ekki notast við það sem komið er ef það vantar þráð til þess að samtenging geti orðið.

Mér sýnist að þetta mál sé þess eðlis að það sé raunar óþarfi að hafa fleiri orð um það. En ég vildi mega vonast eftir því, að hæstv. ríkisstj. sæi að það væri óráð að skera þessa framkvæmd niður eins og heimilað er samkv. frv. því sem við nú ræðum.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. hvort þetta sé ekki réttur skilningur hjá mér: Í fyrsta lagi, að það hafi verið lofað og gert ráð fyrir að þessu verki, Vesturlínu, yrði lokið á þessu ári. Í öðru lagi, að það væri fyrir það fólk, sem þetta varðar mest, og þjóðhagslega hin mesta óhæfa ef horfið verður frá þessu. Ef hæstv. ráðh. er mér sammála, sem ég vil leyfa mér að vona í lengstu lög, má þá ekki vænta þess, að þessi sjálfsagða till. verði samþykkt?