28.05.1980
Neðri deild: 87. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3191 í B-deild Alþingistíðinda. (3120)

154. mál, Bjargráðasjóður

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Mér skilst á öllu að samkomulag sé orðið um að hraða afgreiðslu mála á þessu þingi, sem hefur staðið alllengi, þó að síðustu þrjú kortér hafi borið vitni um annað. Þá hafa menn keppst við að lengja tíma þingsins og þrengja umræður um efnisatriði mála.

Þetta mál, sem hér liggur fyrir til umr., tók megintímann í dag. Ég er á margan hátt þakklátur 2. þm. Norðurl. e. fyrir það sem hann gerði hér að umræðuefni, en ég hefði talið að ræðan hefði getað verið einn þriðji af þeim tíma sem tók að flytja hana, miðað við allar aðstæður hér í þingi, og hann hefði getað komið sínum sjónarmiðum að, sem mörg voru réttmæt og eðlileg í alla staði, í styttra máli.

Hv. þm. sagði að það hefði verið og væri óeðlilegt stjórnmálaástand síðan í haust. Það er sennilega alveg rétt hjá honum, að búið er að vera óeðlilegt stjórnmálaástand síðan í haust og er enn þá.

Hann rakti ítarlega í máli sínu loforð manna um að auka tekjur Bjargráðasjóðs til að mæta margvíslegum óhöppum sem menn verða fyrir og fá ekki ekki bætt með öðrum hætti, en 19. maí 1979 tók þáv. forsrh. mjög undir það og sú ríkisstj. sem þá sat. Hún sat í tæpa fimm mánuði eftir það og hafði að mínum dómi nægan tíma til að gera tillögur til úrbóta í þá átt sem hv. þm. gerði að umræðuefni. Sömuleiðis hefur núv. hæstv. ríkisstj. haft allgóðan tíma til að gera hér úrbætur, en ekkert hefur fengist að gert. Ég kannast ekki við að til stjórnarandstöðu hafi verið leitað til að fá úrbætur. Mér er ljóst að þetta frv., sem er staðfesting á brbl., er nauðsynlegt að fari hér í gegn, en þessar úrbætur hefðu átt að liggja fyrir.

Hæstv. forsrh. gaf yfirlýsingu um að bændur, sem hefðu orðið fyrir alvarlegum skakkaföllum, eins og kartöfluframleiðendur, fengju aðstoð með eigi lakari kjörum, eins og hann orðaði það, en t. d. Aflatryggingasjóður veitti. En hvað eru lakari kjör? Ef mál dregst á langinn í 50–60% verðbólgu er það ekki úrræði að halda sér við sömu krónutölu frá þeim tíma að menn urðu fyrir skaðanum.

Mér fannst hv. 2. þm. Norðurl. e. misskilja nokkuð Aflatryggingasjóð. Ég vil líka leiðrétta, en þó með öðrum hætti, umsögn hv. 5. þm. Suðurl.

Tekjur Aflatryggingasjóðs eru fyrst og fremst af aflatryggingasjóðsgjaldi, en enn fremur er um framlög úr ríkissjóði að ræða. Ríkissjóður styrkir því þennan sjóð, en sjávarútvegurinn hefur sjálfur fyrst og fremst byggt hann upp. Í B-hluta fjárlaga yfirstandandi árs eru framlög ríkissjóðs 501 millj., en aðrar tekjur, sem eru aflatryggingasjóðsgjald, hvorki meira né minna en 5122 millj. Ég tel eðlilegt í alla staði að bændur og aðrar stéttir byggi upp tryggingakerfi þegar þær verða fyrir alvarlegum áföllum. Ég tel einnig eðlilegt að til þess tryggingakerfis greiði menn sjálfir þegar vel gengur.

Ég er sammála hæstv. landbrh. um að það er auðvitað algjörlega útilokað að taka tillit til þess og bæta ef verður rýrnun eða lækkun á meðalfallsþunga dilka. Það er auðvitað ekki hægt að bæta þó að rýrni frá ári til árs því að það er mismunandi árferði og annað. Það er eins með þá atvinnugrein og allar aðrar, að hún verður auðvitað að taka því að það árar mismunandi.

En jafnalvarleg áföll og nefnd voru í ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e. og hv. 7. landsk. þm. eru annars eðlis. Ég hefði talið að það hefði átt að sjá fyrir fjármagni til að bæta þau, þar sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþ. hafa lýst yfir að það sé sjálfsagt. Nú á að slíta þingi með góðum orðum um þetta, eins og gert var 19. maí árið 1979. Slíkt er auðvitað ekki að standa við loforð. En ég vil benda hv. 2. þm. Norðurl. e. á að hann var einlægur stuðningsmaður þeirrar ríkisstj., sem gaf þessi loforð 19. maí 1979, og hann hefur stutt þá ríkisstj. sem tók við 8. febr. í vetur. Á þessu tímabili öllu er ekki hægt að skýla sér á bak við kratana eina þó að þeir hafi verið í stjórn í u. þ. b. fjögurra mánaða tíma.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vil aðeins taka undir þessar vissu aths. Ég vil þó, áður en ég lýk máli mínu, sérstaklega minna hv. þm. stjórnarflokkanna á að sá háttur var á, þegar ég kom á þing, og þá vildi svo til að ég var stjórnarsinni, að stjórnarsinnar reyndu að haga málflutningi á þann veg, að lokið yrði þinghaldi á þeim tíma sem þeirra ríkisstj. lagði til, með því að stytta mjög mál sitt og jafnvel fara ekki í ræðustól þó þeir hefðu fulla ástæðu til. En þegar verið er að tala um málgefni stjórnarandstöðunnar nú, þá hygg ég að þegar menn líta í þingtíðindi sýni þetta þing að aldrei hafi stjórnarþingmenn talað meira í málum en á þessu þingi. Þeim er að sumu leyti kannske vorkunn, en ég ætla ekki að koma nánar inn á það.