29.05.1980
Sameinað þing: 69. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3235 í B-deild Alþingistíðinda. (3212)

Kosning sjö manna og jafnmargra vara í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður.

Ég vil undirstrika það, sem hér hefur komið fram í ræðum manna um kosningu í húsnæðismálastjórn, að auðvitað hefur þingflokkur sjálfstæðismanna samþykkt á löglegum fundi hvernig staðið skyldi að þessum kosningum. Ég fyrir mitt leyti mun að sjálfsögðu standa með þeirri samþykkt, eins og ég hef reynt að gera í starfi mínu í þágu Sjálfstfl. Ég vonast til þess að mér megi auðnast að halda því áfram.

Varðandi hins vegar þann mann, sem er í framboði fyrir annan lista en sjálfstæðismanna og er formaður nefndar hjá Sjálfstfl. sem sér um húsnæðismál, skal þess getið að hann hefur unnið mjög markvert og gott starf fyrir Sjálfstfl. í þeim efnum. Í umr. um húsnæðismálin greindi ég frá skoðunum hans á húsnæðismálunum, og ég ætla að leyfa mér, af því að hér gefst gott tækifæri til þess, að hlaupa á því, hvaða atriði það eru sem hann lagði til að samþykkt yrðu.

Ég vil nefna fyrst, að hann segir að það sé ekki til bóta að skipta stofnuninni í þrjár deildir, í öðru lagi eigi ekki að leggja áherslu á sjálfstæða teiknistofu, í þriðja lagi sé ekki gengið nógu langt í því að koma lánahlutfalli upp og ekki heldur séð fyrir nægilegu fjármagni kerfisins, í fjórða lagi megi ekki binda afgreiðslu við eina lánastofnun, í fimmta lagi sé lánstíminn, eins og hann sé settur fram, allt of stuttur og þurfi að lengjast um minnst 10 ár, í sjötta lagi sé eðlilegt að sveitarfélög og atvinnurekendur eigi fulltrúa í stjórn stofnunarinnar á svipaðan hátt og launþegar.

Á þetta minnti ég í umr., því að aðeins eitt af þessum 6 atriðum hefur komist til skila. Ég mundi vissulega fanga því undir venjulegum kringumstæðum að slíkur maður kæmi inn í stjórn stofnunarinnar, og hefði fagnað því enn meir ef hann hefði haft einhver áhrif á gerð þessa frv. þegar það var til meðferðar í Ed.

Því var haldið fram, að hann hefði þá unnið að brtt. með fulltrúum úr öðrum stjórnmálaflokkum, en aðeins eitt atriði af þeim sex sem hann lagði áherslu á, fór í gegn. Á þetta vil ég leggja sérstaka áherslu sem dæmi um að maðurinn er auðvitað með nákvæmlega sömu sjónarmið og komu fram í gagnrýni sjálfstæðismanna á frv. Allur Sjálfstfl. stóð með þeim brtt., að undanskildum örfáum mönnum sem kusu heldur að fylgja þeirri stjórn sem þeir hafa myndað.