29.05.1980
Sameinað þing: 69. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3236 í B-deild Alþingistíðinda. (3215)

Kosning sjö manna og jafnmargra vara í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það, sem vekur undrun mína, er að sjálfsögðu ummæli hv. 11. þm. Reykv. sem ekki í fyrsta sinn í vetur mælir því bót, og er þó formaður í einum þingflokkanna, að gerðir, orð og ákvarðanir þingflokkanna, hverra starf er bundið í íslenskum lögum, séu ekki aðeins brotin, heldur allur sá andi sem fylgir því starfi sem þeir eiga að vinna hér á hv. Alþingi. Þetta er auðvitað þessari þingmannspersónu ákaflega eðlilegt og tamt og skal ég ekki hafa fleiri orð um það.

En hér hefur komið til umræðu ein persóna, 4. maður á lista Framsfl., Alþb. og þeirra þriggja sjálfstæðismanna, sem eiga sæti í ríkisstj., og stuðningsmanna þeirra. Þetta er hinn ágætasti maður, það ber öllum saman um. En mér finnst rétt að undirstrika að sá maður, 3. maðurinn sem þingflokkur Sjálfstfl. hefur boðið fram og hefur átt sæti í húsnæðismálastjórn árum saman, nýtur ekki síður traust hjá sjálfstæðismönnum, sbr. val þingflokks Sjálfstfl. á honum, og á ég hér við Ólaf Jensson. Þann mann ætlar hæstv. forsrh. og meðráðh, hans úr Sjálfstfl. að fella með þessari tillögu sinni, ef hún verður samþykkt.