10.01.1980
Sameinað þing: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvrh. svör hans, en Ég vil benda á það, að annan föstudag hér frá er kominn 18. jan. og ef Alþ. eða þingflokkarnir eru ekki farnir að sjá væntanleg frv. fyrr en eftir helgi, þá er mjög skammur tími til stefnu. Ég held að það sé ekki neitt áhorfsmál, að yfirnefnd Verðlagsráðs sjávarútvegsins gengur ekki frá þessu máli fyrr en vitað er hvaða meðferð olíugjaldið kann að fá hér á hv. Alþ. Verðuppbætur á tilteknar fisktegundir, sem hæstv. ráðh. minntist á og við ræddum hér fyrir jól, er kannske ekki alveg eins aðkallandi mál, þótt það sé mjög aðkallandi. Það væri þá frekar að það gæti beðið nokkrum dögum lengur. Það er samt hægt að ganga frá fiskverði í Verðlagsráði, því að það kæmi þá ofan á þetta fiskverð og sömuleiðis væntanlega breytingar á lögum um útflutningsgjald sjávarafurða, sem ég geri ráð fyrir að þurfi að gera breytingar á.

Ég legg áherslu á það, að fyrst og fremst verði tekin ákvörðun um olíugjaldið, að þingflokkarnir fái vitneskju um það, hver er hugmynd ríkisstj. og þá sjútvrn. í því sambandi. Auk þess væri mjög æskilegt að fá kynntar hugmyndirnar um verðuppbætur á einstakar fisktegundir, sem má auka sókn í, og jafnframt breytingarnar á lögum um útflutningsgjald. Það, sem fyrir liggur núna, er þetta.

Ég ætla ekki að ræða efnislega um stöðu útgerðar eða fiskvinnslu, ég kvaddi mér ekki hljóðs hér í þeim tilgangi, þó að um það megi auðvitað flytja langt mál. Ég ætla ekki að endurtaka það, sem komið hefur hér fram í dag í sambandi við ríkisfjármálin í löngum ræðum manna. En við vitum það, að sjómenn sætta sig ekki við annað en hækkun verði á fiskverði, a.m.k. til samræmis við þær launabreytingar sem orðið hafa síðan fiskverð var síðast ákveðið. Og þetta er auðvitað það sem allir flokkar hljóta að vera sammála um, að það verður ekki hægt að loka algerlega þegar komið er að því að ákveða kaupgjald sjómannastéttarinnar einnar. Það veit ég að hæstv. ráðh, hlýtur að vera mér sammála um.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. Ég skora á hæstv. ráðh. að hraða samningu þessara frv. svo að formenn þingflokka fái þau í hendur nú um þessa helgi og þannig megi hraða því að móta afstöðu til þessara mála í þingflokkunum, þó að frv. komi ekki fram fyrr en á mánudag eða í síðasta lagi á þriðjudag. Lengur held ég að það megi ekki dragast, og illmögulegt tel ég að fresta ákvörðun um fiskverð í þriðja skipti eða fram yfir 18. janúar.