14.01.1980
Neðri deild: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

25. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 25, er um breyt. á lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Um er einkum að ræða að veita elli- og örorkulífeyrisþegum lán hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins á sérstökum kjörum til endurbóta á húsnæði sínu.

Húsnæðismálastjórn hefur um nokkurra ára skeið haft heimild til að veita elli- og örorkulífeyrisþegum lán til endurbóta á eigin húsnæði þeirra. Reynslan hefur orðið sú, að elli- og örorkulífeyrisþegar hafa lítið getað notfært sér þessi lán, og er ástæða til að ætla að sú greiðslubyrði, sem fylgir lánunum, sé of þung fyrir þessa hópa og af þeim ástæðum geti þeir ekki notfært sér þetta ákvæði húsnæðismálalaganna, jafnvel þótt brýna nauðsyn beri til að framkvæma viðgerð á húsnæði þeirra.

Það er megintilgangurinn með flutningi þessa frv. að gera kjör Húsnæðismálastofnunarinnar svo aðgengileg fyrir elli- og örorkulífeyrisþega að þeim sé fært að notfæra sér þau án óbærilegrar greiðslubyrðar.

Samkv. frv. skulu lán til þessara hópa vera vaxtalaus og einnig afborgunarlaus fyrir fimm fyrstu árin, auk gjaldfrestunar á helmingsgreiðslu verðtryggingar fyrir sama tímabil. Hins vegar, þegar um er að ræða elli- og örorkulífeyrisþega sem njóta fullrar tekjutryggingar og hafa að öðru leyti óveruleg fjárráð til endurbóta eigin húsnæðis, gerir frv. ráð fyrir að lánin skuli veitt með þessum kjörum meðan þeir sjálfir búa í húsnæðinu og skal lánið fyrst við lát lántaka uppgert ef eignin fer í skiptarétt. Að öðrum kosti skulu gilda um þau lán sömu reglur og áður greindi frá fyrir elli- og örorkulífeyrisþega, þ.e.a.s. að gefa út nýtt skuldabréf fyrir greiðslu þeirrar fjárhæðar sem eftir stendur og frestað hefur verið, og skulu þau vera með hinum almennu kjörum húsnæðismálastjórnar.

Jafnframt er með þessu frv. farið inn á þá braut að veita húsnæðismálastjórn heimild til að veita lán á hagstæðum kjörum til viðgerða og endurbóta á leiguíbúðum sem öryrkjar og ellilífeyrisþegar búa í. Til þessa hefur lánveitingaheimildin einungis náð til eignaríbúða öryrkja og ellilífeyrisþega. Talið er að um 20% þjóðarinnar búi í leiguíbúðum. En ástæða er til að ætla að mun stærra hlutfall öryrkja og ellilífeyrisþega búi í leiguíbúðum. Engin sanngirni mælir með því að einungis íbúðareigendur í hópi öryrkja og ellilífeyrisþega eigi kost á lánum Húsnæðismálastofnunar til viðgerða og endurbóta á húsnæði. öll sanngirni mælir hins vegar með því, að allir öryrkjar og ellilífeyrisþegar sitji hér við sama borð, hvort sem þeir eru íbúðareigendur eða leigjendur. Þurfi sú íbúð á endurbótum að halda, sem viðkomandi öryrki eða ellilífeyrisþegi býr í, á að veita til þess lán úr Byggingarsjóði ríkisins án tillits til þess, hver eigandi hennar er.

Um þennan þátt, er snertir leiguíbúðir, eru settar mjög nákvæmar reglur í frv., eins og fram kemur í lið 4. og 6. í frv., sem gerir það að verkum að lánin komi að tilætluðum notum fyrir elli- og örorkulífeyrisþega í leiguíbúðum og komist verði hjá misnotkun þeirra.

Í annan stað gerir frv. ráð fyrir að húsnæðismálastjórn verði einnig veitt heimild til að veita lán á hagstæðum kjörum til annarra tryggingabótaþega, svo sem einstæðra foreldra, að viðlögðu vottorði um efnahag og tekjur auk fjöl.skylduvottorðs, og er nauðsynlegt að kveða nánar á um þetta ákvæði í reglugerð, eins og gert er ráð fyrir í frv.

Með þessu ákvæði er farið inn á þá braut að sömu kjör gætu einnig gilt um aðra almannatryggingabótaþega, þar sem sannanlega litill efnahagur sé viðmiðun heimildar húsnæðismálastjórnar til slíkrar lánveitingar. Ástæða er til að ætla að t.d. aðstæður einstæðra foreldra séu oft og tíðum mjög erfiðar, og má til marks um það geta þess, að í könnun á aðstæðum 450 félagsmanna — þ.e. 411 kvenna og 39 karla — Félags einstæðra foreldra kom í ljós að af einstæðum mæðrum, 411 samtals, sem höfðu 811 börn á framfæri sínu, bjuggu 174 (42,3%) í leiguhúsnæði, 123 (29.9%) í eigin húsnæði og 114 (27.7%) hjá ættingjum. Sýna tölur þessar ótvírætt að verulegra úrbóta er þörf í húsnæðismálum einstæðra foreldra.

Að lokum er með þessu frv. veitt heimild til að veita lán jafnt til íbúðakaupa sem og til endurbóta á íbúðum samtaka öryrkja, ellilífeyrisþega og öðrum félagslegum aðilum sem vinna að velferðarmálum ýmissa sérhópa, enda sé viðkomandi íbúð eða íbúðir notaðar til búsetu skjólstæðinga þeirra.

Má í því sambandi benda á að á síðustu árum hefur borið nokkuð á að ýmis félagsleg samtök, svo sem öryrkjar, ellilífeyrisþegar, einstæðir foreldrar, foreldrafélag þroskaheftra eða annarra barna, sem standa höllum fæti, hafa leitað eftir lánum frá Húsnæðismálastofnun ríkisins ýmist til að kaupa eða endurbóta á eldri íbúðum sem þessir aðilar hafa ýmist átt eða haft hug á að kaupa til búsetu fyrir skjólstæðinga sína. Núgildandi lagaákvæði veita ekki rétt til lána í þeim tilfellum, en það virðist bæði sanngjarnt og eðlilegt að slík heimild sé veitt, enda hefur farið almennt vaxandi skilningur á viðleitni aðila sem berjast fyrir auknu réttlæti slíkra minnihlutahópa. Um lán til slíkra samtaka og einstæðra foreldra og annarra almannatryggingabótaþega með þröngan fjárhag gerir frv. ráð fyrir að lánið sé vaxtalaust, einnig afborgunarlaust fyrstu fimm árin auk gjaldfrestunar helmingsgreiðslu verðtryggingar fyrir sama tímabil, en að loknu fimm ára tímabili frá töku lánsins skuli gefið út nýtt skuldabréf fyrir greiðslu þeirrar fjárhæðar sem frestað hefur verið, þ.e. nafnvirði afborgana, s.l. fimm ár og greiðslu áfallinnar verðtryggingar, og skulu þau vera með hinum almennu kjörum húsnæðismálastjórnar.

Að síðustu er gert ráð fyrir að lán þau, sem hér um ræðir til viðgerða og endurbóta, skuli hafa forgangsrétt og koma til greiðslu eins fljótt og frekast verður við komið eftir að lánsumsóknir berast. Skulu engir eindaga vegna komu lánsumsókna standa í vegi fyrir því. Augljóst má vera að það fólk, sem hér á hlut að máli, hefur alfarið litla eða enga aðstöðu til þess að útvega sér dýr bankalán til bráðabirgða svo unnt sé að láta fara fram endurbætur á húsnæði þess en bankalánið bíður svo með tilheyrandi kostnaði í 6–9 mánuði þar til lánveiting Húsnæðismálastofnunarinnar getur farið fram.

Gert er ráð fyrir að húsnæðismálstjórn geri árlega tillögu til ráðh. um þá heildarfjárhæð sem heimilt er að verja á ári hverju í þessu skyni. Ráðh. setur með reglugerð ítarleg ákvæði um heildarfjárhæð, fyrirkomulag lánveitinga, lánstíma og tryggingar slíkra lána að öðru leyti en hér er tilgreint, að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar. Heildarfjárhæðin, sem varið yrði til þessara verkefna, þyrfti því vart að fara mikið fram úr því sem þegar er gert ráð fyrir til endurbóta á eigin húsnæði ellilífeyrisþega og öryrkja, sem þegar er lagaheimild fyrir samkv. 4. mgr. A- liðar 8. gr. núgildandi laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins. En það er vitaskuld í hendi ráðh. og húsnæðismálastjórnar hvað stórri upphæð verður varið af fjármagni Byggingarsjóðs í þessu skyni. Hér er því aðeins verið að rýmka lánakjörin, þannig að þessum hópum sé gert kleift að notfæra sér þau án mikillar greiðslubyrði.

Þau sérstöku kjör, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, eru þess eðlis að nauðsyn er að setja um þau mjög ítarleg ákvæði, m.a. til að fyrirbyggja misnotkun þeirra. Segja má að með reglugerðarákvæðum væri hægt að tryggja að þessar lánveitingar næðu þeim tilgangi sem að er stefnt með frv. þessu. En hér er sú leið valin að gera ákvæði þessara sérstöku lánakjara svo úr garði í frumvarpsformi að öllum megi ljóst vera að slíkt er vel framkvæmanlegt ef vilji löggjafans er fyrir hendi. M.a. með tilliti til þess, hve nákvæmlega lánskjörunum eru gerð skil í frv., er vart nauðsynleg ítarleg greinargerð. um framkvæmd lánskjaranna og þau ákvæði er að þeim lúta. Vert er þó að geta þess, að svipuð leið og þetta frv. gerir ráð fyrir hefur verið farin í nágrannalöndunum með mjög góðum árangri.

Að lokinni þessari umr. óska ég eftir að málinu verði vísað til 2. umr. og félmn.