14.01.1980
Neðri deild: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

25. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég sé enga ástæðu til þess að verða við ósk hv. þm. Alexanders Stefánssonar um að draga frv. mitt til baka. Ég get aftur á móti fallist á að eðlilegt væri að frv. tvö væru skoðuð samtímis í n. og hugsanlega felld saman þau ákvæði sem að því lúta sem um getur í frv. sem ég flyt.

Í frv. félmrh. eru lánakjörin fyrir þá hópa, sem um getur í því frv. sem ég flyt, ekki nógu hagstæð til að þeir hópar geti nýtt sér þau sem skyldi. Því taldi ég fulla ástæðu til að rýmka þau og gera þau hagstæðari, þannig að greiðslubyrðin verði viðunandi og þau kæmu að fullum notum fyrir elli- og örorkulífeyrisþega. Í frv. félmrh. er aðeins gert ráð fyrir að lánin verði vaxtalaus og afborgunarlaus fyrsta árið, en mun lengra gengið í mínu frv. til þess að umræddir hópar geti nýtt sér þessi kjör.

Ég vil endurtaka, að ég sé ekkert því til fyrirstöðu að þessi tvö frv. verði skoðuð samtímis í nefnd.