14.01.1980
Neðri deild: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

26. mál, óverðtryggð framleiðsla landbúnaðarvara

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég tel mig ekki á þessu stigi þurfa að hafa mörg orð um frv., sem hér liggur fyrir til umr., en ég sé þó ástæðu til að koma að vissum atriðum í máli 6. þm. Norðurl. e., Árna Gunnarssonar. Hann ræddi, að ég tel, um þetta frv. út frá allt öðrum forsendum en fyrir því liggja að það er flutt.

Hann virtist leggja á það megináherslu að hér væri aðeins verið að hækka útflutningsbæturnar og það mundi gefa fordæmi til þess að því yrði haldið áfram. Það er síður en svo að það liggi fyrir við framlagningu frv. Eins og var tekið fram af frummælanda var að ráði ríkisstj. skipuð nefnd til að fjalla um erfiðleika bænda, m.a. til að finna lausn á vandamáli þeirra vegna söluerfiðleika erlendis. Ég vil benda á það, sem er prentað í fskj. með þessu frv. úr grg. og tillögur meiri hl. harðindanefndar, þar sem segir á bls. 2, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem skapast hafa vegna óheftrar framleiðslu undangenginna ára telur meiri hl. nefndarinnar rétt að lagt verði fram fé að þessu sinni til viðbótar lögboðnum útflutningsbótum. Meiri hlutinn álítur að hinar nýju heimildir Framleiðsluráðs til aðgerða, sem ætlað er að koma skipulagi á framleiðslu landbúnaðarvara, muni fremur ná því marki að aðlaga framleiðsluna þörfum þjóðarinnar, ef ekki þarf að fást við fjárhagsvanda frá fyrri árum og söluerfiðleika vegna eldri birgða.“

Þetta er meginatriði við flutning þessa frv. og varðandi þau úrræði sem nefndin lagði til að beitt yrði í þessu efni. Það er algerlega óskiljanlegt að láta sér það um munn fara, sem hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði áðan, að hér væri verið að koma óeðlilega á móti erfiðleikum sem bændur hafa orðið fyrir. Hann sagði í því sambandi, að það væru fleiri í erfiðleikum í landinu, svo sem láglaunafólkið, sem ekki gæti sent Alþ. reikning. Hvaða reikning hafa bændur sent Alþingi? Það væri kannske ekkert óeðlilegt að þeir hefðu gert það, því að það verðjöfnunargjald, sem þeir hafa orðið að taka á sig, lækkar vitaskuld beint tekjur þeirra sem nemur trúlega um 3/4 úr millj. á hvern bónda í landinu. Það er beint tekið af launum þeirra. Mér þætti það heldur ekkert óeðlilegt, þó að þeir, sem hefðu orðið fyrir slíku skakkafalli af öðrum launamannahópum í landinu, hefðu vakið athygli Alþingis á því, að úr því þyrfti að bæta. Það hefði ég talið mjög eðlilegt.

Í öðru lagi vil ég aðeins koma að því, sem er aðalefnið í sérstakri bókun minni á fundi harðindanefndar á síðasta starfsdegi hennar, 28. júlí s.l. Þar lagði ég til að Byggðasjóði yrði gert að leggja fram 1 milljarð kr. á ári að hámarki á næstu þremur árum til greiðslu þessarar viðbótarfjárveitingar ríkissjóðs.

Aðfinnslur hafa komið úr tveimur áttum um þetta frv. og þá fjármagnsráðstöfun sem hér er gert ráð fyrir: annars vegar um, að hér væri verið að skattleggja almenning vegna stuðnings við bændur, og hins vegar, að nú væri lagt til að taka það fjármagn af Byggðasjóði og, eins og hv. 2. þm. Vestf. sagði áðan úr þessum ræðustól, vafasamt væri að heimilt væri að ráðstafa fé Byggðasjóðs með þeim hætti. Ég er þeirrar skoðunar að Alþ. sé fullkomlega heimilt að ráðstafa fé Byggðasjóðs með þeim hætti. Það mundi vera auðvelt að rökstyðja að einmitt þessi stuðningur við bændur mundi verða til þess að viðhalda byggð í landinu þar sem hún er tæpust fyrir, en það er einmitt verkefni Byggðasjóðs að stuðla að því, að byggðin haldist og einkum þar sem henni er hættast að falla niður. Ég tel því að ekki sé vafa undirorpið að þetta falli undir eðlilegt starf Byggðasjóðs. — Fordæmi eru fyrir, eins og kom fram áðan í máli fyrsta flm. þessa frv., að fé Byggðasjóðs hefði verið ráðstafað af Alþ. Er þar skemmst að minnast ráðstöfunar til byggðalína við fjárlagagerðina 1978, ef ég man rétt, fyrir árið 1979.

Það, sem fyrst og fremst vakti fyrir mér með því að leggja þetta til, var að ég tel að í síðustu lög eigi að auka skattheimtuna til að auka samhjálp sem þessa fyrir bændurna í landinu. Þess vegna taldi ég að eðlilegt væri og sjálfsagt að reyna að brúa þetta bil með þeim hætti sem ég lagði til.

Ég vil einnig koma að því, að ekki hefur verið gert neitt til að kanna þær leiðir til frekari jöfnunar í þessum erfiðleikum sem ég lagði til í minni sérstöku bókun, og það var, hvort sláturleyfishöfunum væri ekki fært að koma hér til móts við bændur með því t.d. að endurgreiða hluta af þeim slátrunarkostnaði sem þeir höfðu innheimt, sem eru rúmar 300 kr. á kg af dilkakjöti, með því að fresta afskriftum um eitt ár og draga að nokkru úr viðhaldskostnaði sláturhúsanna. Mér vitanlega hefur ekkert verið gert til að kanna hvort slíkt væri fært. Það mætti segja mér að slíkt hefði ekki þurft að koma illa við sláturhúsin og jafnvel að þeirra staða væri sú á þessum tíma að það hefði verið þeim fært. En ekki var farið fram á það við þau. Það á sjálfsagt eftir að koma betur í ljós þegar uppgjör liggur fyrir frá þeim aðilum sem hér koma við sögu.

Hér var lítils háttar komið inn á að útflutningsdeild Sambands ísl. samvinnufélaga tæki umboðslaun af útflutningsbótunum. Ég benti á það sem vissa leið til að draga úr gjaldheimtu af bændum að athugað yrði hvort ekki væri unnt að fá afslátt af þessum umboðslaunum frá þeim, sem um málið fjallaði, eða þeim, sem flytja út. Mér vitanlega hefur ekki verið kannað hvort slíkt væri fært. Hins vegar geri ég ekki ráð fyrir að það mundi breyta stórum kostnaði við útflutninginn hvor aðferðin er notuð, að taka umboðslaunin af allri upphæðinni að útflutningsbótunum meðtöldum ellegar að leggja aðeins á söluverðið við útflutninginn. Hitt er annað mál, að ég er ákveðið þeirrar skoðunar, að ekki eigi að leggja á allt útflutningsverðið að bótunum meðtöldum, heldur á það verð sem fæst fyrir vöruna, þótt hún sé ekki nema hluti af raunverulegu verði. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að fara eigi inn á þá leið, vegna þess að hún gæti orðið hvati til þess að ná sem allra bestum árangri í útflutningi. En þegar útflutningsfyrirtækið veit fyrir fram hvað það fær mikið fyrir að flytja út vöruna, hvort sem það fær mikið fyrir hana á erlendri grund eða ekki, þá er það ekki hvati til þess að ná bestu niðurstöðu.