15.01.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

212. mál, beinar greiðslur til bænda

Iðnrh. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Vegna þál. þeirrar sem hér ræðir um var þess farið á leit við Búnaðarbanka Íslands, Landsbanka Íslands og Seðlabanka Íslands að þeir létu rn. í té tillögur um framkvæmd þál., þannig að hagsmuna bænda gæti orðið betur eða a.m.k. ekki síður gætt en í núv. rekstrar- og afurðalánakerfi. Svör Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands bárust í byrjun okt. á s.l. ári, en svar Seðlabankans barst fyrst í dag.

Svör viðskiptabankanna eru samhljóða. E.t.v. væri rétt að lesa t.d. bréf Landsbankans, en ég læt það þó bíða í bili.

Af svörum bankanna má ráða að þrátt fyrir að eðlismunur sé á afurðalánum, sem veitt eru með tryggingu í afurðabirgðum, og rekstrarlánum, sem veitt eru til að standa undir kostnaði við væntanlega framleiðslu afurða, sé óhjákvæmilegt að tengja þessi lán saman, þannig að afurðalánin greiði hin fyrri upp þegar þau koma.

Svo sem kunnugt er eru afurðalán veitt sláturleyfishöfum út á sauðfjárafurðir í birgðum 1. nóv. vegna nýlokinnar sláturtíðar til að gera þeim mögulegt að greiða bændum fyrir haustinnleggið. Þessi lán nema um 3/4 hlutum af kostnaðarverði afurðanna, háð ákvörðun seðlabankastjórnar. Í samstarfssamningi fyrrv. ríkisstj. var eftirfarandi ákvæði er varðar þetta mál. Það hljóðar svo:

“Rekstrar- og afurðalánum verði breytt þannig að bændur geti fengið laun sín greidd og óhjákvæmilegan rekstrarkostnað svipað og aðrir aðilar fá nú.“

Vegna þessa ákvæðis var skipuð nefnd um afurðarekstrarlán í landbúnaði í okt. 1978 til að fjalla um þessi mál. Nefndin skilaði áfangatillögum í nóv. sama ár, sem eru eftirfarandi:

1. Ætla má, að haustútborgun sláturleyfishafa til bænda geti numið 821/2–83% af haustgrundvallarverði með gildandi lánum og af eigin fé miðað við að full skil komi fyrir sölu afurða fyrir áramót. Því leggur nefndin áherslu á eftirfarandi atriði:

a) Uppgjör útflutningsbóta og niðurgreiðslna frá ríkissjóði á fullgildum reikningum taki breytingum frá því sem tíðkað hefur verið, þannig að fullgildir reikningar greiðist fyrir áramót.

b) Smásöluaðilum verði gert að greiða að fullu mánaðarlega úttekt eigi síðar en 20. hvers mánaðar eftir úttektarmánuð.

2. Undanfarin ár hefur ríkissjóður greitt niður vaxta- og geymslugjald af kindakjöti með því að greiða mánaðarlega áfallinn áætlaðan vaxta- og geymslukostnað fyrir hvert kg kjöts við sölu þess. Því hefur uppsafnaður kostnaður orðið verulega hærri þessum greiðslum á fyrri hluta sölutímabils og bundið fjármuni fyrir sláturleyfishöfum. Nefndin leggur til sem lið í að auka útborgunargetu sláturleyfishafa, að í stað þessa fyrirkomulags greiði ríkissjóður hverju sinni vaxta- og geymslukostnað kjötsins samkv. birgðum um hver mánaðamót.

3. Fram hefur komið sú hugmynd í nefndinni að hraða afgreiðslu á uppgjörslánum til sláturleyfishafa í samræmi við hærri útborgun og minni eftirstöðvar til uppgjörs hjá bændum. Ætla má að 5% hækkun útborgunarhlutfalls til bænda, úr 85% í 90% af haustgrundvallarverði mundi í heild svara til um 800 millj. kr. fjárþarfar þessa árs. Uppgjörslán í maí á næsta vori eru áætluð um 2 milljarðar kr. og þyrfti því að færa fram í desembermánuð um 40% áætlaðrar upphæðar til að gera mögulega 90% útborgun til bænda. Með því að útflutningsbætur greiddust af ríkisstj. að fullu fyrir áramót gæti það bætt stöðu bankakerfisins til jafnvægis viðbót útlánanna. Af hálfu Seðlabanka Íslands er þetta því aðeins talið fært að bankinn haldi sömu útlánum til þessa verkefnis að meðaltali yfir árið með lægri útlánastöðu til þess en ella á síðari hluta lánatímabilsins.

4. Stefnt skal að því að afurðalánin fylgi hækkandi einingarverði afurðanna vegna ársfjórðungslegrar verðlagningar landbúnaðarafurða. Það yrði gert með hækkun einingarverðs eða á annan hliðstæðan hátt, svo sem fjármögnun verðbótaþáttar vaxta, þannig að greiða þurfi eigi hærri vexti, á meðan sala afurðanna fer fram, en nemur vöxtum af verðtryggðum lánum.

Hér lýkur því sem tekið var upp eftir áfangatillögum nefndarinnar. Af þessu má ljóst vera að afurðalánin ein sér eru ekki einráð um hvaða skil sauðfjárbændur fá fyrir afurðir sínar á meðan niðurgreiðslur og útflutningsbætur eru jafnstór hluti verðmætisins og nú er. Við verðlagningu afurðanna er ekki reiknað með söfnun eigin fjár sláturleyfishafa til að standa undir fjármögnun við að greiða bændum fyrir afurðirnar, og það fé verður því að fást við sölu á afurðunum eða sem lán út á birgðir. Tillögur um formbreytingu á afurðalánum til landbúnaðarins, þar sem bændum væru greidd þau beint sem sá verðhluti sem sláturleyfishafarnir greiddu annars, hafa ekki komið fram. — Þetta var um afurðalánin.

Rekstrarlán. Í framkvæmdareglum um rekstrarlán til bænda frá Seðlabanka Íslands, dags. 20. apríl 1979, er gert ráð fyrir að bóndinn fái rekstrarlán gegn framvísun á vottorðum um bústofn og óafturkallanlegri ávísun á sláturleyfishafa á fyrsta úfborgaða andvirði afurðanna. Bóndinn átti að geta framselt þennan rétt sinn að nokkru eða öllu til verslunar eða annarra samtaka sem bankinn mæti gild. Falla mátti frá formlegu framsali bóndans á réttindum hans út á væntanlega slátrun. Í þessum reglum frá 1959 felast þeir möguleikar, sem um er rætt, og jafnframt það hefðbundna form, sem nú er almennt á orðið, að væntanlegur lántaki afurðalánanna, sláturleyfishafinn, annist lántökuna án formlegs umboðs.

Í svarbréfum bankanna eru tvær leiðir taldar koma til athugunar varðandi rekstrarlánin:

Í fyrsta lagi, að hver bóndi yrði lántakandi, hann yrði að uppfylla öll viðskiptaleg skilyrði banka og sparisjóða um tryggingar, sem fylgdi það verulegur kostnaður og vinna við lántökuna að tæplega væri fært. Jafnframt er talið æskilegt að lántakandi að afurðaláni, sem færi eftir rekstrarláninu, væri sá sami vegna samhengis lánanna.

Í öðru lagi, að sláturleyfishafar og umboðsmenn þeirra verði lántakendur líkt og verið hefur, en andvirði rekstrarlánanna mætti ráðstafa til bænda inn á reikninga þeirra samkv. skrá frá lántakandanum. Þannig væri tryggt að bóndanum bærust í hendur þeir fjármunir sem honum væru ættaðir til að fjármagna rekstur búsins þegar lánin væru veitt.

Beinar greiðslur á útflutningsbótum og niðurgreiðslum til bænda: Svo sem ljóst má vera eru niðurgreiðslur og útflutningsbætur samtvinnaðar afurða- rekstrarlánamálunum. Væru þær greiddar beint til bænda jafnóðum og framleiðslan fer fram eða við afhendingu afurðanna mundi það minnka rekstrar- og afurðalánaþörf landbúnaðarins, en jafnframt flýta greiðsluskyldu ríkissjóðs að sama skapi. Jafnframt mundi það grípa inn í verðlagsákvörðun á afurðum landbúnaðarins eftir því hvernig greiðslunum yrði hagað. Þessi mál hafa þó ekki verið athuguð enn nægilega niður í kjölinn, þar sem forsenda þeirra er að hreinar línur liggi fyrir um hvaða hátt á að hafa við verðlagningu búvaranna, en sem kunnugt er hefur verið rætt um breytingar þar undanfarið, en ekki komist að fastri niðurstöðu.