15.01.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

212. mál, beinar greiðslur til bænda

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. landbrh. fyrir þau svör eða öllu heldur þær upplýsingar sem hann hefur gefið.

Vissulega er þakkarvert að nokkur hreyfing skuli vera á þessu máli. Hins vegar verður ekki hjá komist að vekja á því athygli, að spurningunum sem slíkum er ekki svarað nema þá með óbeinum hætti. Það er alveg ljóst, að það er skylda ríkisstj. samkv. ákvörðun Alþingis að búa svo um hnútana að bændur fái þessa peninga refjalaust. Þannig hljóðar fyrri mgr. þál. Þetta hefur ekki verið gert, þrátt fyrir að fyrrv. landbrh., Steingrímur Hermannsson, lýsti því yfir, ef ég man rétt, í einu eða fleiri dagblöðum að bankarnir mundu þegar í stað beðnir um að koma með tillögur um hvernig þetta yrði framkvæmt.

Ég veit ekki hvenær þessi bréf hafa verið skrifuð Búnaðarbanka og Landsbanka, sem svarað var í októbermánuði, né bréf til Seðlabanka, sem svar barst við í gær eða dag eða hvenær það var nú, en a.m.k. hefur mikill seinagangur verið á þessum málum. Ég skal ekki ásaka sérstaklega núv. hæstv. landbrh. Hann hefur setið stutt og var ekki til þess ætlast að starfsstjórn gæti mikið gert, hún hafði ákveðnu verkefni að sinna. En hins vegar er það ámælisvert að fyrrv. ríkisstj. skyldi ekki sinna þessu boði og þessari skyldu sinni samkv. fyrirmælum Alþingis.

Um upplýsingarnar varðandi afurðalánin skal ég ekki ræða mikið, bæði er ekki tími til þess og eins hitt, að þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri þær upplýsingar og bollaleggingar bankanna og eins bollaleggingar ráðh. sem hann vafalaust hefur fengið frá einhverjum samtökum eða sérfræðingum eða embættismönnum og eru góðra gjalda verðar svo langt sem þær ná. En það er út af fyrir sig alveg rétt, að auðvitað verður að tengja þessi lán saman og rekstrarlánin verða að sjálfsögðu greidd upp þegar afurðalánin eru veitt. Það er einfaldasta mál í heimi. Raunar kom fram í bréfum bankanna að hægt væri að færa afgang afurðalánanna inn á bankareikning bændanna. Þetta er í sjávarútvegi þannig, að frystihúsin fá ekki lánin nema þau skuldbindi sig til þess að koma peningunum til útgerðarmanna og sjómanna innan hálfs mánaðar, hygg ég að það sé. Margar leiðir eru vel færar og auðveldar.

Það er alger fásinna, sem fram kemur rétt einu sinni í bréfum bankanna, sem eru samhljóða, — það er sjálfsagt einn og sami maðurinn eða eitt og sama fyrirtækið á Íslandi sem semur þau bæði, sendir bönkunum þau til útsendingar til Alþ., — en það er auðvitað alger fásinna að eitthvað dýrt eða erfitt sé í framkvæmd að koma rekstrarlánunum til eigendanna. Hvaða banki sem væri mundi mjög glaður vilja taka að sér að setja þetta fé inn á reikninga hjá sjálfum sér, þar sem það lægi lengri eða skemmri tíma, og fá viðkomandi menn í viðskipti. Það eitt, að bankarnir skuli senda samhljóða bréf, er náttúrlega mjög óviðurkvæmilegt, að þeir skuli ekki reyna hvor um sig að kanna þessi mál. En frammistaða bæði Landsbanka og Búnaðarbanka í öll þau ár, sem þetta mál hefur verið flutt, hefur verið með eindæmum. Það hefur ekki verið hlífst við að fara með rangt mál, vil ég segja, a.m.k. snúa út úr og reyna að gera málið miklu flóknara og erfiðara en raunin er á.

En sem sagt, þetta mál er á hreyfingu og yfir því gleðst ég. Ég sé að bankaráðsmaður í Búnaðarbankanum hefur kvatt sér hljóðs, og þess vegna vil ég endurtaka það sem ég sagði, svo að ekki ætti að fara á milli mála, að frammistaða þessara banka í þessu máli hefur verið með þeim hætti sem ég áðan lýsti, að það hefur ekki verið tekin jákvæð afstaða eða reynt að kanna málið niður í kjölinn eða reynt að greiða úr því. En Alþ. hefur tekið ákvörðunina og nú þýðir ekki fyrir bankana lengur að skjóta sér undan því að framkvæma vilja Alþ., því þó að bankarnir, og þá Seðlabankinn ekki síst, séu valdamiklar stofnanir, kannske um of, er Alþ. enn í dag þrátt fyrir allt og allt, þrátt fyrir það sem er að gerast þessar vikur, æðsta stofnun þessa lands og fyrirmælin eru héðan og þeim ber að framfylgja. Eftir því verður gengið svo lengi sem ég er hér a.m.k. og ég veit að mikill meiri hl. þm. er mér sammála um að láta þetta háttalag ekki lengur viðgangast, heldur að bankarnir hlýði skýlausum fyrirmælum Alþ., algerlega skýlausum, og framkvæmi það sem Alþ. hefur fyrir þá lagt, og það sama geri hver sú ríkisstj. sem situr á hvaða tíma sem er.

En ég vil endurtaka þakkir mínar til hæstv. ráðh. Hann hefur vafalaust ekki getað svarað öllu ítarlegar á þessu stigi, og ég ætlast ekki til þess að hann eða sú stjórn, sem nú situr, geti framkvæmt þetta mál. En því verður fylgt eftir, hvaða ríkisstj. sem verður við völd á næstunni.