15.01.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

57. mál, umboðsfulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Það hefur komið fram í umr. hér, að ráðningarnefnd ríkisins hafi heimilað að setja á stofn embætti umboðsfulltrúa dóms- og kirkjumrn. Í tilefni af því tel ég rétt að það komi fram, að þegar fjvn. er að störfum eða sá tími nálgast, að fjárlagafrv. kemur til umr., þá er það nær undantekningarlaus starfsregla ráðningarnefndar að meðhöndla beiðni frá einstökum rn. um nýjar stöður á þann veg að vísa erindunum til meðferðar fjvn., sem gerir till. til Alþingis um það, hvort fé skuli veitt til viðkomandi stöðu eða ekki. Slík afgreiðsla mála á sér jafnvel stað á öðrum tímum ársins, en er nær undantekningartaus regla þegar um er að ræða þann tíma sem fjárlög eru til umr. á Alþ. Ég tel því að við afgreiðslu ráðningarnefndar ríkisins á beiðni dómsmrn. um þetta starf nú í janúar, þegar fjárl. eru til afgreiðslu á Alþ., hafi viðtekin regla í afgreiðsluháttum nefndarinnar verið brotin.

Því hefur verið haldið fram við mig, og það kom hér fram í umr. áðan, að fyrir rn. hafi legið þær upplýsingar, að hæstv. svokölluð ríkisstj. hafi samþ. að stofna til þessarar stöðu og því, hvort um er að ræða ákvörðun fullgildrar ríkisstj., sem styðst við meiri hl. Alþingis og getur við afgreiðslu fjárl. tryggt fjárveitingu til viðkomandi stöðu, eða eins og í þessu tilfelli ákvörðun gerviríkisstjórnar, sem styðst einungis við 1/6 hluta alþm., og ekki hefur einu sinni verið haft samráð við aðra alþm. um málið. Ákvörðun slíkrar gervistjórnar getur síst af öllu verið tilefni til þess að víkja frá venjubundnum afgreiðsluháttum ráðningarnefndar á þeim tíma þegar fjárlagafrv. er til afgreiðslu á Alþingi.

Það má vera að hæstv. dómsmrh. eigi erfitt með að skilja þetta núna, en hann skildi þetta mætavel fyrir ríflega ári þegar hann fjallaði hér á Alþ., eins og hefur verið nefnt áður, um ráðningu í stöðu blaðafulltrúa ríkisstj. og sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta.:

„Kjarni málsins sýnist manni vera sá, að hér sé óskynsamlega að staðið, því að þótt heimild sé til slíkrar ráðningar hafði Alþ. ekki fjallað um þessa fjárveitingu og það er vitað mál, að í flokkum þeim, sem að ríkisstj. standa, höfðu menn ætlað sér einhverjir a.m.k. að mæla gegn þessari fjárveitingu.“ Og síðar sagði hæstv. dómsmrh.: „Ég vil leyfa mér að beina þeirri spurningu til fjmrh., hverju þetta sæti, hvers vegna er ráðist af þessari skyndingu í þessa embættisveitingu, hvers vegna ekki hafi verið beðið eftir umfjöllun Alþ. um fjárlagafrv., eins og vera ber.“

Það hefur oft verið sagt, að valdið spilli mönnum. Þessi orð hæstv. dómsmrh. fyrir ríflega ári og svo sú ákvörðun hans að stofna stöðu umboðsfulltrúa í dómsmrn. nú, án þess að leita til þingsins, sannar að þessi regla um spillingaráhrif valdsins gildir vissulega um hann. Það mátti svo sem búast við því, að þessi regla gilti um hæstv. núv. dómsmrh. og fyrrv. siðapostula þegar til kastanna kæmi, en ég hygg að fáir hafi búist við að hún sannaðist svo undrafljótt sem raun hefur orðið á.