15.01.1980
Sameinað þing: 12. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

11. mál, útibú frá Veiðimálastofnun

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Mig langar með örfáum orðum að lýsa yfir stuðningi við þau meginsjónarmið, sem komu fram hjá hv. flm. þessarar þáltill., og ræða aðeins um stöðu fiskræktar eins og hún horfir við í dag.

Enginn vafi er á því, að það þarf mjög að herða baráttuna að því er varðar bæði rannsóknir og tilraunastarfsemi við fiskrækt til þess að við náum þeim árangri sem allir virðast sammála um að keppa beri að. Það hafa verið miklir erfiðleikar samfara fiskræktinni hér, þeim tilraunum sem gerðar hafa verið. Þetta eru mjög miklir erfiðleikar, sem hafa orðið til þess að flestir þeir, sem reynt hafa við fiskirækt, hafa annaðhvort hreinlega gefist upp eða þá barist í bökkum árum saman og ekki getað framkvæmt hlutina með þeim hætti sem nauðsyn ber til. Þar kemur, eins og ég segi, til hvort tveggja í senn, reynsluleysi og eins fjárskortur. Það er oft svo í þessu þjóðfélagi, að það er kannske hægt að nurla saman peningum til að koma af stað einhverjum mannvirkjum eða smátilraunastarfsemi, en þegar á á að herða er ekki hægt að útvega fjármagn til að gera hlutina af neinu viti. Þess vegna hafa þessir erfiðleikar verið sem við þekkjum.

Að því er varðar beint till. þá sem til umr. er., þá finnst mér eðlilegt að hún komi til skoðunar í þeirri nefnd sem skipuð var á s.l. vori til að endurskoða lög um lax- og silungsveiði. Því miður hefur sú nefnd ekki verið kölluð saman fyrr en nú fyrir mjög skömmu, og hefur þar margt valdið að sögn formanns hennar. Það er að vísu leitt til þess að vita, að nefndin skyldi ekki hefja störf fyrr en nú um þessi áramót, en engu að síður hefur hún þó tekið til starfa og vonandi bera þau störf tilætlaðan árangur.

En þrátt fyrir alla þessa erfiðleika, sem ég hef nú verið að lýsa, má segja að við Íslendingar séum búnir að ná nokkuð góðum tökum á fiskeldi í ferskvatni, bæði laxeldi og eins hafa talsverðar tilraunir verið gerðar með sjóbirting og fisk þann sem nefndur hefur verið laxbirtingur, sem er blanda af laxi og sjóbirtingi, og þessar tilraunir allar lofa mjög góðu. Og það er ekki nokkur vafi á því, að slíkar tilraunir þarf að stunda um allt land, ekki minna en á einum stað í hverjum landsfjórðungi, og þess vegna er alveg sjálfsagt að vinna að því, að á Egilsstöðum — eða annars staðar á Austurlandi þar sem Austfirðingar teldu eðlilegast — rísi fiskeldisstöð. Ég held að heppilegast væri að slík stöð væri í tengslum við eða væri að verulegu leyti í eigu t.d. sveitarfélaga, eins og flm. nefndi, eða þá veiðifélaga og svo einstaklinga, en síðan nyti hún opinberrar aðstoðar með einhverjum þeim hætti sem niðurstaða verður um við endurskoðun laganna að heppilegast sé að koma þessu fyrir. Ég held að stöð, sem t.d. ríkið eitt ætti, mundi ekki ná sama árangri og þar sem áhugamenn væru einnig að verki og tengdir væru saman opinberir aðilar og áhugamenn.

Það má t.d. nefna það, að norður í Skagafirði hafa nokkrir áhugamenn verið með litla fiskræktarstöð. Það hefur verið sama baslið hjá þeim og okkur öllum hinum sem að þessum höfum unnið, þar til nú að þeir hafa náð nokkuð góðum tökum á því að koma upp laxi þar og horfur eru allgóðar og fjárhagur sæmilegur. Þetta er að vísu mjög lítið fyrirtæki, og þarna hafa menn, eins og alls staðar annars staðar, lagt fram vinnu sína meira og minna gefins og lagt fé af mörkum án þess að búast við endurgjaldi, a.m.k. fyrst í stað. En þarna fyrir norðan eru einnig að gerast mjög merkir hlutir, því að á s.l. ári var stofnað hlutafélagið Hólalax, sem aðsetur hefur á Hólum í Hjaltadal, með verulega miklu hlutafé sem fyrst og fremst kom frá veiðifélögunum í Húnavatnssýslum og Skagafjarðarsýslu. Og það ánægjulega gerðist, að meiri eftirspurn var eftir hlutafénu en upphaflega var út boðið, þannig að skammta varð mönnum leyfi til þess að skrifa sig fyrir hlutafé. Svo mikill áhugi var í þessum héruðum, þar sem veiðiskapur er mikill, sérstaklega í Húnavatnssýslunum. Og það voru ekki síður Húnvetningarnir, sem þátt tóku í þessu, en Skagfirðingarnir.

Þetta fyrirtæki á að vera í tengslum við Bændaskólann á Hólum og þar er hugmyndin að verði kennsla í fiskeldi. Þetta gæti mjög ýtt undir það, að Hólastaður og Bændaskólinn á Hólum mundu eflast, og er raunar ekki vafi á því, því að margir ungir menn munu leita sérmenntunar í þessari grein nú alveg á næstu árum. Ber þar margt til. Í fyrsta lagi verður þarna um að ræða arðvænlegan rekstur innan fárra ára, það er ég sannfærður um. Í öðru lagi er mikið talað um aukabúgreinar og að offramleiðsla sé í landbúnaði — sem er að vísu kannske ekki núna, en mikið hefur verið um það rætt undanfarin ár, og þá er auðvitað ekkert sem liggur beinna við í öllum sveitum landsins, hygg ég, en fiskrækt af einhverju tagi, ýmist silungsrækt, bæði klakhús og eldishús og svo síðast en ekki síst sjóræktunin, því að fjölmargar jarðir liggja að sjó þar sem skilyrði til fiskræktar virðast vera hin ákjósanlegustu. Og þar höfum við Íslendingar einmitt dregist mjög aftur úr. Við höfum enga sjóeldisstöð, þótt þær muni vera orðnar einar 400 talsins í Noregi t.d., og það geta ekki liðið mörg ár þar til menn sjá að það er einmitt sjóeldi sem við eigum nú að leggja áherslu á, og þá koma auðvitað til margháttaðar tilraunir. Og við skulum gera okkur grein fyrir að því fylgja erfiðleikar alveg eins og verið hafa við fiskeldi í ferskvatni. Við megum búast við að það taki okkur nokkur ár að ná tökum á þessu.

Það ber ekki að vanmeta, að nokkrir aðilar hafa þegar gert tilraunir í sjó, m.a. á Austurlandi. Þeir hafa orðið fyrir óhöppum. Fiskifélagið hefur gert tilraunir nú fyrir nokkrum árum og aftur nú í ár t.d. Sú tilraun, sem nú er gerð, sjóeldi úti í Höfnum, virðist ætla að bera góðan árangur. Það er ekki vafi á því, að sjóeldi á mikla framtíð fyrir sér, en kannske meiri sunnan- og vestanlands og syðst á Austfjörðum heldur en norðanlands, nema þar sem heitt vatn er. Og einmitt norðanlands er mjög mikið af heitu vatni víða. Þar sem hægt er að hita sjóinn upp að vetrarlagi er auðvitað alveg ljóst mál að um gífurlega framtíðarmöguleika getur verið að ræða. Hins vegar er það svo hér sunnanlands, að þar fer sjávarhiti kannske um hávetur ekki niður fyrir 4–5 gráður, en getur t.d. í Noregi, og það jafnvel nokkuð sunnarlega í Noregi, komist niður undir frostmark. Jafnvel þótt jarðhiti sé ekki notaður virðast vera miklir möguleikar á sjóeldi hér á Íslandi. En það getur auðvitað riðið algerlega baggamuninn, hvort unnt er að nota jarðhitann. Ef svo færi, að við gætum komið upp nokkrum stórum s jóeldisstöðvum, t.d. 2–3 í hverjum landsfjórðungi eða eitthvað í þá áttina, sem framleiddu nokkur hundruð tonn hver, og svo einnig minni stöðvum, sem framleiddu kannske 2–3 tonn, sem er verulegt verðmæti, ef það væri einstaklingur sem ætti það og gæti rekið, þá gæti hann lifað af slíkri stöð, — þá er auðvitað hægt að skapa þar mjög mikið útflutningsverðmæti.

Um þetta erum við búnir að vera að tala nú í ein 15 ár. En það hefur ekki bara verið talað. Það hafa verið margir hugsjóna- og áhugamenn sem að þessu hafa unnið, en hafa því miður, eins og ég sagði áðan, orðið fyrir stórfelldum skakkaföllum og eru flestir eða allir meira og minna að gefast upp. Nú er ekki lengur nóg að tala um þetta mál, og þess vegna ætla ég að fara að stytta mál mitt. Það verður að fara að gera eitthvað. Og einmitt það sem ég sagði áðan, að sameina öfl með svipuðum hætti og gerðist fyrir norðan, í Skagafirði og Húnavatnssýslum, það held ég að væri heppilegasta leiðin fyrir Austfirðinga, Vestfirðinga og hverja aðra sem að þessu vilja vinna. Svo koma einstaklingarnir auðvitað með lítil klakhús, lítil eldishús og taka sig saman um að rækta upp stærri eða minni ár. Og það er auðvitað ekki vansalaust, að við skulum sleppa hér í íslensku árnar kannske eitthvað á annað hundrað þúsund seiðum. Það er hægt að margfalda afrakstur ánna á Íslandi með því að vinna skipulega að þessu og með miklu meira og stórfelldara átaki. Við höfum þegar fasteignir tilbúnar til þess að rækta kannske eina milljón seiða eða eitthvað slíkt. Þær eru meira og minna óstarfræktar vegna þess að menn hafa gefist upp. Þeir hafa ekki fengið fjármagn til þess að standa undir kostnaðinum við eldið. Það er eins með þennan landbúnað og annað, að þetta er geysilega seint að skila afrakstri og þarf mjög mikið fé til að koma bústofninum upp. M.a. hafa erfiðleikarnir stafað af því.

Þetta mál var til umr. hér í þinginu í fyrra, og í Ed. náðist samstaða um að styrkja Fiskræktarsjóð með 900 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði á næstu fimm árum. Því miður var það fyrir slysni, að það frv. fór ekki í gegnum Nd. Þetta var í önnum síðustu dagana. Nú þarf að taka þetta mál upp aftur. En þar sem endurskoðunarnefnd laganna hefur nú hafið störf er kannske eðlilegast að ræða málin þar fyrst. En mín skoðun er sú, að þessu þingi megi ekki ljúka öðruvísi en einhver ákvörðun verði tekin í þessu máli, ekki bara þál. eða umr., heldur beinar ákvarðanir. Og það er nú einu sinni svo, að það þarf fjármagn til að koma hlutunum fram, og þess vegna þurfum við að sameinast um það að finna með einhverjum ráðum leiðir til þess að styrkja þessa atvinnugrein fjárhagslega, þó að miklir erfiðleikar séu í íslenskum fjármálum.

Mín skoðun er sú, að þær stöðvar, sem fyrir eru og allar eiga í miklum erfiðleikum, sumar framleiða bókstaflega ekkert eða svo til ekkert og eru að gefast endanlega upp, þær mundu styrkjast ef aðrar stöðvar risu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það verði mjög margir staðir sem fiskrækt fer fram á, vegna þess að við erum alltaf að verða fyrir slysum. Þegar slys verður á einum stað er hægt að fá smáfiskinn eða hrognin annars staðar frá, og þessar stöðvar styðja hver aðra, en eru ekki í samkeppni. Það er misskilningur sem sumir halda fram, að þeir, sem eru að bjástra við fiskræktina, vilji helst sitja sem mest að henni einir. Það held ég að sé algerlega fráleitur hugsunarháttur, vegna þess að þegar við hefðum kannske 20–30 fiskeldisstöðvar — svo að ég tali nú ekki um 1–3 hundruð, sem þær mjög vel gætu verið, stórar og smáar — þá styrkja þær að sjálfsögðu mjög hver aðra. Og þó að við færum út í sjóeldi í stórum stíl, þá er engin ástæða til að ætla að verð á laxi eða sjóbirtingi mundi lækka við það. Miklu frekar má búast við að útflutningsverðmæti yrði enn þá meira á hvert kg, vegna þess að það er nú einu sinni svo, að það er erfiðara á þessum stóru mörkuðum erlendis að selja lítið magn og óstöðugt en ef hægt er að bjóða verulegt magn og stöðuga afgreiðslu, t.d. daglega afgreiðslu á svo og svo miklu magni af fiski og það allt árið um kring, líka um háveturinn, þegar hvergi er ferskan fisk að fá annars staðar, þar sem eldi eða vöxtur liggur niðri um háveturinn vegna kulda. Ef við gætum á okkar stöðvum, sumum hverjum a.m.k., hitað upp með jarðhitanum og sameinast síðan um sölu, þá ætti að vera hægt að fá jafnvel miklu hærra verð en ef magnið er lítið.

Ég er sannfærður um það og tala þar af nokkurri reynslu, ég hef verið utan í þessu, ef ég má orða það svo, í 10 ár eða rúmlega það, og ég er sannfærður um það núna — sem ég var ekki þegar ég fór í það meira í rælni eða af vináttu við þá hugsjónamenn sem að því unnu — að þetta er framtíðin. Það er hægt að gera þarna stórmikla hluti. Þess vegna styð ég það eins og ég get, að Austfirðingar verði aðstoðaðir með einhverjum hætti og allir þeir sem út í þennan atvinnuveg vilja fara eða reyna að fara, og við eigum að hvetja til þess að það verði sem allra flestir.