17.12.1979
Neðri deild: 3. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

8. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú mælt nokkur orð með því frv., sem hér liggur fyrir, og gat þess, að markmiðið með því væri að sporna við gegndarlausri fjárfestingu í verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Ég vil halda því fram, að þetta sé alrangt hjá hæstv. ráðh. Þetta er skattur á fasteignir, sem eru þegar nýttar fyrir verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Hæstv. ráðh. virtist rugla saman nýbyggingarsjóðsgjaldi og þeim skatti sem hér er rætt um. Þetta gjald er til viðbótar þeirri álagningu sem heitir nýbyggingargjald.

Herra forseti. Sá sérstaki skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, sem greiða skal til ríkissjóðs samkv. þessu frv., er að mínu viti afar ranglátur. Hann skal greiða af stofni til sérstaks eignarskatts sem er fasteignamatsverð í árslok 1979. Þessi sérstaki skattur skal nema 1.4% af þessum fasteignamatsstofni, eins og hann verður í árslok, og er áætlað að hann nemi um 1500 millj. kr., 1.5 milljörðum, á árinu 1980.

Ég vil benda hv. þm. á þá staðreynd, að fyrirtæki eiga almennt í miklum rekstrarfjárvanda og íþyngjandi skattar af því tagi sem hér um ræðir eru gjaldþoli flestra, sem skattinn eiga að greiða, um megn. Almennt eru fyrirtæki veikt upp byggð vegna fjársveltis og ef taka á af þeim meira en sanngjarnt er í ríkishítina, þá endar það með lokun fyrirtækjanna og þar með er atvinnuöryggi þeirra, sem við þessi fyrirtæki starfa, stefnt í voða. Ég mótmæli þessari skattlagningu sem ákaflega óréttlátri, en mun þó greiða atkv. með því, að frv. þessu verði vísað til n., í von um að þar hljóti það gaumgæfilega athugun sem vonandi verður til þess að n. geti orðið sammála um að þennan óréttláta skatt beri að leggja niður og að n. að lokinni þeirri athugun telji viturlegt að mæla ekki með áframhaldi á þessari skattpíningu.

Á árinu 1979 nam þessi skattur samtals 1030 millj. kr. eða rúmum milljarði samkv. skattskrá 1979. Það eru upplýsingar sem koma fram í aths. með þessu frv. Það er ekki endalaust hægt að skattpína eða mergsjúga fyrirtæki, hvorki með endursamþykkt tímabundinna laga, þegar þau falla úr gildi, né með nýjum álögum. Ríkissjóður má ekki endalaust verða óseðjandi. Menn verða að gefa athafnalífinu nokkra möguleika til bjargar. Það verður ekki gert með því að draga eigið fé fyrirtækja í æ ríkari mæli út úr arðbærum rekstri inn í ríkishítina. Ég vil segja við ykkur, hv. alþm., gefið fyrirtækjunum og atvinnurekstrinum lífsvon, dragið úr kostnaði við ríkisreksturinn. Þetta eru kosningaloforð flestallra, ef ekki allra stjórnmálaflokkanna. Fækkið sköttum, lækkið skatta og dragið úr kostnaði. Það er þjóðarhagur.