16.01.1980
Neðri deild: 18. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

65. mál, greiðsla opinberra gjalda 1980

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta mál. Það er eðlilegt að frv. sé fram komið, þar sem innheimtukafla vantar í gildandi skattalög, nr. 40/1978, og einnig af þeirri ástæðu, að ljóst liggur fyrir að það frv., sem nú er til meðferðar hjá hv. fjh.- og viðskn. um breytingu á skattalögum, mun ekki ná fram að ganga í tæka tíð þannig að hægt verði að innheimta eftir þeim lögum fyrirframgreiðsluna nú.

Ég vil láta þess getið, að þingflokkur Sjálfstfl. hefur fjallað um þetta mál að beiðni hæstv. fjmrh. Þingflokkurinn mun veita atbeina sinn til þess að frv. nái fram að ganga í þessari viku. Það er ljóst að ef svo verður ekki mun hljótast af mikill vandi, einkum þó fyrir sveitarfélögin.

Þingflokkurinn er sammála um að styðja þá innheimtuprósentu sem hér er gerð till. um, 65% af þinggjöldum síðasta árs til ríkisins. Það var ekki rætt sérstaklega á fundi þingflokksins um þá tillögu sem gerð er í 4. gr. frv. um að sveitarfélögin fái heimild til að innheimta 70% af útsvari, en ég vil lýsa yfir stuðningi mínum við þá till. þar sem ekki gegnir alveg sama máli um sveitarfélögin og ríkissjóð, eins og hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir.

Ég vil láta þess getið, að einstakir þm. hafa aths. að gera við 3. gr. frv. sem fjallar um dráttarvexti. Um það atriði ætla ég ekki að ræða sérstaklega. Það kemur eflaust til umr. í hv. fjh.- og viðskn.

Þetta vildi ég láta koma hér fram, herra forseti.