17.12.1979
Neðri deild: 3. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

8. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í þessari umr., sem er 1. umr. um áframhaldandi skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, er hér um að ræða framlengingu á sams konar gjaldi sem lögfest var á Alþingi í desember s.l. Það er fróðlegt að athuga þær umr. sem þá fóru fram um þetta mál, en þar kemur fram í ræðu þáv. hæstv. fjmrh., Tómasar Árnasonar, að tilgangurinn var m.a. að koma í veg fyrir svokallaðan verðbólgugróða í þjóðfélaginu. Með þessum hætti og reyndar öðrum, sem fram komu þá í frv.-formi, var bent á að með skattlagningu á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og með nýbyggingargjaldi væri hægt að skattleggja svokallaðan verðbólgugróða í þjóðfélaginu. Hér er á ferðinni gífurlegur misskilningur, því að auðvitað er fyrst og fremst um það að ræða með þessum hætti að kynda undir verðbólgu, því að augljóst er að fyrirtækin hafa aðeins eina leið til að svara þessari skattpíningu og það er að velta þessum aukna kostnaði út í verðlagið, enda hafa tvær síðustu ríkisstj., sú sem nú situr og reyndar sú sem á undan var, verið ötular við að veita slíkar verðhækkanir, eins og dæmin sanna og síendurtekin verðbólgumet sýna.

Það er þess vegna ástæða til þess, þegar við 1. umr. þessa máls hér, að kanna ítarlega hvort við eigum að endurnýja þetta frv. Ég er þó ekki með þessu að segja að það sé ástæða til að greiða atkv. gegn málinu hér við 1. umr. Það er sjálfsagt að kanna það í n. En nú þegar held ég að ástæða sé til að spyrja hæstv. fjmrh. hvernig á því standi, að í fyrra var áætlað að 550 millj. kr. fengjust með þessari skattheimtu, en inn koma yfir 1000, eins og kemur fram í aths. við lagafrv. þetta. Það er nefnilega ástæða til þess, þegar maður sér slíkar tölur, að kanna hvernig skattar verða til og hvernig svindlað er sköttum inn á þjóðina.

Auðvitað er það rétt, að besta ráðið til að koma í veg fyrir verðbólgugróða er að höggva að rótum verðbólgumeinsins og reyna að ná verðbólgunni sjálfri niður. Ég hélt að hæstv. fjmrh. væri fremur þeirrar skoðunar heldur en að vera sífellt að auka skattlagninguna. Það er íhugunarefni, að fyrsta frv. sem hann mælir hér fyrir til samþykktar á þessu þingi, skuli vera frv. sem hann og hans flokksmenn á sínum tíma reyndu að tefja þar til niðurstöður um fjárlagafrv. væru komnar. Á því þingi, þ.e.a.s. fyrir jól í fyrra, var þetta frv. til umr. og þá var það notað af hálfu Alþfl. til þess að knýja fram svör samstjórnarflokka hans við ákveðnum spurningum er vörðuðu efahagsstefnu næstu ára. Það svar fékkst reyndar ekki fyrir þau jól að neinu ráði, en fjárlagafrv. fór í gegn engu að síður. Þegar líða tók á vorið var síðan komin efnahagsstefna. Hún var samþ. af öllum stjórnarflokkunum með þeim árangri, að eftir sumarið sprakk stjórnarsamstarfið. Nú kemur sá aðili, sem sprengdi það stjórnarsamstarf, og leggur fram þær till. sem hann mótmælti í fyrra að yrðu lagðar fram fyrr en fjárlagafrv. hefði verið samþ. á grundvelli efnahagsstefnu sem hann tæki þátt í. Það er vissulega ástæða til þess að fá hæstv fjmrh. til að skýra þessa breyttu afstöðu um leið og hann gerir grein fyrir því, hvernig á því stendur að tekjurnar af þessari skattheimtu eru helmingi meiri en gert var ráð fyrir þegar þessum nýja skatti var komið á laggirnar á sínum tíma.