17.01.1980
Efri deild: 19. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

65. mál, greiðsla opinberra gjalda 1980

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ekki ágreiningur um þetta frv. að stefnu til. Auðvitað er heppilegt og æskilegt að greiðstu opinberra gjalda sé dreift sem jafnast yfir árið. Ég verð að harma að menn skuli ekki hafa reynst þau karlmenni hingað til að koma á þeirri skipan, sem hér hefur æ ofan í æ verið samþykkt að á skyldi komið, að taka upp staðgreiðslu skatta eða samtímagreiðslu skatta, eins og það hefur verið kallað.

En þó að menn séu að sjálfsögðu sammála um frv. að stefnu til getur verið álitamál hvaða skattprósentu á að setja sem fyrirframgreiðslu. Ég álít að nægilegt hefði verið í þessu tilfelli að setja 60% í staðinn fyrir 65%. Þau rök, sem ég vil færa fram fyrir þeirri skoðun, eru að í aths. með frv. segir að ef fyrirframgreiðslan væri miðuð við sama hlutfall skatta af tekjum og síðari hluta árs þyrfti fyrirframgreiðslan að vera 62%. 62% eru náttúrlega nær 60% en 65%. Þess vegna hefði mér þótt nægilegt í þessu tilfelli að fara í 60%.

Ég bæti því við sem annarri röksemd, að á fyrri hluta ársins er um tilfinnanlega gjaldheimtu að ræða, svo ekki sé meira sagt, aðra en þá sem hér er um að tefla, og á ég þá við fasteignagjöld til sveitarsjóða. En það er öllum kunnugt, og margir hafa sjálfsagt fengið álagningarseðla fasteignagjalda a.m.k. hér í Reykjavík, að vegna m.a. stórhækkaðs fasteignamats hafa fasteignagjöldin stórlega hækkað. Ef ég man rétt eru gjalddagar á þeim 15. jan., 1. mars og 15. apríl. Þá verður á sama tímabili og þessi skattheimta fer fram að standa skil á fasteignagjöldum. Það er um engan veginn einskisverðar fjárhæðir að tefla þar sem um fasteignagjöldin er að ræða. Ég gæti vel ímyndað mér að ýmsir skilvísir skattgreiðendur teldu að það væri með þessari skattheimtu, 65% fyrirframgreiðslu plús fasteignagjöldunum, seilst nokkuð djúpt í vasa þeirra þannig að þeir teldu sig kannske hafa lítið út á grautinn þegar þeir væru búnir að greiða allt þetta.

Ég vil í þriðja lagi benda á það sem röksemd fyrir því að taka ekki dýpra í árinni en heimila 60%, að afkoma ríkissjóðs var sem betur fer mjög góð um s.l. áramót, eins og hæstv. fjmrh. hefur réttilega gert grein fyrir í ágætri ræðu hér á þingi. Sú útkoma kom mér ekkert á óvart, og ég held að sú útkoma hafi ekki sérstaklega skapast fyrir tilverknað hæstv. núv. fjmrh. En þrátt fyrir að deilt sé um það og það kunni að hvíla nokkrar vanskilaskuldir á ríkissjóði haggar það ekki þeirri heildarniðurstöðu sem fyrir hendi er, og hún er að afkoma ríkissjóðs er góð.

Að þessu leyti til get ég fallist á að það sé réttmætt að gera greinarmun á ríkissjóði og sveitarfélögunum. Við vitum að þó að hagur ríkissjóðs sé góður er hagur margra sveitarfélaga heldur bágborinn, að sagt er. Þess er líka að gæta, að það hámark, sem þarna er sett varðandi innheimtu á gjöldum til sveitarfélaga, er 70%. Er á valdi hverrar sveitarstjórnar hvort hún fer í það hámark eða ekki og fer slíkt væntanlega eftir þörfum hvers og eins sveitarfélags og hvernig á stendur.

Í fjórða lagi vil ég nefna, að mér sýnist í meira samræmi við þær skoðanir á skattamálum hjá Alþfl., sem ég hef kynnst til þessa, að miða við 60% í staðinn fyrir 65%. Það er væntanlega líka í samræmi við fjárlagafrv. hæstv. fjmrh.

Ég hef talið rétt við 1. umr. málsins að benda á þessi atriði. Ég geri það í mikilli vinsemd, og ég veit að það er vænlegast til þess að fá lagfæringu til hagræðis fyrir skilvísa skattgreiðendur að snúa sér til hæstv. fjmrh. og fá hann til að beita sér fyrir breytingum í þá átt sem ég hef verið að gera grein fyrir. Auðvitað ætlast ég líka til að hv. fjh.- og viðskn. deildarinnar taki þessi atriði, sem ég hef reynt að benda á í stuttu máli, sem rök fyrir því að það ætti ekki að ganga lengra en ég hef gert grein fyrir. Ég vænti þess að hún taki þau til skoðunar. Hitt hef ég ekki gert upp við mig enn, hvort ég flyt brtt. varðandi þetta atriði, en ég vildi a.m.k. láta sjónarmið mín koma fram.

Það er svo, að þegar allt kemur til alls eiga skilvísir skattgreiðendur e.t.v. tiltölulega fáa formælendur. Mér hefur stundum virst að meira væri hugsað til annarra en þeirra sem standa undir sköttunum og standa skilvíslega skil á sínum álögðu gjöldum. Ég vil í því sambandi vekja athygli á því, að reglur um fyrirframgreiðslu gjalda, þinggjalda eins og segir í frv., — og þinggjöld eru vissulega gott og gamalt heiti, en hvort það á raunverulega við um alla þá skatta, sem settir eru á álagningarseðil, skal ég ekki dæma um, — þessar reglur eiga við um alla gjaldendur. Þær eiga ekki aðeins við um fastlaunamenn, heldur alla gjaldendur, jafnt einstaklinga sem fyrirtæki. Þannig skil ég þetta ákvæði. Ég held að ekki sé nokkur leið að skilja það á annan veg, en ágætt væri að f•á staðfestingu hæstv. fjmrh. á því. En það hvarflar að mér að vera muni einhver misbrestur á framkvæmd þessarar innheimtu, bæði fyrri hluta árs og síðari. Ég hef a.m.k. ekki komist hjá að veita athygli þeim miklu auglýsingum sem dynja yfir landslýð síðustu daga hvers árs, bæði frá fjmrn. og sveitarsjóðum, þar sem menn eru minntir á að greiða gjöld sín fyrir áramót. Ég hef ekki heldur komist hjá því að taka eftir að með ódæmum vænar fúlgur koma t.d. inn í ríkissjóð allra síðustu daga ársins, jafnvel síðasta eða næstsíðasta dag ársins. Af því dreg ég þá ályktun, að það hljóti að vera einhverjir sem ekki hafi fylgt ákvæðum um greiðslu opinberra gjalda í framkvæmd. Mig langar til að heyra skýringu hæstv. fjmrh. á þessu. Ef þessu ákvæði er í reynd aðeins beint gegn fastlaunamönnum, en ekki t.d. fyrirtækjum og öðrum, finnst mér menn ekki sitja við sama borð. Þá verð ég að segja að framkvæmdin í þessu efni er nokkuð gloppótt.

Það er að vísu í sambandi við skattamál, þ.e.a.s. beina skatta, mikil tortryggni hjá mönnum, þannig að fastlaunamenn þykjast verða nokkuð hart úti í þeim viðskiptum, en horfa kannske á nágrannann, sem öðruvísi er ástatt um, og svo ýmis fyrirtæki sem virðast með einhverjum hætti fara betur út úr þessu. Um efnisreglur skatta ætla ég ekki að ræða hér, það bíður betri tíma þegar sjálft skattafrv. kemur til meðferðar, en ég óska eftir því að fá staðfestingu hæstv. fjmrh. á því, að eitt eigi hér yfir alla að ganga og að því sé og skuli vera fylgt í framkvæmd og það sé engin miskunn hjá Magnúsi í því efni. Þangað til ég fæ nánari skýringar kemst ég ekki hjá því að álykta sem svo, að einhvers staðar sé einhver pottur brotinn í þessu efni.

Þetta voru þau atriði sem ég vildi benda á. Það er engin ástæða til að fara út í harðar umr. um þau, því að eins og ég sagði er skattprósentan, sem á að vera í fyrirframgreiðslu, álitamál og það er ekki hægt að færa nein óvéfengjanleg rök fyrir því að hún skuli vera einmitt þessi, en ekki hin. En ég vil skírskota til sanngirni og réttsýni hæstv, fjmrh. og þeirra sjónarmiða, sem komið hafa fram af hans hálfu og annarra flokksmanna hans um að íþyngja mönnum ekki óhóflega í þessu efni að þarflausu, og leyfi mér enn að vænta þess, að hann taki ábendingum mínum með fullri vinsemd, eins og þær eru fram settar, af því að ég sé ekki annað en ríkissjóður muni komast af með að láta sér nægja 60% og ef þeirri skattastefnu verður fylgt fram, sem hann vill beita sér fyrir, muni það ekki verða ívið þyngra síðari hluta ársins.

Svo vildi ég í leiðinni, úr því að ég er staðinn upp, benda á eitt atriði, sem mér sýnist vera hæpið, og það er í 3. gr. þar sem segir:

„Séu gjöld samkv. lögum þessum eigi greidd innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti“ o.s.frv.

Ég sé ekki að í þessu frv. séu ákvæði um nein opinber gjöld. Ákaflega skiljanlegt er hvernig þetta ákvæði hefur komist inn. Það er tekið upp úr eldri lögum, var kafli í skattalögunum og átti þá auðvitað við og átti að standa svona. En eins og frv. er nú úr garði gert og þetta er orðið sérstakt frv. um innheimtu, þá finnst mér að einfaldlega ætti að standa, að séu greiðslur samkv. 1. gr. ekki inntar af hendi innan mánaðar o.s.frv. ætti að vera svo sem þar stendur. — Ég vænti þess, að hv. n. taki þetta til athugunar, vegna þess að mér finnst þarna vera um atriði að ræða sem geri frv. merkingarlaust, ef eftir bókstafnum væri skilið.

Þá vil ég enn fremur aðeins víkja að þeirri breytingu sem var gerð á frv. í hv. Nd. og fjmrh. vék reyndar nokkuð að og taldi að e.t.v. væri ekki um mikinn mun að tefla. Þó kom fram í máli hans að þarna er um talsverðan mun að ræða, þar sem eftir núgildandi lögum og þeim reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til, hefur verið heimilt að telja allan ógreidda skattinn fallinn í gjalddaga ef ekki er staðið í skilum skilvíslega með einstakar greiðslur. Það má vera að einhvers misskilnings gæti hjá mér í þessu efni, en mér sýnist sú breyting, sem gerð hefur verið á þessu, stefna í öfuga átt við tilgang frv., þ.e. að stuðla að skilvíslegri og sem skilvirkastri innheimtu og úrræðum til að fá menn til að greiða skatta sína og skyldur á réttum tíma. Það má vera, eins og ég sagði, að ég misskilji þetta eitthvað. Eitt er víst að hv. fjh.- og viðskn. Nd. hefur orðið sammála um þetta. En jafnvel þó að n. verði ásátt um eitthvað hefur komið fyrir að ekki hefur það allra besta út úr því komið.

Ég tel sjálfsagt að þetta frv. fái afgreiðslu og ég skal ekki tefja tímann frekar nema tilefni gefist til. En ég vil ítreka það, að þó að ég flytji ekki brtt. varðandi þetta vil ég að sjónarmiðin, sem ég hef hér sett fram, liggi fyrir og að hæstv. fjmrh. og hv. fjh.- og viðskn. fái tækifæri til að taka afstöðu til þeirra.

Ekkert er við því að segja að menn borgi háa skatta, ef réttlætissjónarmiðs er gætt og hið sama gengur yfir alla. En því miður er ríkjandi mikil tortryggni í þeim efnum og er talið, að ég ætla með réttu, að ærið margir sleppi gegnum nálaraugu skattheimtunnar betur en vera ætti. Það er alltaf markmiðið og margendurtekið í samþykktum á hvers konar þingum að gera eigi skattalög einfaldari. Enn er á ferðinni og liggur fyrir hv. Nd. frv. til nýrra skattalaga eða endurbóta á skattalögunum. Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að fara að ræða efnislega um skattalög. En hvað sem um þau verður sagt held ég að þau stefni ekki í þá átt að gera skattamál einfaldari en þau eru þó nú eða hafa verið hingað til. Þess vegna er það nú svo, að í reyndinni reynast býsna margar smugur fyrir menn til að komast með löglegum hætti hjá því að leggja fram sitt til samfélagsins, fyrir utan hina sem kannske sleppa einhvern veginn með ólögmætum hætti.