17.01.1980
Efri deild: 19. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

65. mál, greiðsla opinberra gjalda 1980

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég á sæti í þeirri n. sem fær þetta mál til umfjöllunar, þannig að ég þarf ekki að gera miklar aths. nú. Þó vil ég ekki láta hjá líða að fara nokkrum orðum um þá fullyrðingu hv. 5. þm. Reykv. að ríkissjóður stæði svo vel um þessar mundir að ekki væri ástæða til að taka jafndjúpt í árinni með fyrirframinnheimtu og gert er ráð fyrir í þessu frv. (ÓlJ: Ég hafði góðan heimildarmann). Hv. þm. bar fyrir sig hæstv. fjmrh. í þessu efni. Það mun rétt vera hjá honum, að hæstv. fjmrh. hefur gert nokkuð úr því að staða ríkissjóðs sé góð um þessar mundir. En ég hef fyrir framan mig tölur frá ríkisbókhaldinu, sem við fengum í hendur í hv. fjvn. fyrir nokkrum dögum, og þar blasir við önnur mynd en bæði hæstv. fjmrh. og hv. 5. þm. Reykv. hafa haft orð á.

Staða ríkissjóðs við Seðlabankann versnaði samkv. þessum tölum um hvorki meira né minna en 11,5 milljarða á árinu 1978. Það var aðallega vegna þess að gerðar voru ráðstafanir seinni part ársins 1978 af þáv. ríkisstj. sem hún gerði sér grein fyrir að mundu hafa hallarekstur ríkissjóðs í för með sér á því almanaksári. Síðan var ætlun þeirrar hæstv. ríkisstj. að á árinu 1979 mundi hallinn og skuldasöfnunin hjá ríkissjóði jafnast út, og átti því að skila inn í Seðlabankann ótöldum milljörðum kr. á árinu 1979 vegna hallarekstrar sem beinlínis var stefnt að á árinu 1978. Raunin varð sú, og það stendur hér fyrir framan mig í tölunum frá ríkisbókhaldinu, að staða ríkissjóðs versnaði heldur á árinu 1979. Ef allt dæmið er gert upp og tekið með í reikninginn, sem er þó ekki gert í ríkisbókhaldinu, að verðbótaþáttur lána sé allur reiknaður með, hefur staða ríkissjóðs við Seðlabankann á árinu 1979 versnað enn frá því sem hún gerði á árinu 1978 um 2,5 milljarða kr. eða því sem næst. Sem sagt hefur staða ríkissjóðs við Seðlabankann versnað á s.l. tveimur árum um 14 milljarða kr.

Það er hins vegar rétt í máli hæstv. fjmrh., að á sérstökum reikningi í Seðlabankanum er jákvæð staða um áramótin, en aðrar skuldir hafa aukist þeim mun meir við Seðlabankann. Það er svolítið andkannalegur málflutningur að halda því fram, að ef maður á inni á ávísanareikningi um áramót, sé staða hans mun betri þó að hann hafi aukið skuldir sínar miklum mun meira á öðrum sviðum. Það hefur hæstv. fjmrh. gert. Hann er að hæla sér yfir innstæðu á reikningi, en hana hefur hann fengið fram með því að auka skuldir ríkissjóðs á öðrum sviðum.

Sem sagt hefur staða ríkissjóðs því miður versnað mjög, bæði á árinu 1978 og 1979, eða því sem næst um 14 milljarða kr. Ég skal ekki hafa lengra mál um þetta, en um þetta eru til óyggjandi opinberar tölur sem ekki þarf um að deila.

Glöggir menn hér í hv. d. hafa bent á eitt atriði sem ég geri að till. minni að hv. fjh.- og viðskn. athugi í þessu frv. 1 3. gr. er rætt um að greiða skuli ríkissjóði dráttarvexti, en í frv. kemur hvergi fram að greiða skuli sveitarsjóðum dráttarvexti ef ekki er staðið í skilum við sveitarsjóði með fyrirframinnheimtu útsvara. Þetta þarf sjálfsagt að athuga nánar. Ég vona að þetta sé ekki rétt athugað hjá okkur, en það yrði alveg nýr háttur ef ætti að greiða ríkissjóði dráttarvexti af vanskilum við sveitarsjóði. Þetta þarf því að athuga nánar.