17.01.1980
Efri deild: 20. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

65. mál, greiðsla opinberra gjalda 1980

Frsm. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. N. gekk fljótt til verks og boðaði á sinn fund Jón G. Tómasson, formann Sambands ísl. sveitarfélaga. Rakti hann meðferð sína og sambandsins á óskum um hlutfall fyrirframgreiðslu. Var það mat hans að sú upphæð, sem tilgreind er í 4. gr. frv., 70% eigi að nægja flestum sveitarfélögum, þótt einstaka sveitarfélög hefðu talið þörf á að upphæðin væri nokkru hærri. Miðað við þá útreikninga, sem lagðir eru til grundvallar, var ekki gerlegt að hans dómi að fara með upphæðina miklu hærra en hér er tilgreint. Í ljósi þeirra upplýsinga, sem fram komu hjá Jóni G. Tómassyni, formanni Sambands ísl. sveitarfélaga, telur n. því ekki rétt að leggja til breytingu á 4. gr. frv.

Jafnframt er n. þeirrar skoðunar, eftir að hafa kynnt sér bæði þá siðvenju sem hefur tíðkast, lög um innheimtu sveitarfélaga og enn fremur vilja hæstv. fjmrh., að það ákvæði í 3. gr. frv. sem var gert að umræðuefni af hv. þm. Lárusi Jónssyni, að dráttarvaxtagreiðsla kynni e. t. v. að ná eingöngu til ríkissjóðs, sé afdráttarlaust, það sé tvímælalaust bæði samkv. lögum, vilja fjmrh. og siðvenju að sveitarfélögin fái einnig sinn hlut hér af.

Varðandi þá aths., sem hv. þm. Ólafur Jóhannesson flutti varðandi 3. gr., hvað séu gjöld samkv, lögum þessum, þá má vissulega spyrja hvað hér sé við átt samkv. orðanna hljóðan. Við erum samt sem áður þeirrar skoðunar, að með sérstöku tilliti til þeirra umræðna, sem fram hafa farið hér í þinginu um þetta frv. og aðdraganda þess, eigi í reynd að vera ljóst, hvað hér sé átt við, og einnig með tilvísun til 1. gr. frv. Við teljum þess vegna ekki ástæðu til að breyta 3. gr., með sérstöku tilliti til þess að það mundi tefja afgreiðslu málsins hér á þingi fram yfir helgi.

Í ljósi allra þessara atriða og einnig þess til viðbótar, þó að það hafi ekki verið rætt sérstaklega í n., en það er þá mín persónulega skoðun, að þeir efahyggjumenn, sem eru sjálfsagt margir til í þinginu um fjárhagsstöðu ríkissjóðs um þessar mundir, eigi e.t.v. að fá að hafa vaðið aðeins fyrir neðan sig samkv. dómi hæstv. fjmrh. og fjmrn. varðandi 65% regluna, þá taldi n. ekki rétt að flytja brtt. um það atriði.

Á þessum grundvelli, sem sjálfsagt mætti hafa mörg fleiri orð um, leggur n. til á þskj. 100 að frv. verði samþykkt óbreytt.