21.01.1980
Neðri deild: 21. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

39. mál, óverðtryggður útflutningur búvara

Flm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég mun ekki hafa hér mjög langt mál. En í sambandi við það, sem hæstv. fjmrh. sagði áðan, er það mjög mikill misskilningur að lögin um forfallaþjónustu eigi nokkuð við í sambandi við orlof bænda. Þau eiga eingöngu við um sjúkdóms- og slysatilfelli, þegar þannig vill til, en engan veginn við orlof bænda. Ég man ekki betur en lögin séu þannig, að þau eigi að taka gildi á næstu tveimur árum. Ég vænti þess, að hvaða ríkisstj. sem situr láti þau lög taka gildi eins og til er ætlast.

Ráðh. talaði um að vandi í landbúnaði væri af tvennum toga spunninn, annars vegar af góðæri, eins og hann komst að orði, og hins vegar af harðæri. Ég held að menn geri sér yfirleitt ekki ljóst hvers vegna sá vandi er, a.m.k. ekki eins og hv. þm. o.fl. tala um þessi mál. Vandinn felst fyrst og fremst í því að verðbólgan innanlands hefur orðið langtum meiri en í viðskiptalöndunum og það á örfáum árum. Á 5–6 árum er það þannig, að t.d. fyrir dilkakjötið okkar, sem við fengum fyrir yfir 80% fyrir 5–6 árum, fáum við ekki nema ca. 35% núna. Það er ekki vegna þess að það þurfi að flytja meira út en áður, alls ekki. Það er m.a.s. misskilningur að hlutfallslega þurfi að flytja meira út núna en t.d. um eða fyrir 1960. Þá þurfti að flytja út um 35–36% af framleiðslunni, en framleiðslan var þá miklu minni að vísu, hún var 10 þús.

tonn. Þá þurfti að flytja út um 3400–3500 tonn, bæði 1958 og 1959. — Vandi okkar er einmitt vegna þess að aðrar þjóðir eru að berjast við verðbólgu innanlands og greiða framleiðslu sína niður. Við verðum síðan að keppa á erlendum mörkuðum við niðurgreiddar afurðir þeirra. Hvort það breytist á næstunni vitum við ekki, en vandamálið er fyrst og fremst af völdum verðbólgu.

Mér þóttu það tíðindi og vil lýsa ánægju minni yfir því, sem ráðh. sagði, að hans álit væri að það kæmi vel til greina, vegna þess hvernig ástandið er, að greiða tímabundið meira í útflutningsbætur en lög nú leyfa. En hann ræddi enn fremur um að það þyrfti þá að reyna að gera ráðstafanir til þess að slíkt yrði ekki varanlegt ástand. Það er í raun og veru það sem er verið að reyna að gera.

Bændasamtökin báðu fyrir mörgum árum um löggjöf, þar sem bændasamtökin gætu stjórnað eða reynt að stjórna framleiðslunni. Alþ. hefur ekki orðið við þeirri beiðni fyrr en á s.l. ári, og má enginn halda að slíkt aðhald skili árangri eins og hendi sé veifað. — Í sambandi við sauðfjárframleiðsluna hlýtur að segja sig sjálft, að ef verður farið í að fækka verulega kemur eitthvert árabil meira kjötmagn á markaðinn þess vegna. Þess vegna er óumflýjanlegt að bæta eitthvað við útflutningsbætur á meðan verið er að aðlaga framleiðsluna þeirri stöðu sem er varðandi sölu landbúnaðarvara á erlendum mörkuðum.

Ég held að það sé ekki alveg rétt að flytja þurfi út 40%, jafnvel 50% af framleiðslunni. Ef við tökum framleiðsluna eins og hún er eins og hún er í heild er það mjög ýkt. En ég ætla ekki að fara út í þá sálma hér, því að ég tel meira áríðandi að frv. komist til n. og reynt verði hvort ekki væri hægt að fá samstöðu í landbn. um afgreiðslu þess.

Ég kemst þó ekki hjá því að svara með nokkrum orðum því sem hv. 2. þm. Norðurl. v., Pálmi Jónsson, sagði áðan um það sem hann var að gagnrýna, það sem hefði komið fram í minni framsöguræðu. Hann talaði mikið um ónákvæmni í málflutningi mínum. Mér fannst honum þó verða ansi mikill fótaskortur þegar hann fór að ræða þessi mál sjálfur.

Hvort þessi nefnd hefði verið skipuð síðustu dagana í maí eða fyrst í júní, 5. júní, var annað atriðið sem hann ræddi um í þessu sambandi. Í mínum huga skiptir það ekki meginmáli. Ég hef ekki aðstæður til að sannreyna hvort heldur er, en það skiptir engu máli í þessu sambandi.

Hins vegar sagði hv. þm., að ég hefði sagt að það hefði komið 1000 tonnum meira af kjöti af fullorðnu á markað í haust en í fyrra. Til þess að það fari ekkert milli mála, hvað ég sagði, hef ég hér ræðuna eins og hún er vélrituð eftir mér. Og með leyfi forseta sagði ég m.a. um þetta:

„En þá var í lok verðlagsársins, eins og áður sagði, verulegt magn af vörum sem ekki verður komist hjá að flytja út. T.d. voru til 1227 tonn af ostum, verulega meira magn en á sama tíma á árinu áður, 375 tonn af kjöti af fullorðnu, og í haust var slátrað um 34 þús. meira af fullorðnu en árið áður, og er því nú um þúsund tonnum meira af kjöti af fullorðnu en var í fyrra, sem ekki er markaður til fyrir hér innanlands.“

Ég held að ef maður leggur 375 tonn við 660 eða 670 tonn komi út sú tala sem ég var að tala um og þarna gæti ekki ónákvæmni eins og hv. þm. sagði.

Hann sagði að ef fengist hefði samstaða á síðasta hausti um þessi mál hefði málið getað fengið afgreiðslu.

Þetta er alveg rétt hjá honum. En var það á mínu valdi? Voru það framsóknarmenn sem vildu rjúfa þingið eða er hv. þm. að halda því fram að hægt hefði verið að afgreiða málið þingrofsdaginn? Raunar fékk ég aldrei neitt svar — það var sannleikurinn — frá Sjálfstfl. um þetta mál. Ég beið nokkra daga, eins og ég sagði, og það þurfti að fara fyrir þingflokkinn, og ég held að það hafi komið upp, þó að ég sé ekki í þingflokki sjálfstæðismanna, svipuð staða og var stundum um þessi málefni í fyrravetur, að það hafi verið erfitt að ná niðurstöðu.

Ég ætla ekki að greina frá því, hvað fór á milli þegar ég ræddi þetta mál í síðasta sinn við hv. þm. o.fl. í Sjálfstfl., enda mundi það ekki bæta fyrir að fá samstöðu um lausn málsins.

Þm talaði um að frv.-drögin, sem ég hefði komið með fyrst til að sýna þeim hv. þm., hefðu verið fáránleg. Ég held að breytingin hafi orðið ákaflega lítil á frv., eftir því sem ég man best, þannig að hafi það verið eitthvað fáránlegt hlýtur það að vera svo enn í þeirra augum.

Hv. þm. segir að það hafi verið kátlegt hvernig ég hafi ráðist á hæstv. landbrh. í þessari umr. Mér þótti vænt um að blóðið skyldi renna honum til skyldunnar að verja núv. hæstv. landbrh. Hann finnur að hann ber ásamt öðrum þm. Sjálfstfl. verulega ábyrgð á þessari ríkisstj. og finnur sig knúinn til að verja hana.

En ég var að ræða um lánakjörin, um Bjargráðasjóð og um þá stöðu. Það er illt til þess að vita að hv. 2. þm. Vestf. er hér ekki staddur. Það hafa fallið hér orð um að hann hafi ekki reynt að koma málum Bjargráðasjóðs í skaplegt horf. En eins og hv. 5. þm. Austurl. sagði áðan lagði fyrrv. landbrh. til allt önnur kjör á þessum lánum en brbl. hljóða um. Hann lagði til að lánin yrðu ekki með verðtryggingu.

Sú nefnd, sem hefur verið kölluð hér harðærisnefnd nr. eitt, nefndin sem hv. þm. Pálmi Jónsson segir að hafi verið skipuð 5. júní, lagði tvennt til sem ég er alls ekki sammála og mun ekki verða, og það er í fyrsta lagi að taka fjármuni til að greiða þessa 3 milljarða úr Byggðasjóði og í öðru lagi að lána úr Bjargráðasjóði með fullri verðtryggingu. Þetta voru tillögur hennar. Ég lít á Bjargráðasjóð fyrst og fremst sem tryggingasjóð í neyðartilvikum. Ég gat um það í máli mínu þegar ég flutti framsögu fyrir þessu máli, að t.d. bændur borga iðgjöld í sjóðinn, 0.35% af allri framleiðslu sinni. Ef á að fara að lána t.d. út úr Bjargráðasjóði með verri kjörum en nokkurn tíma úr öðrum sjóðum, t.d. Byggðasjóði, eins og þarna er lagt til og brbl. hljóða upp á, tel ég málið vera nokkuð öfugsnúið og þá sé ég enga ástæðu til þess að bændur séu látnir borga iðgjöld í sjóðinn. Ég gat ekki heyrt annað á hv. þm. Pálma Jónssyni en hann væri mér þar andvígur, þó það kæmi ekki glögglega fram. Ég er á því að breyta eigi lögum um Bjargráðasjóð á þann veg að efla sjóðinn, að hækka iðgjöld til hans frekar en að hafa svipuð kjör og eru í öðrum lánasjóðum, af því að hann er fyrst og fremst neyðar- og tryggingasjóður. Ef meiri hl. Alþ. er aftur á móti annarrar skoðunar á að hætta að innheimta iðgjöld t.d. af bændum til sjóðsins.

Ég kom inn á fleira í máli mínu. T.d. hljóðar b-liður í 9. gr. bjargráðasjóðslaganna þannig, að sjóðurinn hafi heimild til að aðstoða bændur ef þeir verði fyrir verulegri tekjuskerðingu. Ég tel að í sumum sveitum þessa lands hafi orðið það veruleg tekjuskerðing á síðasta ári að skilyrðislaust eigi að nota þessa heimild þótt það hafi ekki verið gert fyrr. En það verður auðvitað ekki gert öðruvísi en að fá fjármagn. Og ég ætla að endurtaka það sem ég sagði þegar ég mælti fyrir frv., að ég tel ekki vansalaust af Alþ. að taka ekki upp þessi mál og reyna að styrkja Bjargráðasjóð og reyna að finna leiðir til að koma þeim til hjálpar sem verst eru settir út af harðindunum. Það eru t.d. þeir sem byggja afkomu sína að mestu leyti á kartöflurækt. Þeir höfðu ekki tekjur í fyrra. Þeir höfðu útgjöld, en ekki tekjur. Ég benti á það í máli mínu enn fremur, að ef það verður aflaleysi, hleypur Aflatryggingasjóður undir bagga og borgar launin. Það er ekki lán, hvað þá lán með fullri verðtryggingu eða lán með vöxtum. Hvernig er það þegar fólk tapar atvinnu sinni? Það fær um 80% af venjulegu dagvinnukaupi. Það er ekki heldur lán. En ef hv. þm. telja að það sé maklegt, þegar bændur verða fyrir stórfelldu tjóni, að þeir verði alveg tekjulausir, eins og er í mörgum tilvikum eftir s.l. ár, og þeir fái annaðhvort enga aðstoð eða sé boðið upp á lán með 22% vöxtum eða verðtryggingu, þá er það a.m.k. ekki það sama og öðrum stéttum þjóðfélagsins er boðið. En því miður lagði harðindanefnd nr. eitt til að kjörin yrðu þessi vegna fóðurkaupa veturinn 1979.

Ég ætla svo að láta þetta duga. Ég vona að þetta mál komi til n., og ég vona að þó að menn séu ekki á einu máli um hvernig eigi að leysa vandann finnist lausn sem þurfi ekki að taka langan tíma, — lausn sem kemur að því gagni sem til er ætlast.