22.01.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

217. mál, kaup og sala á togurum

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. En ég verð að segja það, að ég er ekki nógu fljótur að átta mig á þessum lestri öllum, en mér finnst margt athyglisvert við þessar upplýsingar, og ráðh. endar mál sitt á því, að sögusagnir og aðdróttanir í sambandi við skrípakaup væru með öllu ósæmilegar og ástæðulausar.

Ég viðurkenni það, að ég er ekki sérfræðingur í að versla erlendis. En ég fæ ekki skilið hvernig hægt er að fara og kaupa skip án þess að fá nokkurs staðar fyrirgreiðslu. Ég skil það ekki. Og ég vil spyrja hæstv. ráðh. hvort honum finnist ekkert athugavert við það eða hvort athugað hafi verið hvernig þetta getur skeð. Það kann að vera að til séu skýringar sem komu þá ekki fram í hans máli. Mér skilst að þarna sé um að ræða kaup á nokkrum skipum. Í einu tilvikinu, í sambandi við Ými — það hefur þá farið fram hjá mér ef það hefur verið — kom ekki fram að það hafi verið látið skip í staðinn fyrir Ými. Mér skildist, ef ég hef tekið rétt eftir, að í hinum tilvikunum báðum hafi það verið gert. Hér hlýtur að vera um miklar upphæðir að tefla. Geta menn farið til annarra landa, hver og einn, og keypt skip án þess að hafa einhverja ábyrgð frá stjórnvöldum? Það væri gaman að fá þetta upplýst.

Ég man ekki betur en að í sambandi við togarakaupin í Neskaupstað væri um að ræða bæjarábyrgð, sem tekið var fram í fréttum, kannske misminnir mig þetta. En að segja að þetta sé með öllu ástæðulaust, án þess að þetta sé þá upplýst frekar en hæstv. ráðh. gerði, það vil ég ekki viðurkenna.

Mismunur á því að selja afla erlendis eða vinna hann hér heima virðist skipta verulega miklum upphæðum eins og þarna er talið. Það var annars vegar rúmir 11 milljarðar, sem fékkst fyrir að selja aflann erlendis, en með því að vinna hann hér heima fengjum við eftir þessum tölum ekki mikið fyrir vinnuna. Ég skil þetta ekki. Það kann að vera, að mikið eða eitthvað af þessum afla séu fisktegundir, sem eru erfiðar í vinnslu, og það sé skýringin á einhverju af þessu, en þetta eru athyglisverðar upplýsingar í meira lagi, ef réttar reynast.

Ég tók ekki eftir því — það kann að vera að ég hafi ekki heyrt það — en ég tók ekki eftir að hæstv. ráðh. nefndi Rán í Hafnarfirði í þessum lestri. Sá togari er gerður út, að mér er tjáð, af sama fyrirtæki og Ýmir, og mér er sagt — ég veit það ekki og spyr því að því, hvort hann hafi ekki líka selt mjög mikinn afla erlendis. Það kemur kannske fram seinna í dag eða þá síðar í sambandi við söluna á Dagnýju, en í máli hæstv. ráðh. var ekki getið um þá sölu til Hafnarfjarðar, sem átti sér stað fyrir áramót.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að ræða þetta frekar. En ég sé ástæðu til að óska mjög eftir upplýsingum um þetta tvennt og skýringum á því, hvort sem ráðh. getur það nú eða síðar, hvernig það megi vera, að við fáum langtum meira fyrir fiskinn með því að selja hann óunninn á erlendum mörkuðum, og enn fremur um það, hvort ég gæti farið út í lönd og keypt skip og þurfi ekki að gera grein fyrir hvernig ég fari að því.