22.01.1980
Neðri deild: 22. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

68. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., um útflutningsgjald af sjávarafurðum, og það mál, sem er næst á dagskránni, um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, eru hvort tveggja viðfangsefni sem eru nátengd ákvörðun fiskverðs. Þó eru þessi mál minni háttar í samanburði við þau stórmál sem fyrst og fremst tengjast ákvörðun fiskverðs, þar sem er annars vegar ákvörðun um olíugjald og hins vegar ákvörðun um gengi íslensku krónunnar.

Eins og öllum má vera ljóst hefur íslenskt efnahagslíf verið í miklum vítahring á undanförnum árum, og væntanlega er það vilji allra flokka að við reynum að brjótast út úr þeim vítahring. Það hefur verið skoðun Alþb., að grundvallaratriði í þeim tilgangi að brjótast út úr þessum vítahring sé að breyting verði á stefnunni í gengismálum og unnt verði að hægja verulega á því sífellda gengissigi sem verið hefur um nokkurra ára skeið. Sannleikurinn er auðvitað sá, að hið látlausa gengissig er eins konar fíknilyf útflutningsatvinnuveganna og þetta fíknilyf verður að taka frá atvinnuvegunum fyrr en síðar. Ég vil því leggja áherslu á það hér að mjög þýðingarmikið er að við ákvörðun fiskverðs nú verði reynt að komast hjá gengissigi eða gengisbreytingu eins og nokkur kostur er.

Hins vegar er ekki neinn ágreiningur um þá meginstefnu, að sjálfsagt verður ekki hjá því komst, að fiskverð hækki eitthvað, og jafnframt er eðlilegt að olíugjald verði lækkað. Olíugjaldið helst þó e.t.v. enn um sinn, þótt vissulega hefði verið æskilegast að það hafði verið algerlega afnumið, því að enn um sinn verður sjálfsagt óhjákvæmilegt að reyna að létta útgerðinni róðurinn vegna þess mikla olíukostnaðar sem á útgerðarrekstur hefur fallið. Það virðist því jafnframt nokkuð eðlileg stefna að reyna að lækka útflutningsgjaldið úr 6% í 5.5%, þannig að unnt sé með öðrum hætti að koma til móts við útgerðina, og jafnframt virðist eðlileg ráðstöfun að halda uppi verðjöfnun á fisktegundum, eins og gert er ráð fyrir að framkvæmt verði með nýjum hætti samkv. því frv. sem verður næst á dagskrá.

Ég vil nú skjóta því að í framhjáhlaupi, að eitthvað finnst mér það einkennileg málkennd hjá þeim mönnum, sem hér hafa starfað og hafa fundið nafn á deildina, að nefna hana aflajöfnunardeild, því ekki er mér kunnugt um að til standi að jafna afla milli eins eða neins. (Gripið fram í: Milli tegunda.) Það er ekki meiningin að jafna aflanum milli tegunda. Það hlýtur að felast í því röng hugsun. Það er auðvitað ósköp einfaldlega verið að jafna verðinu, það er verið að verðjafna milli tegunda. Þess vegna hlyti deildin að heita verðjöfnunardeild ef hún ætti að standa undir nafni eða nafnið að vera í samræmi við tilgang hennar. En þetta er að sjálfsögðu aukaatriði málsins. Ég held að hitt sé aðalatriðið, að verðjöfnun af þessu tagi á fyllsta rétt á sér. Það er frekar spurning hvort koma á á framtíðarskipulagi með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Markmiðið er vafalaust rétt: að reyna að dreifa sókninni frá ofnýttum stofnun í þær fisktegundir sem fremur þola auknar veiðar.

Það er óvenjulegt ástand í íslenskum stjórnmálum um þessar mundir. Við búum við starfsstjórn sem hefur sagt af sér og enginn meiri hluti á Alþ. vill kannast við. Þegar slíkt ástand er ríkjandi er meiri nauðsyn en nokkru sinni fyrr að Alþ. hafi frumkvæði og forustu á þessu sviði sem öðrum. Það hlýtur því að falla í hlut deilda Alþingis og sjútvn. að marka þarna ákveðna stefnu, þar sem enginn ákveðinn þingmeirihluti er fyrir hendi. Við slíkar aðstæður er alveg sérstaklega nauðsynlegt að þm. fái í hendur öll gögn og upplýsingar sem mál varða. Verð ég að kvarta yfir því í þessu sambandi, að öll gögn málsins skuli ekki liggja fyrir nú þegar og að þau skuli ekki hafa legið fyrir löngu fyrr, því að afskaplega erfitt er að meta einn eða tvo aukaþætti málsins þegar aðalatriði þess liggja eftir og upplýsingar skortir. Ég vil því eindregið hvetja hæstv. ráðh. til að senda sjútvn., sem fær þetta mál til meðferðar, allar upplýsingar og gögn um ákvörðun fiskverðs nú þegar, þannig að menn geti búið sig undir að marka stefnuna í þessum málum.

Það bar á góma áðan, hvort ekki væri orðið tímabært að núv. hæstv. ríkisstj., eins og hana ber að nefna samkv. þingsköpum, legði fram lánsfjáráætlun, sem enn þá sést ekki enda þótt lög kveði á um að slík áætlun skuli lögð fram jafnhliða fjárlagafrv. Ég verð að segja eins og er, að ég er mjög hikandi við að taka undir slíka umkvörtun, vegna þess að ég lít á þessa stjórn sem gervistjórn, eins og til hennar var stofnað í upphafi, hef aldrei gert til hennar miklar kröfur og vænti þess, að hún hverfi frá völdum sem allra fyrst. Satt best að segja undra mig hinar tíðu tiltektir þessarar stjórnar til að leika alvörustjórn, sem hún að sjálfsögðu er ekki. Hún er gervistjórn og formlega séð starfsstjórn. Mér finnst t.d. heldur hjákátlegt ef hæstv. fjmrh. er með áform uppi um að halda hér virðulega og stórbrotna fjárlagaræðu og fá umr. um fjárlagafrv. í framhaldi þess, þótt vissulega geti enginn komið í veg fyrir að slík ræða sé flutt ef hann á þá ósk heitasta. Það virðist sem sagt fullkomlega óeðlilegt að það ástand, sem nú er ríkjandi, að gervistjórn sé hér við völd, verði varanlegt, og hætta er á því, ef hér fer fram fjárlagaumr. með venjulegum hætti, að þá séu menn að ýta undir að það ástand haldi áfram sem nú er. Auðvitað verður þjóðin og landið að fá nýja stjórn og það alvörustjórn. Hitt er rétt og ég vil taka undir það, að ef svo fer að fjmrh. ætlar að halda fjárlagaræðu og gerir það, sem vel má vera að verði innan tíðar eftir því sem manni skilst, ber honum að sjálfsögðu að framfylgja settum lögum og leggja þar jafnhliða fram lánsfjár- og fjárfestingaráætlun.