23.01.1980
Neðri deild: 23. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

62. mál, meðferð opinberra mála

Dómsmrh. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, fjallar um breytingu á ákvæðum um sektaheimild lögreglumanna og lögreglustjóra. Sektaheimildir þessar eru samkv. núgildandi lögum bundnar við 7000 kr. að því er varðar lögreglumenn og 60 þús. kr. að því er varðar lögreglustjóra. Fjárhæðir þessar, sem bundnar eru við tiltekna málaflokka, brot á umferðarlögum, áfengislögum, lögum um tilkynningar aðsetursskipta og lögreglusamþykktum, hafa staðið óbreyttar frá árinu 1976. Vegna verðlagsþróunar undanfarin ár er nauðsynlegt að hækka fjárhæðir þessar.

Sú skipan að afgreiða mál með lögreglusekt hefur gefið góða raun og léttir verulega starfi af dómstólum. Með frv.þessu er lagt til að sektaheimildir lögreglumanna hækki í 30 þús. kr. og sektaheimild lögreglustjóra í 300 þús. kr. Jafnframt felst í frv. ákvæði er mundi heimila lögreglustjóra að ákveða, auk sektarákvörðunar, eignaupptöku vegna brota sem sektaheimildin nær til, enda fari verðmætið eigi fram úr 100 þús. kr. Með þessari heimild verði lögreglustjóra mögulegt að ljúka með sektargerð ýmsum smámálum sem nú þurfa að fara fyrir dómara, einkum málum er varða meðferð áfengis. Hér er um að ræða hliðstæða heimild og tollyfirvöld hafa haft um árabil.

Eins og áður segir hafa sektargerðir þessar gefið góða raun og létt verulegu starfi af dómstólum. Hins vegar er svo um hnúta búið, að máli verður ekki lokið með þessari aðferð nema aðili samþykki. Ef hann samþykkir ekki þessa málsmeðferð verður máli vísað til meðferðar dómstóla.

Herra forseti. Ég hef þá rakið meginefni frv. þessa. Ég legg til að að lokinni umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.