23.01.1980
Neðri deild: 23. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

58. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við þetta að bæta öðru en því að ég vil undirstrika að ég fæ ekki séð að þetta nauðsynjamál, sem, það er að útvega fjármagn til jöfnunar á raforkuverði, þurfi að fara í gegnum Byggðasjóð og Framkvæmdastofnun. Ég fæ ekki séð að það sé nein ástæða til að gera Byggðasjóð að afgreiðslustofnun, eins og ég hef sagt, í þessu efni.

Hvað varðar ræðu hv. þm. Friðjóns Þórðarsonar var margt athyglisvert í því sem hann sagði. Það er rétt, að orðið hefur nokkur breyting í stjórn Byggðasjóðs varðandi hugmyndir um hvernig ráðstafa skuli fé sjóðsins. Ég hef lengi átt sæti í sjóðsstjórninni og hef reynt að beita mér af megni gegn því, að úthlutunarreglunum verði verulega breytt frá því sem löngum hefur verið, og ég fellst á það með hv. þm. Friðjóni Þórðarsyni, að það er ákáflega óeðlilegt að svo komnu máli a.m.k. Ég sé ekki annað en það verði löng bið þangað til rök verða fyrir því að fara að veita fé úr Byggðasjóði inn á mesta þéttbýlissvæði í landinu. Þetta er alveg augljóst mál, um það erum við sammála. Samt sem áður held ég að við megum ekki gera of mikið úr þessu. Sannleikurinn er sá, að þróunin hafði verið smám saman í þá átt að farið var að veita fé til margs konar hluta hér á þéttbýlissvæðinu, t.d. til útgerðarinnar. Það var farið að veita næstum því alveg jafnt til útgerðar hér á þéttbýlissvæðinu og til annarra staða. Það eina, sem eftir var, var iðnaðurinn. Má vel vera að þegar svo var komið hafi ekki um það munað þó að reglunum yrði breytt með þeim hætti sem gerðist ekki alls fyrir löngu.

Hins vegar væri ástæða til að ræða starfsemi Byggðasjóðs miklu nánar og í hvaða farveg það starf hefur fallið. Það er hverju orði sannara, sem hér hefur komið fram, að Byggðasjóður hefur víða komið til liðs við uppbygginguna í landinu og úti um landsbyggðina. En ég held því miður að að sumu leyti hefði sú starfsemi mátt falla í dálítið annað far en verið hefur. Það er að sjálfsögðu gert ráð fyrir að Byggðasjóður sé til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, en jafnframt gert ráð fyrir að á vegum Framkvæmdastofnunarinnar séu gerðar ýmsar byggða- og landshlutaáætlanir, og það hefur vissulega verið gert. En gallinn við áætlunargerðina er fyrst og fremst sá, að sáralítið hefur verið gert til að framkvæma á grundvelli áætlananna, þ.e. að gera framkvæmdaáætlanir sem væru byggðar á þess háttar áætlanagerð. Þetta held ég að sé höfuðágallinn á starfsemi Byggðasjóðs þau ár sem hann hefur starfað. Ég held að það sé mikið hugleiðingarefni fyrir þá, sem stjórna Framkvæmdastofnuninni og Byggðasjóði og áætlunardeildinni, að fara meira út á þá braut að gera landshlutaáætlanir og síðan skynsamlegar framkvæmdaáætlanir, beinar og „konkret“ áætlanir, og leggja þeim áætlunum fjármagn eins og til þarf. Mér finnst vera eðlilegra að ræða um starfsemi Byggðasjóðs á þeim nótum en að gefa beinar forskriftir á Alþ. um hvernig ráðstafa skuli fjármagninu og það í jafnstórum stíl og gert er í því frv., sem hér er til umr., og reyndar í því frv., sem ég var að minnast á áðan, frá sjálfstæðismönnum um greiðslur til bænda. Mér finnst að þar sé höggvið nokkuð stórt og teknar nokkuð stórar sneiðar í einu, og mér virðist að þar sé um að ræða mjög óeðlilega forskrift af Alþingis hálfu í þessum efnum. Ég vil vekja á þessu athygli og vara við því, að þannig verði starfað í framtíðinni.