18.12.1979
Sameinað þing: 4. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

Skýrsla forsætisráðherra

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Þessar umræður hafa tekið á sig dálítið sérstakan svip, einkum og sér í lagi vegna þess að þær hafa orðið nokkurs konar skýrsla hv: þm. Steingríms Hermannssonar um gang þeirra mála sem þ jóðin bíður nú spennt eftir að fá að vita um, en það er: Hvernig endar stjórnarmyndunartilraun hans? Það var skilið við það mál hér í hálfkveðnum vísum, þannig að mér finnst ástæða til þess, þar sem við höfum enn nægan tíma, alla vega til kl. fjögur, að spyrja hv. þm. nokkurra spurninga í þeirri von að hann komi í þennan ræðustól og gefi frekari og ítarlegri svör við ýmsum áleitnum spurningum.

Spurningarnar eru til komnar vegna þeirra ummæla hans, að hann teldi litlar líkur á því að tækist að koma saman vinstri stjórn og, eins og hann orðaði það, sumir segðu að allar líkur væru á því að það tækist ekki. Og hann bætti því við, að líkast til mundi hann skila málum af sér á morgun eða næsta dag. Annað var ekki að heyra á ummælum hv. þm.

Af þessu tilefni er ástæða til að spyrja um það, hver sé hinn raunverulegi ágreiningur í sundurgreindum liðum á milli þeirra þriggja flokka sem nú eru að gera tilraun til stjórnarmyndunar.

Í öðru lagi: Hvað hefur breyst frá því að hv. þm. Steingrímur Hermannsson hóf tilraunir á grundvelli kosningasigurs Framsfl., sem hann taldi að væri ávísun á vinstri stjórn? Hvað hefur breyst frá þeim tíma og til dagsins í dag?

Í þriðja lagi: Hvort er það Alþfl. eða Alþb. sem ekki vill vinstra samstarf? Það er ástæða til að spyrja um þetta og fá skýr svör, en ekki hálfkveðnar vísur.

Hv. þm. Ragnar Arnalds lýsti hér skoðunum sínum á þingræðinu, en í þeim.kom fram að hann taldi ákaflega eðlilegt að minni hl. þings ætti meiri hl. í fjvn. Þessi skilningur er kannske til marks um það, hvernig hann og flokksmenn hans telja að þingið eigi að vera samansett í deildum eftir að búið er að kjósa það í almennum kosningum. Í Ed. tóku tveir þingflokkar sig saman og komu í veg fyrir hugsanlegan stjórnarmyndunarmöguleika milli Sjálfstfl. og Alþfl. með því að fá 10 menn saman í deildinni. (Gripið fram í: Þar lágu Danir í því!) Fulltrúi Dana hefur lokið máli sínu hérna. Hann kemur hér í ræðustól og gerir frekari grein fyrir þeim skoðunum. En við erum að ræða hér á Íslandi um mál sem kemur okkur Íslendingum verulega mikið við — um það hvort stjórnarmyndun er í burðarliðnum eða ekki, um það hvort sá maður, sem leiðir þær stjórnarmundunartilraunir, vill koma hér í ræðustól á hv. Alþ. og gera grein fyrir skoðunum sínum eða hvort hann ætlar engin svör að gefa og halda áfram að tala í hálfkveðnum vísum.

Ég ætla ekki að fara að gera að umtalsefni efnisatriði sem komu fram í ræðu hv. þm. Steingríms Hermannssonar, það voru allt gamalkunn atriði. Það var þó athyglisvert, og á það vil ég leggja áherslu, að heyra að hann taldi kjaraskerðingu í formi lægri kaupmáttar meðallauna vera óumflýjanlega á næsta ári. Síðan kom í ræðustól næstur á eftir hv. þm. Ragnar Arnalds og sagði að slíkt mundi aldrei koma til greina að áliti Alþb. Ber að skilja þetta svo, að það sé Alþb. sem hafi eyðilagt stjórnarmyndunartilraunir Steingríms Hermannssonar eða eru einhverjir aðrir maðkar í mysunni? Ég held að þjóðin vilji fá skýr svör um þetta, og ég skora á hv. þm. Steingrím Hermannsson að gera henni ljóst hvernig þessum málum er háttað á þessari stundu.