30.01.1980
Efri deild: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

77. mál, niðurgreiðsla á olíu til upphitunar húsa

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Það hafa nú að vonum orðið nokkrar umr. um þetta frv. og er ekki nema gott um það að segja. Ég hef ekki heldur miklar aths. að gera við flest sem sagt hefur verið, nema ég hef verulegar aths. að gera við það sem hv. 4. þm. Reykn. sagði. Ég er honum þakklátur fyrir það, að hjá honum kom fram sú skoðun sem liggur til grundvallar þessu frv., að það þurfi að leysa úr þeim vanda sem hér er við að glíma, það þurfi að koma til bjargar þeim sem búa við hið mikla misrétti í upphitunarmálunum. En í máli hans kom fram mjög mikill misskilningur, og ég harma að hann skuli ekki hafa kynnt sér þetta mál betur en svo að til þessa misskilnings þyrfti að koma.

Hv. þm. sagði m.a., að það væri misræmi á milli grg. þessa frv. og fskj. VI, þar sem eru útreikningar á kostnaði sem fylgir frv. Þetta er mikill misskilningur. Ef hann les fskj. VI vel sér hann að þar er m.a. sérstök tafla yfir það, hvaða áhrif það hefur ef gjaldskrár hitaveitna breytast og hækka. Þar eru tekin dæmi ef gjaldskrár eru óbreyttar, ef hækkunin verður 10%, ef hún verður 20%, ef hún verður 30% og 40%. Fleira er hér þessu til skýringar. En menn verða að hafa í huga, eins og ég tók skýrt fram í minni framsöguræðu og frv. ber með sér, að það er breytilegt fjármagn sem þarf til niðurgreiðslnanna, því að það fer á hverjum tíma eftir því hvert olíuverðið er annars vegar og hins vegar hverjar gjaldskrár hitaveitnanna eru. (Gripið fram í.) Hv. 4. þm. Reykn. kallaði hér fram í og sagði: Niðurlagið. — En hvað stendur í niðurlagi VI. fskj.? „Ef tekið verður tillit til væntanlegra hækkana á gjaldskrám hitaveitna, virðist mega gera ráð fyrir um 7 milljarða niðurgreiðslum á árinu 1980.“ (Gripið fram í.) Já, með ákveðnum forsendum. Samkv. því dæmi kemur út að þetta geti verið 8.35 milljarðar. Í grg. er sagt 7–8 milljarðar, og ég hygg að menn sjái ekki mikið misræmi hér á milli. Ég held að það sé nánast samræmi. En það er sagt í grg. 7–8 milljarðar, af því að það er ekki hægt að segja um þetta nákvæmlega af þeim ástæðum sem ég greindi. Mér finnst því ekki að þetta sé veigamikið ádeiluefni á þetta frv.

En öllu furðanlegri var aths. þessa hv. þm. um þann viðbótarkostnað til olíuniðurgreiðslu sem fælist í þessu frv. og því sem ég sló fram í framsöguræðu minni, að hann næmi um 1% af fjárlögum. Hv. þm. segir að þetta sé rangt, það eigi að standa 1.9%. Í framsöguræðu minni gerði ég skýrt grein fyrir því, að það, sem ég átti við, væri viðbótarkostnaður frá því að það giltu óbreyttar reglur um niðurgreiðslu á olíu sem nú gilda. Það var skýrt tekið fram. Hv. þm. vitnaði í fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, og sagði að í því væru áætlaðir 2.3 milljarðar til niðurgreiðslu í ár, og hann miðar við þessa tölu. Í samræmi við það, sem ég var að segja, miða ég við þá tölu sem það kostar að fylgja óbreyttum reglum, og ef hv. þm., sem ég efast ekki um, hefur lesið grg. með fjárlagafrv., þá er þar tekið fram, að miðað við óbreyttar reglur þurfi 3.6 milljarða og það er sú tala sem ég miða við. En hv. þm. vill taka sem heilagan sannleik eða grundvöll til að byggja á það sem hæstv. fjmrh. hefur lagt til í því fjárlagafrv. sem hér er. Það geri ég ekki. Ég geng út frá þeim reglum sem nú gilda, vegna þess að ég reikna ekki með að neinn hv. þm. vilji afnema niðurgreiðslurnar eða minnka þær frá því sem nú er. Og það er náttúrlega fáránlegur heilaspuni þegar hv. þm. finnur á þessum forsendum út að ég reikni með eða það sé nánast stefna mín eða míns flokks, eins og hann var að ýja að, að næstu fjárlög væru upp á 600 milljarða. Allt er þetta misskilningur sem ég veit að svo ágætur þm. og greinargóður sem hv. 4. þm. Reykn. sér þegar málið er athugað.

Aðrir ræðumenn í þessum umr. hafa komið inn á kostnaðarhlið málsins, sem er að sjálfsögðu eðlilegt, enda ræddi ég líka sérstaklega um hana. Einhver sagði að það væri ókostur á þessu frv. að ekki væri tekið fram hvernig ætti að afla fjár til að standa undir niðurgreiðslunum. Það er sjónarmið út af fyrir sig. Ég minni á það, að fyrst þegar niðurgreiðslurnar voru teknar upp, árið 1974, voru samþ. tvenn lög í þessu efni. Annars vegar voru reglurnar og ákvörðunin um að olía skyldi niðurgreidd. Hins vegar var svo frv. um hvernig fjárins skyldi aflað, og það var þá með þeim hætti að lagt var 1% gjald á söluskattsstofn. Og ef við værum jafnstórhuga núna og menn voru við miklu minna vandamáli árið 1974, þá ætti þessi gjaldstofn nú að gefa rúma 5 milljarða. En hvers vegna er þá ekki nú, þrátt fyrir það sem var gert 1974, í sömu lögum gert ráð fyrir að ákveðin sé leiðin til fjáröflunar? Það eru sérstakar ástæður fyrir því. Auðvitað hefðum við flm. gjarnan viljað taka það upp í frv., en hér er um svo mikil fjárútlát að ræða, að það er ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir að það hljóti að mótast að einhverju leyti eða öllu leyti af því, hver stjórnarstefnan er, hver er stefna ríkisstj. í ríkisfjármálunum. Og við vitum það allir jafnvel, að þá stefnu er ekki að fyrirfinna eins og stendur.

Eðlilegt framhald af þessu máli hlýtur að verða að það verði ákveðið og kveðið á um hvernig fjárins verður aflað. Það kann að vera að það geti legið ljósar fyrir áður en frv. kemur aftur til hv. d. úr meðferð n. Ég held því að við ættum ekki að gera of mikið úr þessu atriði á þessu stigi málsins. Mergurinn málsins er, eins og hv. meðfim. minn, hv. 5. þm. Vesturl., sagði, að ákveða að komið verði til bjargar í þeim vanda sem sá hluti þjóðarinnar á við að búa sem býr við olíukyndingu. Hér hefur enginn talað í þessum umr. sem ekki viðurkennir þennan vanda. Ég tók það fram og það er tekið fram í grg. okkar flm., að það verði að líta á þetta frv. út frá þeirri skoðun, að hinum óbærilegu byrðum þeirra, sem búa við olíukyndingu, megi jafna við tjón vegna náttúruhamfara eða annarrar óáranar. Ef þetta er rétt, þá er skrum eitt og hræsni að segja þetta, ef menn bregðast þá ekki við eins og vandinn væri svo mikill sem í þessu felst og að við eigum að vera ákveðnir að leysa þennan vanda. Við erum ekki sjálfum okkur samkvæmir ef við gerum það ekki. Ef þarf að bjarga manni í nauðum, þá gera menn það, en eru ekki að tefja tímann og stofna öllu í bráðan voða með því að segja: Það verður fyrst að ákveða hvernig á að borga þessa björgun.

Málið liggur einfaldlega svona fyrir. Með þessum orðum mínum er ég ekki að gera lítið úr kostnaðarhlið þessa máls, þvert á móti. En með því að samþykkja þetta frv. óbreytt eða í breyttu formi erum við að taka ákvörðun um það, að við ætlum að vera sjálfum okkur samkvæmir, ekki aðeins að úthella tárum yfir þeim vanda sem þetta fólk hefur við að glíma. Við ætlum að leysa vandann.

Ég held að það sé ákaflega þýðingarmikið að hraða afgreiðslu þessa máls svo sem verða má. Það er ákaflega þýðingarmikið að fyrir liggi vilji Alþingis í þessu efni þegar gengið verður frá afgreiðslu fjárlaga. Þó sé ég ekki að það sé um annað að ræða en annaðhvort verði farin sú leið, sem hefur verið farin síðan 1977, að ákveða í fjárlögum þá upphæð í þessar þarfir sem nauðsynlegt er, eða þá hin leiðin, sem ég kom einnig inn á í minni framsöguræðu, að taka upp þráðinn frá 1974 og ákveða sérstakan tekjustofn, markaðan tekjustofn í þessu skyni.

Ég sagði áðan, að ég vonaðist til að afgreiðslu þessa máls yrði hraðað. Ég vil láta þess getið, að ég hef átt viðræður við hv. þm. Hjörleif Guttormsson, sem er formaður iðnn. Nd., og er gert ráð fyrir að geta haft sameiginlega fundi nefndanna beggja.

Hv. 4. þm. Reykn. lýsti þeirri skoðun sinni, að þetta mál ætti ekki að fara til iðnn., heldur til fjh.- og viðskn. af því að hér væri um fjárhagsmál að ræða. Mig furðar á því, að jafnþingvanur maður og þessi hv. þm. er skuli koma með slíka hugmynd sem þessa. Ef þetta ætti að vera reglan, þá yrðum við að breyta þingsköpum frá því sem nú er og yrðum að taka upp allt aðrar venjur en við höfum búið við, ég vil segja frá því að Alþingi var endurreist. Það er nú einu sinni svo, að það er varla nokkurt frv. sem felur ekki í sér einhver fjárútlát. Og ég er hræddur um, ef ætti að fylgja þessari reglu, að það væru nokkuð mörg frv. sem færu til fjh.- og viðskn. Ég held að við gætum þá farið að leggja niður hinar nefndirnar. Málum þessa efnis hefur auðvitað alltaf verið vísað til iðnn., frv. báðum 1974, og annað fjallaði um skattlagningu sem hefði þýtt á þessu ári, eins og ég sagði áðan, rúma 5 milljarða útgjöld. Því var vísað til iðnn. Það er ekki ástæða að fjölyrða frekar um svo augljóst mál sem þetta.

Ég vil að lokum biðja menn að hafa í huga viss atriði varðandi þetta frv., hafa það í huga að þetta frv. fjallar einungis um niðurgreiðslu olíu. Það er ekki vegna þess að verðjöfnun orkugjafa almennt þurfi ekki að taka til meðferðar, en sumir hv. þm. hafa vikið að því. En það mál er miklu víðtækara, og ég hef orðað það svo, að það væri í vissri biðstöðu. Engum, sem er inni í þeim málum dettur í hug að á því fáist heildarlausn á næstu vikum eða mánuðum. Við höfum kosið að taka út úr þennan þátt, sem ekki þolir bið, til þess að fá skjóta lausn, enda gerir frv. ráð fyrir að ákvæði þessa frv. gildi frá síðustu áramótum.

Ég vil enn fremur minna á það, að frambúðarlausn á þeim málum, sem þetta frv. fjallar um, er fólgin í því, að þær framkvæmdir verði gerðar í orkumálunum í landinu sem nauðsynlegar eru til þess að það sé hægt að leysa olíuna af hólmi sem orkugjafa til upphitunar húsa. Þess vegna er þetta frv. í eðli sínu um bráðabirgðaráðstafanir. En það þarf að gera bráðabirgðaráðstafanir vegna þess að málið þolir ekki bíð, og því leggjum við áherslu að afgreiðslu þess verði flýtt.